Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er sjávartengd ferðaþjónusta?

Anna Karlsdóttir

Sjávartengd ferðaþjónusta er ferðamennska á eða við sjó. Þessi tegund ferðamennsku er einkar mikilvæg eylöndum þar sem þau eru umlukin sjó og hafið hefur alltaf skipt miklu máli fyrir afkomu, samgöngur og menningu.

Maðurinn hefur frá fornu fari leitað til hafs og strandar, ekki bara sér til lífsviðurværis, heldur líka til skemmtunar eða dægrastyttingar. Strandferðamennska hefur til dæmis lengi verið mjög vinsæl hjá fólki af norðlægari breiddargráðum sem flykkist í stórum hópum til suðlægari landa. Fyrir því eru margar ástæður auk sólar og hagstæðs veðurfars. Ströndin og sjórinn eru það náttúrlega umhverfi sem höfðar hvað sterkast til allra skilningarvita og fólk tengir slíkt umhverfi við frelsi eða áhyggjulausar nautnir (Boniface & Cooper 2005, bls. 37-38).

Sjávartengd ferðamennska tekur á sig ýmsar myndir og þau dæmi sem nefnd verða hér á eftir eru aðeins lítið brot af því sem talist getur til ferðaþjónustu af þessu tagi.

Sú tegund sjávartengdrar ferðamennsku sem ef til vill er augljósust eru ferðalög með skemmtiferðaskipum. Skemmtiferðasigling er skilgreind sem ferðalag á sjó með skipi sem er hannað sérstaklega til skemmtiferða (Collins English Dictionary í Dowling, 2006, bls. 3). Ferðir skemmtiferðaskipa eru ólíkar annars konar farþegaflutningum á sjó eða vatni þar eð dvölin um borð er verulegur hluti ferðalagsins en ekki bara leið til þess að komast á milli staða. Aðbúnaður skipanna jafnast á við flottustu áfangastaði í landi og þar með eru skipin orðin að fljótandi ferðamannastað (Ward, 2007).



Skemmtiferðaskipið The Norwegian Sun er eitt fjölmargra skipa sem siglir frá Vancouver í Kanada til Alasaka. Skipið tekur rúmlega 2000 farþega auk tæplega 1000 manna áhafnar.

Ferðir með skemmtiferðaskipum er sú grein ferðaþjónustu sem er í hvað örustum vexti ef miðað er við farþegafjölda á heimsvísu. Sem dæmi má nefna að farþegar skemmtiferðaskipa voru 8,5 milljónir árið 1997 en árið 2005 voru þeir orðnir 13,4 milljónir. Ísland tekur virkan þátt í móttöku skemmtiferðaskipa og hefur farþegum sem heimsækja landið á þann hátt fjölgað umtalsvert undanfarin ár. Árið 2006 komu 60 þúsund farþegar með skemmtiferðaskipum til Íslands. Vinsælustu hafnirnar eru Reykjavík, Akureyri, Ísafjörður, Grundarfjörður og Reykjanesbær.

Annað dæmi um sjávartengda ferðaþjónustu er aðstaða, þjónusta og afþreying fyrir siglingafólk. Víða hafa smábátahafnir og legufæri (marinas) stækkað mikið undanfarinn áratug þar sem sífellt fleiri eiga lystibáta af einhverju tagi og þegar þeir taka land annars staðar en í heimahöfn er þetta siglingafólk vissulega ferðamenn.

Framboð á afþreyingu sem flokkast undir sjávartengda ferðaþjónustu hefur aukist undanfarin ár og jafnframt hefur fjölbreytnin aukist. Sem dæmi má nefna að á sífellt fleiri stöðum er hægt að stunda sjóstangaveiði sem hefur jafnvel orðið grundvöllur ferðaþjónustunnar á ákveðnum stöðum. Til að mynda koma þýskir ferðamenn í hópum á sumrin og dvelja viku í senn í sjávarþorpum á Vestfjörðum til þess eins að veiða á sjóstöng.

Friðlýsingar og ferðamennska er gjarnan samtvinnuð, þannig hafa fleiri hafsvæði verið friðuð á undanförnum árum til að tryggja viðhald líffræðilegs fjölbreytileika af ýmsu tagi, svo sem kóralla, sjávardýra og fuglalífs, en einnig til yndisauka fyrir ferðamenn. Breiðafjörðurinn er eina hafsvæðið í íslenskri landhelgi sem er friðað og þar er vinsælt að sigla með ferðamenn. Skemmtisjóferðir af ýmsu tagi eru einmitt algeng þjónusta við ferðamenn í ýmsum sjávarbyggðum landsins auk þess sem farþegum í hvalaskoðun hefur fjölgað töluvert síðari ár.



Ósvör í Bolungarvík er ágætt dæmi um sjávartengda ferðaþjónustu en þar er lifandi minjasafn um útgerðarhætti fyrri tíma á Íslandi.

Nokkrar vísbendingar eru um að vægi sjávartengdrar ferðamennsku og vitund um mikilvægi hennar hafi aukist síðasta áratuginn eða svo. Árið 1998 var yfirlýst ár hafsins á vegum Sameinuðu þjóðanna og var þá sérstaklega einblínt á strandferðamennsku og afþreyingu. Evrópusambandið lagði einnig áherslu á endurbætur í strandtengdri ferðamennsku í stórfelldri áætlun um aldamótin 2000.

Margar borgir notfæra sér sérstaklega nálægð við hafið í markaðssetningu sinni á ferðaþjónustu. Sem dæmi má nefna að Bergen, sem er sú borg í Norður-Evrópu sem fær flestar heimsóknir frá farþegum skemmtiferðaskipa, byggir á menningararfleifð nátengdri sjósókn og samgöngum á hafi. Dundee í Skotlandi var áður mikilvæg hvalveiðihöfn en þar hefur nú byggst upp safnastarfsemi sem byggir á þeirri arfleifð. Svipaða sögu má segja af síldarminjasafni á Siglufirði, Ósvör í Bolungarvík og saltfiskssetri í Grindavík. Auk þess eru fleiri bæir á Íslandi sem höfða til sjávartengdrar arfleifðar með hátíðum, til dæmis fiskidagurinn mikli á Dalvík, hátíð hafsins í Reykjavík og bryggjuböll sem haldin eru ár hvert víða við sjávarsíðuna.

Heimildir og myndir:

  • Anna Karlsdóttir & Hendriksen, Kåre (2006). Et komparativt studie af Islands og Grønlands position i forhold til udviklingen af krydstogtsturisme i Arktis. København: Institut for Produktion og ledelse, Danmarks tekniske universitet.
  • Boniface, Brian & Chris Cooper (2005). Worldwide destinations – The geography of travel and tourism. Amsterdam: Elsevier – Butterworth Heinemann.
  • Dowling, Ross. K, ed. (2006). Cruise Ship Tourism. Cambridge USA: Cabi.
  • European Commission (2000). Towards quality coastal tourism – Integrated quality management (IQM) of coastal tourist destinations. Enterprise Directorate-General Tourism Unit. Brussel
  • Ward, Douglas (2007). Guide to Cruising & Crusing Ships 2007, London: Berlitz.
  • Ævar Petersen, Guðríður Þorvarðardóttir, Jeanne Pagnan & Sigmundur Einarsson (1998). Breiðafjörður, west Iceland: an arctic marine protected area. Parks, 8(2); 23-28.
  • Mynd af skemmtiferðaskipi: Cruise ship á Wikipedia, the free encyclopedia
  • Mynd frá Ósvör: BB.is

Höfundur

lektor í landfræði og ferðamálafræði við HÍ

Útgáfudagur

14.11.2007

Spyrjandi

Hólmfríður Erlingsdóttir

Tilvísun

Anna Karlsdóttir. „Hvað er sjávartengd ferðaþjónusta?“ Vísindavefurinn, 14. nóvember 2007, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6904.

Anna Karlsdóttir. (2007, 14. nóvember). Hvað er sjávartengd ferðaþjónusta? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6904

Anna Karlsdóttir. „Hvað er sjávartengd ferðaþjónusta?“ Vísindavefurinn. 14. nóv. 2007. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6904>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er sjávartengd ferðaþjónusta?
Sjávartengd ferðaþjónusta er ferðamennska á eða við sjó. Þessi tegund ferðamennsku er einkar mikilvæg eylöndum þar sem þau eru umlukin sjó og hafið hefur alltaf skipt miklu máli fyrir afkomu, samgöngur og menningu.

Maðurinn hefur frá fornu fari leitað til hafs og strandar, ekki bara sér til lífsviðurværis, heldur líka til skemmtunar eða dægrastyttingar. Strandferðamennska hefur til dæmis lengi verið mjög vinsæl hjá fólki af norðlægari breiddargráðum sem flykkist í stórum hópum til suðlægari landa. Fyrir því eru margar ástæður auk sólar og hagstæðs veðurfars. Ströndin og sjórinn eru það náttúrlega umhverfi sem höfðar hvað sterkast til allra skilningarvita og fólk tengir slíkt umhverfi við frelsi eða áhyggjulausar nautnir (Boniface & Cooper 2005, bls. 37-38).

Sjávartengd ferðamennska tekur á sig ýmsar myndir og þau dæmi sem nefnd verða hér á eftir eru aðeins lítið brot af því sem talist getur til ferðaþjónustu af þessu tagi.

Sú tegund sjávartengdrar ferðamennsku sem ef til vill er augljósust eru ferðalög með skemmtiferðaskipum. Skemmtiferðasigling er skilgreind sem ferðalag á sjó með skipi sem er hannað sérstaklega til skemmtiferða (Collins English Dictionary í Dowling, 2006, bls. 3). Ferðir skemmtiferðaskipa eru ólíkar annars konar farþegaflutningum á sjó eða vatni þar eð dvölin um borð er verulegur hluti ferðalagsins en ekki bara leið til þess að komast á milli staða. Aðbúnaður skipanna jafnast á við flottustu áfangastaði í landi og þar með eru skipin orðin að fljótandi ferðamannastað (Ward, 2007).



Skemmtiferðaskipið The Norwegian Sun er eitt fjölmargra skipa sem siglir frá Vancouver í Kanada til Alasaka. Skipið tekur rúmlega 2000 farþega auk tæplega 1000 manna áhafnar.

Ferðir með skemmtiferðaskipum er sú grein ferðaþjónustu sem er í hvað örustum vexti ef miðað er við farþegafjölda á heimsvísu. Sem dæmi má nefna að farþegar skemmtiferðaskipa voru 8,5 milljónir árið 1997 en árið 2005 voru þeir orðnir 13,4 milljónir. Ísland tekur virkan þátt í móttöku skemmtiferðaskipa og hefur farþegum sem heimsækja landið á þann hátt fjölgað umtalsvert undanfarin ár. Árið 2006 komu 60 þúsund farþegar með skemmtiferðaskipum til Íslands. Vinsælustu hafnirnar eru Reykjavík, Akureyri, Ísafjörður, Grundarfjörður og Reykjanesbær.

Annað dæmi um sjávartengda ferðaþjónustu er aðstaða, þjónusta og afþreying fyrir siglingafólk. Víða hafa smábátahafnir og legufæri (marinas) stækkað mikið undanfarinn áratug þar sem sífellt fleiri eiga lystibáta af einhverju tagi og þegar þeir taka land annars staðar en í heimahöfn er þetta siglingafólk vissulega ferðamenn.

Framboð á afþreyingu sem flokkast undir sjávartengda ferðaþjónustu hefur aukist undanfarin ár og jafnframt hefur fjölbreytnin aukist. Sem dæmi má nefna að á sífellt fleiri stöðum er hægt að stunda sjóstangaveiði sem hefur jafnvel orðið grundvöllur ferðaþjónustunnar á ákveðnum stöðum. Til að mynda koma þýskir ferðamenn í hópum á sumrin og dvelja viku í senn í sjávarþorpum á Vestfjörðum til þess eins að veiða á sjóstöng.

Friðlýsingar og ferðamennska er gjarnan samtvinnuð, þannig hafa fleiri hafsvæði verið friðuð á undanförnum árum til að tryggja viðhald líffræðilegs fjölbreytileika af ýmsu tagi, svo sem kóralla, sjávardýra og fuglalífs, en einnig til yndisauka fyrir ferðamenn. Breiðafjörðurinn er eina hafsvæðið í íslenskri landhelgi sem er friðað og þar er vinsælt að sigla með ferðamenn. Skemmtisjóferðir af ýmsu tagi eru einmitt algeng þjónusta við ferðamenn í ýmsum sjávarbyggðum landsins auk þess sem farþegum í hvalaskoðun hefur fjölgað töluvert síðari ár.



Ósvör í Bolungarvík er ágætt dæmi um sjávartengda ferðaþjónustu en þar er lifandi minjasafn um útgerðarhætti fyrri tíma á Íslandi.

Nokkrar vísbendingar eru um að vægi sjávartengdrar ferðamennsku og vitund um mikilvægi hennar hafi aukist síðasta áratuginn eða svo. Árið 1998 var yfirlýst ár hafsins á vegum Sameinuðu þjóðanna og var þá sérstaklega einblínt á strandferðamennsku og afþreyingu. Evrópusambandið lagði einnig áherslu á endurbætur í strandtengdri ferðamennsku í stórfelldri áætlun um aldamótin 2000.

Margar borgir notfæra sér sérstaklega nálægð við hafið í markaðssetningu sinni á ferðaþjónustu. Sem dæmi má nefna að Bergen, sem er sú borg í Norður-Evrópu sem fær flestar heimsóknir frá farþegum skemmtiferðaskipa, byggir á menningararfleifð nátengdri sjósókn og samgöngum á hafi. Dundee í Skotlandi var áður mikilvæg hvalveiðihöfn en þar hefur nú byggst upp safnastarfsemi sem byggir á þeirri arfleifð. Svipaða sögu má segja af síldarminjasafni á Siglufirði, Ósvör í Bolungarvík og saltfiskssetri í Grindavík. Auk þess eru fleiri bæir á Íslandi sem höfða til sjávartengdrar arfleifðar með hátíðum, til dæmis fiskidagurinn mikli á Dalvík, hátíð hafsins í Reykjavík og bryggjuböll sem haldin eru ár hvert víða við sjávarsíðuna.

Heimildir og myndir:

  • Anna Karlsdóttir & Hendriksen, Kåre (2006). Et komparativt studie af Islands og Grønlands position i forhold til udviklingen af krydstogtsturisme i Arktis. København: Institut for Produktion og ledelse, Danmarks tekniske universitet.
  • Boniface, Brian & Chris Cooper (2005). Worldwide destinations – The geography of travel and tourism. Amsterdam: Elsevier – Butterworth Heinemann.
  • Dowling, Ross. K, ed. (2006). Cruise Ship Tourism. Cambridge USA: Cabi.
  • European Commission (2000). Towards quality coastal tourism – Integrated quality management (IQM) of coastal tourist destinations. Enterprise Directorate-General Tourism Unit. Brussel
  • Ward, Douglas (2007). Guide to Cruising & Crusing Ships 2007, London: Berlitz.
  • Ævar Petersen, Guðríður Þorvarðardóttir, Jeanne Pagnan & Sigmundur Einarsson (1998). Breiðafjörður, west Iceland: an arctic marine protected area. Parks, 8(2); 23-28.
  • Mynd af skemmtiferðaskipi: Cruise ship á Wikipedia, the free encyclopedia
  • Mynd frá Ósvör: BB.is
...