Um forliðinn "branda-" í orðinu brandajól er það að segja, að ýmsir hafa túlkað hann svo, að þar sé átt við eldibranda. Þetta er þó engan veginn víst, og gæti allt eins verið alþýðuskýring. Árni Magnússon hefur það eftir gömlum mönnum, að nafnið sé af því dregið, að þá sé hætt við húsbruna, en "adrer hallda þad so kallad af miklum liosa brenslum". Nafngiftin hefur því valdið mönnum heilabrotum í þrjú hundruð ár að minnsta kosti, og verður svo vafalaust enn um hríð.Það er þess vegna ekki vitað hvað forliðurinn „branda-“ í orðinu brandajól merkir. Hugsanlega var átt við eldibrand en það er logandi tré og velþekkt í orðatiltækinu að 'þjóta eins og eldibrandur', það er þjóta hratt. Eins gæti verið átt við húsbruna. Heimild:
- Almanak Háskóla Íslands - Brandajól. (Skoðað 5.01.2015).
- File:Burning Wood.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 5.01.2015).