Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver er uppruni atviksorðsins alveg?

Aðalsteinn Eyþórsson

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Atviksorðið alveg er meðal algengustu orða í íslensku, í Íslenskri orðtíðnibók (1991) er það til að mynda talið meðal 200 algengustu orðmynda málsins. Notkun þess og merking er nokkuð fjölbreytt eins og títt er um atviksorð en helstu afbrigðin eru þessi (dæmin eru sótt í nýleg dagblöð og vefsíður):

1. Notað með sögn eða lýsingarorði í merkingunni ‘algjörlega, að fullu’
  • Það er líka vita vonlaust að hreinsa tjaldstæðið alveg af grjóti
  • Eitt íbúðarhverfið ... þurrkaðist alveg út
  • Textinn var að vísu ekki alveg heill, en það var auðvelt að geta í eyðurnar

2. Notað í með lýsingarorði, öðru atviksorði eða jafnvel nafnorði til að herða á merkingu þess
  • Þetta er alveg frábært hús með mikla sögu
  • Þetta var alveg hræðilega tafsamt
  • Það er alveg synd

3. Notað með sögn í nafnhætti um það sem er í þann veginn að gerast
  • Svo þegar ég var alveg að sofna spurði ég ömmu hvað Grýla væri að gera núna
  • Ég er eiginlega alveg að gefast upp á þessu
  • Ég er alveg að tapa mér í ættfræðinni

„Ég er alveg að tapa mér í ættfræðinni.“ Flest bendir til að atviksorðið alveg sé íslensk uppfinning fremur en lán úr öðru máli.

Atviksorðið alveg finnst ekki í orðabókum yfir forníslensku og það er heldur ekki að finna í íslenskum orðabókum 17. og 18. aldar. Undir lok 19. aldar ratar alveg loks inn í dansk-íslenska orðabók Jónasar Jónassonar (Ný dönsk orðabók 1896) sem þýðing á helt og aldeles og í byrjun 20. aldar virðist orðið vera búið að tryggja sér öruggan sess í orðabókum.

Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er eitt dæmi um alveg merkt 17. öld. Það er úr Rímum af Amúratis konungi sem eignaðar hafa verið Bjarna Jónssyni Borgfirðingaskáldi (d. 1660?) en að sögn Finns Sigmundssonar (1966) virðast rímurnar yngri en svo að það geti staðist. Næsta dæmi ritmálssafnsins er líka miklu yngra, úr Stellurímum Sigurðar Péturssonar (ortar um 1790), en það er ekki fyrr en um miðja miðja 19. öld að dæmunum fer að fjölga. Í elstu dæmunum virðist alveg jafnan vera notað á líkan hátt og í nútímamáli (merking 1) en í dæmum frá 19. öld bregður líka fyrir óvæntri notkun, frábrugðinni þeirri sem nú tíðkast:
  • í því liggur þó alveg eingin viðurkenníng á hinu, að vér álítum það rétt, að ... (Alþ 1859)
  • Vér erum alveg ekkert annað en afskömtuð guðs öfl ( BjGNjól 1853)
  • Drykkjuskapur meðal pilta er alveg enginn ( Margtsend 1883)

Alveg á skylt við fornafnið allur og nafnorðið vegur en Ásgeir Blöndal Magnússon bendir á í orðsifjabók sinni að alveg eigi sér ekki neinar beinar hliðstæður í grannmálunum, orð sem mynduð eru á sama hátt í skyldum málum (til dæmis always í ensku) skírskota flest til tíma og svara til alltaf í íslensku. Ásgeir stingur því upp á að alveg kunni að vera „nýmyndun úr á allan veg eða e.þ.u.l.“ Preben Meulengracht Sørensen (1977) gerir því skóna að alveg hafi átt sér fyrirrennara í öðru atviksorði, alvegis, sem nú er að mestu gleymt, en um það á Orðabókin dæmi frá 1820. Preben leiðir einnig að því rök að upptök alveg hafi verið á Norðurlandi, orðið hafi síðan breiðst út með skólapiltum frá Bessastöðum en hafi ekki þótt við hæfi í vönduðu ritmáli fyrr en undir lok 19. aldar.

Af framansögðu sést að flest bendir til að atviksorðið alveg sé íslensk uppfinning fremur en lán úr öðru máli og það hafi fyrst farið að ryðja sér til rúms í íslensku ritmáli seint á 19. öld, þótt það hafi líklega tíðkast í talmáli allmiklu lengur. Á 20. öld má segja að orðið hafi síðan „slegið í gegn“, það komst í hóp algengustu orða málsins og líklegt er að merkingar 2) og 3) hér að ofan hafi þróast á sama tíma.

Í upphafi 21. aldar sjást engin merki þess að velgengni alveg sé að linna, þvert á móti heyrist það nú notað í enn nýju samhengi eins og í eftirfarandi dæmum (úr dagblöðum og af Netinu):
  • Sjötta lagið hins vegar, „Ten days“, er ekki alveg að virka
  • ég er nú náttúrulega ekki alveg að fatta þetta
  • menn eru ekki alveg að standa við það sem þeir segja

Þessi notkun tengist reyndar nýmælum í meðferð nafnháttar í íslensku – en það er önnur saga.

Heimildir
  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
  • Finnur Sigmundsson. 1966. Rímnatal I-II. Rímnafélagið. Reykjavík.
  • Jörgen Pind, Friðrik Magnússon og Stefán Briem. 1991. Íslensk orðtíðnibók. Orðabók Háskólans. [Reykjavík].
  • Sørensen, Preben Meulengracht. 1977. Alveg. Bibliotheca Arnamagnæana Vol.XXV,2: Opuscula II,2; bls. 245-53.

Mynd:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Aðalsteinn Eyþórsson

íslenskufræðingur

Útgáfudagur

14.1.2015

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Aðalsteinn Eyþórsson. „Hver er uppruni atviksorðsins alveg?“ Vísindavefurinn, 14. janúar 2015, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68641.

Aðalsteinn Eyþórsson. (2015, 14. janúar). Hver er uppruni atviksorðsins alveg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68641

Aðalsteinn Eyþórsson. „Hver er uppruni atviksorðsins alveg?“ Vísindavefurinn. 14. jan. 2015. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68641>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver er uppruni atviksorðsins alveg?
Atviksorðið alveg er meðal algengustu orða í íslensku, í Íslenskri orðtíðnibók (1991) er það til að mynda talið meðal 200 algengustu orðmynda málsins. Notkun þess og merking er nokkuð fjölbreytt eins og títt er um atviksorð en helstu afbrigðin eru þessi (dæmin eru sótt í nýleg dagblöð og vefsíður):

1. Notað með sögn eða lýsingarorði í merkingunni ‘algjörlega, að fullu’
  • Það er líka vita vonlaust að hreinsa tjaldstæðið alveg af grjóti
  • Eitt íbúðarhverfið ... þurrkaðist alveg út
  • Textinn var að vísu ekki alveg heill, en það var auðvelt að geta í eyðurnar

2. Notað í með lýsingarorði, öðru atviksorði eða jafnvel nafnorði til að herða á merkingu þess
  • Þetta er alveg frábært hús með mikla sögu
  • Þetta var alveg hræðilega tafsamt
  • Það er alveg synd

3. Notað með sögn í nafnhætti um það sem er í þann veginn að gerast
  • Svo þegar ég var alveg að sofna spurði ég ömmu hvað Grýla væri að gera núna
  • Ég er eiginlega alveg að gefast upp á þessu
  • Ég er alveg að tapa mér í ættfræðinni

„Ég er alveg að tapa mér í ættfræðinni.“ Flest bendir til að atviksorðið alveg sé íslensk uppfinning fremur en lán úr öðru máli.

Atviksorðið alveg finnst ekki í orðabókum yfir forníslensku og það er heldur ekki að finna í íslenskum orðabókum 17. og 18. aldar. Undir lok 19. aldar ratar alveg loks inn í dansk-íslenska orðabók Jónasar Jónassonar (Ný dönsk orðabók 1896) sem þýðing á helt og aldeles og í byrjun 20. aldar virðist orðið vera búið að tryggja sér öruggan sess í orðabókum.

Í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er eitt dæmi um alveg merkt 17. öld. Það er úr Rímum af Amúratis konungi sem eignaðar hafa verið Bjarna Jónssyni Borgfirðingaskáldi (d. 1660?) en að sögn Finns Sigmundssonar (1966) virðast rímurnar yngri en svo að það geti staðist. Næsta dæmi ritmálssafnsins er líka miklu yngra, úr Stellurímum Sigurðar Péturssonar (ortar um 1790), en það er ekki fyrr en um miðja miðja 19. öld að dæmunum fer að fjölga. Í elstu dæmunum virðist alveg jafnan vera notað á líkan hátt og í nútímamáli (merking 1) en í dæmum frá 19. öld bregður líka fyrir óvæntri notkun, frábrugðinni þeirri sem nú tíðkast:
  • í því liggur þó alveg eingin viðurkenníng á hinu, að vér álítum það rétt, að ... (Alþ 1859)
  • Vér erum alveg ekkert annað en afskömtuð guðs öfl ( BjGNjól 1853)
  • Drykkjuskapur meðal pilta er alveg enginn ( Margtsend 1883)

Alveg á skylt við fornafnið allur og nafnorðið vegur en Ásgeir Blöndal Magnússon bendir á í orðsifjabók sinni að alveg eigi sér ekki neinar beinar hliðstæður í grannmálunum, orð sem mynduð eru á sama hátt í skyldum málum (til dæmis always í ensku) skírskota flest til tíma og svara til alltaf í íslensku. Ásgeir stingur því upp á að alveg kunni að vera „nýmyndun úr á allan veg eða e.þ.u.l.“ Preben Meulengracht Sørensen (1977) gerir því skóna að alveg hafi átt sér fyrirrennara í öðru atviksorði, alvegis, sem nú er að mestu gleymt, en um það á Orðabókin dæmi frá 1820. Preben leiðir einnig að því rök að upptök alveg hafi verið á Norðurlandi, orðið hafi síðan breiðst út með skólapiltum frá Bessastöðum en hafi ekki þótt við hæfi í vönduðu ritmáli fyrr en undir lok 19. aldar.

Af framansögðu sést að flest bendir til að atviksorðið alveg sé íslensk uppfinning fremur en lán úr öðru máli og það hafi fyrst farið að ryðja sér til rúms í íslensku ritmáli seint á 19. öld, þótt það hafi líklega tíðkast í talmáli allmiklu lengur. Á 20. öld má segja að orðið hafi síðan „slegið í gegn“, það komst í hóp algengustu orða málsins og líklegt er að merkingar 2) og 3) hér að ofan hafi þróast á sama tíma.

Í upphafi 21. aldar sjást engin merki þess að velgengni alveg sé að linna, þvert á móti heyrist það nú notað í enn nýju samhengi eins og í eftirfarandi dæmum (úr dagblöðum og af Netinu):
  • Sjötta lagið hins vegar, „Ten days“, er ekki alveg að virka
  • ég er nú náttúrulega ekki alveg að fatta þetta
  • menn eru ekki alveg að standa við það sem þeir segja

Þessi notkun tengist reyndar nýmælum í meðferð nafnháttar í íslensku – en það er önnur saga.

Heimildir
  • Söfn Orðabókar Háskólans.
  • Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans. Reykjavík.
  • Finnur Sigmundsson. 1966. Rímnatal I-II. Rímnafélagið. Reykjavík.
  • Jörgen Pind, Friðrik Magnússon og Stefán Briem. 1991. Íslensk orðtíðnibók. Orðabók Háskólans. [Reykjavík].
  • Sørensen, Preben Meulengracht. 1977. Alveg. Bibliotheca Arnamagnæana Vol.XXV,2: Opuscula II,2; bls. 245-53.

Mynd:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

...