Er raunhæft að ætla að kjarnorkuver knúin þóríni geti leyst orkuvanda heimsins að einhverju eða miklu leyti? Er mikill geislavirkur úrgangur af slíku ferli?Einnig hefur verið spurt:
Af hverju er þórín ekki vinsælla en úran fyrir kjarnorku?Þórín er áhugaverður orkugjafi. Ef farið er til baka í tíma, til upphafsdaga kjarnorkunnar, virðast þórín og úran hafa verið álíka álitlegir valkostir. Hins vegar varð úran ofan á vegna möguleikans á að þróa kjarnorkuvopn. Það er þó misskilningur að ekki sé hægt að nota þórín til þess, en það er flóknara og hættulegra ferli[1]. Það er erfitt að svara því hvort þórín komi til með að leysa hluta af orkuvanda heimsins. Unnið hefur verið að því að nota þórín í yfir 50 ár en lítið gengið. Ekki er hægt að nota núverandi kjarnorkuver, án verulegra breytinga, til framleiðslu orku með þóríni. Framleiðslan krefst hærri hita en núverandi framleiðsluaðferðir og til skamms tíma verður hættulegri geislun til við framleiðsluferlið. Ný kjarnorkuver fyrir þórín eru því enn sem komið er töluvert dýrari. Hins vegar er minni hætta á slysum ef eitthvað bilar því hægt er að stöðva ferlið á einfaldan máta þegar þórín er notað. Kjarnorka er þar að auki nú þegar dýr orka[2], þannig að það fer mikið eftir framboði og tækniframförum í geymslu eða miðlun raforku hvort kjarnorka verði notuð mikið í framtíðinni. Sennilegt er að minna verði til af geislavirkum úrgangi við orkuvinnslu með þóríni, en ekki er komin reynsla á það. Hins vegar verður til hættulegri gammageislun til skamms tíma og annars konar úrgangur[3]. Til lengri tíma er þó minna af hættulegum úrgangi í Th-U orkuvinnslu en U-Pu orkuvinnslu. Þetta eru engu að síður hættuleg efni sem þarf að losna við í langan tíma[4]. Vinnsla orku með þóríni er því að mörgu leyti svipuð núverandi framleiðslu kjarnorku. Vissulega er minna af geislavirkum úrgangi, en engu að síður þarf að losna við hann og til er tækni til að minnka geislavirkan úrgang frá núverandi kjarnorkuverum töluvert. Tilvísanir:
- ^ Common Myths and Misconceptions about Thorium going ’round - Whatisnuclear.com. (Skoðað 10. 3. 2017).
- ^ U.S. Energy Information Administration (EIA). (Skoðað 10. 3. 2017).
- ^ What is nuclear? / Thorium As Nuclear Fuel: the good and the bad - Whatisnuclear.com. (Skoðað 10. 3. 2017).
- ^ Department of Energy and Climate Change. 2012. Comparison of thorium and uranium fuel cycles. National Nuclear Laboratory Ltd. (Skoðað 10. 3. 2017).
- Th Periodic Table 00 | Th Thorium icon | Gordon McDowell | Flickr. Birt undir Creative Commons Attribution-ShareAlike 2.0 Generic. (Sótt 10. 3. 2017).