Ég hef hvergi lesið að lungu úr sauðfé hafi verið notuð til matar. Voru þau ekki borðuð?Lambalungu voru borðuð á Íslandi, soðin eða steikt, súr eða reykt. Lambalungu voru meðal annars soðin heil, étin ný eða sett soðin í súr. Líka þekktist að þau væru höfð í pylsur og jafnvel kæfu. Fólk hætti svo að borða lungu á fyrri hluta 20. aldar, hugsanlega hefur mæðiveikin sem herjaði á sauðféð á fjórða áratugnum haft þar einhver áhrif, en eitthvað lengur þekktist að sjóða kinda- og lambalungu og gefa hundum.

Því miður fundust ekki myndir af matreiddum íslenskum lambalungum en hér eru Paru goreng, steikt kýrlungu - réttur frá Indónesíu.
- Hallgerður Gísladóttir: Íslensk matarhefð. Reykjavík 1999.
- Stefán Aðalsteinsson: Sauðkindin, landið og þjóðin. Reykjavík 1981.
- Paru goreng masakan Padang.JPG - Wikimedia Commons. (Sótt 5. 9. 2016).