Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Jólasálmurinn „Nóttin var sú ágæt ein“ er eftir séra Einar Sigurðsson sem var prestur í Eydölum um og eftir aldamótin 1600.
Einar fæddist að Hrauni í Aðalreykjadal í Þingeyjarsýslu 1539. Foreldrar hans voru séra Sigurður Þorsteinsson og Guðrún Finnbogadóttir. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum en var vart kominn á unglingsaldur þegar hann var eitt ár kirkjupiltur við klaustrið á Möðruvöllum. Árið 1552 fékk hann skólavist við latínuskólann á Hólum, þá þrettán ára. Eftir fimm ár í skólanum var Einar vígður og varð aðstoðarprestur á Möðruvöllum. Nokkrum árum síðar varð hann prestur í Þingeyjarsýslu, fyrst í Mývatnsþingum en svo lengst af í Nesi í Aðalreykjadal.
Árið 1589, eftir áratugi í Þingeyjarsýslu, fór Einar suður á land og dvaldi í Skálholti um stuttan tíma en þá var Oddur, elsti sonur hans, orðinn biskup í Skálholtsbiskupsumdæmi. Oddur veitti föður sínum Eydali í Breiðdal í Suður-Múlasýslu og setti hann yfir Múlaprófastsdæmi. Þangað fluttist Einar haustið 1590 og bjó þar til hann lést, 15. júlí 1626, 87 ára að aldri. Þá hafði hann gengt prestskap í um 70 ár.
Eydalir eða Heydalir - um það hefur verið deilt. Í Árbók Ferðafélagsins 2002 mælir Hjörleifur Guttormsson með því að nota Eydalir en segir „Staðurinn var að því best verður séð nefndur Eydalir um margt alda skeið, í öllu falli frá því um 1600 og fram á 20. öld. Um miðja öldina fóru að heyrast eindregin sjónarmið þess efnis að Heydalanafnið væri upprunalegra og því „réttara“ ... Um hitt er ekki deilt að staðurinn var almennt nefndur Eydalir heima fyrir a.m.k. í fjórar aldir. Sýnist því óskynsamlegt að hverfa frá þeirri nafnahefð.“ (Hjörleifur Guttormsson, 2002, bls. 212).
Einar var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Margrét Helgadóttir. Þau eignuðust átta börn en aðeins þrjú þeirra komust á legg, þar á meðal áðurnefndur Oddur, síðar biskup. Margrét lést 1568 og skömmu síðar gekk Einar að eiga Ólöfu Þórarinsdóttur og átti með henni tíu börn. Einar var af efnalitlu fólki kominn og bjó við kröpp kjör fyrri hluta ævinnar. Eftir að hann tók við Eydölum vænkaðist hagur hans og bjó hann við góð kjör síðari hluta ævinnar.
Einar var eitt af mestu skáldum sinnar tíðar og eftir hann er varðeitt meira af frumsömdum skáldskap en nokkurn annan Íslending fram að þeim tíma. Árið 1612 gaf Guðbrandur Þorláksson biskup (1541/42–1627), skólabróðir Einars frá Hólum mörgum árum fyrr, út Vísnabók og er fyrri hluti bókarinnar að miklu leyti eftir Einar. Þar er meðal annars að finna þekktasta ljóð Einars „Nóttin var sú ágæt ein“ sem í Vísnabókinni heitir „Kvæði af stallinum Kristí sem kallast Vöggukvæði“.
Kvæðið „Nóttin var sú ágæt ein“ birtist í Vikunni fyrir jólin 1940. (Myndin er aðlöguð Vísindavefnum).
Ljóðið lá í gleymsku um aldir en var prentað í tímaritinu Vikunni um jólaleytið 1940. Áður höfðu hlutar kvæðisins birst í Sýnisbók íslenskra bókmennta sem Sigurður Nordal gaf út (1. útgáfa 1924). Tónskáldið Sigvaldi Kaldslóns (1881-1946) las kvæðið þegar það var birt í Vikunni og hreifst svo af því að hann var búinn að semja lag við það á aðeins fáeinum dögum. Lagið kom síðan út í ársbyrjun 1941. Kvæðið rataði svo í Sálmabók árið 1945, reyndar aðeins sjö erindi af 28, og er mjög vinsæll jólasálmur.
Heimildir og myndir:
Einar Sigurðsson, Jón Marinó Samsonarson & Kristján Eiríksson. (2007). Ljóðmæli. Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Rit Árnastofnunar.
Einar Sigurbjörnsson. (2011, 10. desember). Nóttin var sú ágæt ein. Kirkjan. (Sótt 23.12.2020).
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Eftir hvern er jólasálmurinn „Nóttin var sú ágæt ein“ og hvenær varð hann svona þekktur?“ Vísindavefurinn, 24. desember 2020, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=69011.
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2020, 24. desember). Eftir hvern er jólasálmurinn „Nóttin var sú ágæt ein“ og hvenær varð hann svona þekktur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=69011
Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Eftir hvern er jólasálmurinn „Nóttin var sú ágæt ein“ og hvenær varð hann svona þekktur?“ Vísindavefurinn. 24. des. 2020. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=69011>.