Túlkun í orðasamhengi: "vilji leigutaki selja eignir sínar á lóðinni, á leigusali forkaupsrétt að öðru jöfnu" Spurningin er: hvað þýðir í þessu tilfelli og eflaust öðrum: "að öðru jöfnu"?Orðasambandið „að öðru jöfnu“ er þýðing á latnesku orðunum 'ceteris paribus'. Orðasambandið hefur verið þýtt á íslensku sem „að öðru jöfnu“, „að öllu jöfnu“ eða „að öllu öðru óbreyttu“. Orðasambandið er til að mynda notað í hagfræði og við þýðingu EES-gerða og tilskipana. Notkun orðanna gefur í skyn að niðurstaðan sem lögð er fram er gerð með þeim áskilnaði að engir utanaðkomandi þættir hafi áhrif á hana. Einfalt dæmi væri „ég fer að öllu jöfnu heim eftir vinnu“. Hér gefa orðin „að öllu jöfnu“ í skyn að stundum fari ég ekki beint heim eftir vinnu, ef til vill býður samstarfsfólk mitt mér í kvikmyndahús og þá fer ég þangað beint eftir vinnu, áður en heim er haldið. En setningunni er aðallega ætlað að miðla því að ef ekkert annað kemur til, fari ég beint heim eftir vinnu.
- Writing Contract Business Relation - Credit to informedmag… | Flickr. (Sótt 27.10.2021). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0.