Ferðir með skemmtiferðaskipum er sú grein ferðaþjónustu sem er í hvað örustum vexti ef miðað er við farþegafjölda á heimsvísu. Sem dæmi má nefna að farþegar skemmtiferðaskipa voru 8,5 milljónir árið 1997 en árið 2005 voru þeir orðnir 13,4 milljónir. Ísland tekur virkan þátt í móttöku skemmtiferðaskipa og hefur farþegum sem heimsækja landið á þann hátt fjölgað umtalsvert undanfarin ár. Árið 2006 komu 60 þúsund farþegar með skemmtiferðaskipum til Íslands. Vinsælustu hafnirnar eru Reykjavík, Akureyri, Ísafjörður, Grundarfjörður og Reykjanesbær. Annað dæmi um sjávartengda ferðaþjónustu er aðstaða, þjónusta og afþreying fyrir siglingafólk. Víða hafa smábátahafnir og legufæri (marinas) stækkað mikið undanfarinn áratug þar sem sífellt fleiri eiga lystibáta af einhverju tagi og þegar þeir taka land annars staðar en í heimahöfn er þetta siglingafólk vissulega ferðamenn. Framboð á afþreyingu sem flokkast undir sjávartengda ferðaþjónustu hefur aukist undanfarin ár og jafnframt hefur fjölbreytnin aukist. Sem dæmi má nefna að á sífellt fleiri stöðum er hægt að stunda sjóstangaveiði sem hefur jafnvel orðið grundvöllur ferðaþjónustunnar á ákveðnum stöðum. Til að mynda koma þýskir ferðamenn í hópum á sumrin og dvelja viku í senn í sjávarþorpum á Vestfjörðum til þess eins að veiða á sjóstöng. Friðlýsingar og ferðamennska er gjarnan samtvinnuð, þannig hafa fleiri hafsvæði verið friðuð á undanförnum árum til að tryggja viðhald líffræðilegs fjölbreytileika af ýmsu tagi, svo sem kóralla, sjávardýra og fuglalífs, en einnig til yndisauka fyrir ferðamenn. Breiðafjörðurinn er eina hafsvæðið í íslenskri landhelgi sem er friðað og þar er vinsælt að sigla með ferðamenn. Skemmtisjóferðir af ýmsu tagi eru einmitt algeng þjónusta við ferðamenn í ýmsum sjávarbyggðum landsins auk þess sem farþegum í hvalaskoðun hefur fjölgað töluvert síðari ár.
Nokkrar vísbendingar eru um að vægi sjávartengdrar ferðamennsku og vitund um mikilvægi hennar hafi aukist síðasta áratuginn eða svo. Árið 1998 var yfirlýst ár hafsins á vegum Sameinuðu þjóðanna og var þá sérstaklega einblínt á strandferðamennsku og afþreyingu. Evrópusambandið lagði einnig áherslu á endurbætur í strandtengdri ferðamennsku í stórfelldri áætlun um aldamótin 2000. Margar borgir notfæra sér sérstaklega nálægð við hafið í markaðssetningu sinni á ferðaþjónustu. Sem dæmi má nefna að Bergen, sem er sú borg í Norður-Evrópu sem fær flestar heimsóknir frá farþegum skemmtiferðaskipa, byggir á menningararfleifð nátengdri sjósókn og samgöngum á hafi. Dundee í Skotlandi var áður mikilvæg hvalveiðihöfn en þar hefur nú byggst upp safnastarfsemi sem byggir á þeirri arfleifð. Svipaða sögu má segja af síldarminjasafni á Siglufirði, Ósvör í Bolungarvík og saltfiskssetri í Grindavík. Auk þess eru fleiri bæir á Íslandi sem höfða til sjávartengdrar arfleifðar með hátíðum, til dæmis fiskidagurinn mikli á Dalvík, hátíð hafsins í Reykjavík og bryggjuböll sem haldin eru ár hvert víða við sjávarsíðuna. Heimildir og myndir:
- Anna Karlsdóttir & Hendriksen, Kåre (2006). Et komparativt studie af Islands og Grønlands position i forhold til udviklingen af krydstogtsturisme i Arktis. København: Institut for Produktion og ledelse, Danmarks tekniske universitet.
- Boniface, Brian & Chris Cooper (2005). Worldwide destinations – The geography of travel and tourism. Amsterdam: Elsevier – Butterworth Heinemann.
- Dowling, Ross. K, ed. (2006). Cruise Ship Tourism. Cambridge USA: Cabi.
- European Commission (2000). Towards quality coastal tourism – Integrated quality management (IQM) of coastal tourist destinations. Enterprise Directorate-General Tourism Unit. Brussel
- Ward, Douglas (2007). Guide to Cruising & Crusing Ships 2007, London: Berlitz.
- Ævar Petersen, Guðríður Þorvarðardóttir, Jeanne Pagnan & Sigmundur Einarsson (1998). Breiðafjörður, west Iceland: an arctic marine protected area. Parks, 8(2); 23-28.
- Mynd af skemmtiferðaskipi: Cruise ship á Wikipedia, the free encyclopedia
- Mynd frá Ósvör: BB.is