Hausstór fiskur og afturmjór. Kjaftur stór, með smáar tennur. Augu eru í meðallagi og framan við þau eru tveir gaddar og aðrir tveir aftast á augabrúnum. Á vangabeini eru þrír broddar, og er sá efsti stærstur. Á efra tálknaloksbeini er sterklegur gaddur og einn á neðra tálknaloki. Bolur er stuttur og stirtla er grönn. Bakuggar eru tveir og er sá aftari lengri. Andspænis honum er raufarugginn örlítið styttri. Sporður er í meðallagi. Eyruggar eru mjög stórir og breiðir. Kviðuggar eru langir. Á hængum eru smábeinörður dreifðar á hliðum beggja vegna rákarinnar, en annars er roðið slétt. Hængur er með lim.Hér við land er algengt að marhnútur sé 20-25 cm á lengd en getur orðið allt að 40 cm langur. Norðar í höfum getur hann orðið mun lengri eða allt að 60 cm. Marhnútur tilheyrir marhnútaætt (Cottidae). Nokkrar tegundir ættarinnar lifa innan íslensku efnahagslögsögunnar en marhnúturinn er stærstur þeirra. Hinar tegundirnar minna að ýmsu leiti á marhnútinn. Meðal þeirra er krækill (Artediellus atlanticus) sem er mun minni en marhnúturinn og heldur sig á meira dýpi. Önnur tegund er fuðriskill (Icelus bicornis) sem er meiri kaldsjávartegund og hefur fundist norður af landinu. Aðrar tegundir ættarinnar sem hafa fundist innan efnahagslögsögunnar eru litli marhnútur (Taurulus lilljeborgi) og þrömmungur (Triglos murrayi). Heimild og myndir:
- Gunnar Jónsson, 2006. Íslenskir fiskar. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
- Útbreiðslukort: FishBase.
- Mynd af marhnút: ZeeInZicht.