Árið 1947 voru tveir togarar keyptir til Patreksfjarðar, Gylfi og Vörður. Þeir hafa ávallt verið kallaðir „sáputogarar“. Hvaðan kemur sú nafngift?Það er einföld skýring á því af hverju nokkur fjöldi enska togara gekk undir heitinu sáputogarar: Þeir voru notaðir til að greiða fyrir skuldir Þjóðverja til fyrirtækis í Bretlandi sem var þekkt fyrir framleiðslu á sápu. Umræddir togarar voru smíðaðir í þýsku hafnarborgunum Bremen og Wesermünde af skipasmíðafyrirtækinu Seebeckwerft A.G. og afhentir árið 1936 til alþjóðlega fyrirtækisins Unilever í Bretlandi. Það hafði orðið til í ársbyrjun 1930, við samruna breska fyrirtækisins Lever Brothers, sem framleiddi þekktar sápur og hreinsiefni eins og Lux, Vim og Sunlight Soap, og hollenska fyrirtækisins Margarine Unie, sem var þá stærsti framleiðandi smjörlíkis á Bretlandi. Fyrirtækið Leverhulme Ltd. var hluti af fyrirtækjasamsteypunni Unilever og sá um pöntun á togurunum. Styrktarsjóðurinn The Leverhulme Trust á enn í dag hlut í Unilever-fyrirtækinu. Svo virðist sem útistandandi skuldir Þjóðverja, meðal annars vegna kaupa þeirra á Sunlight Soap, hafi ekki fengist greiddar með peningum. Greiðslan hafi því farið fram með vöruskiptum þar sem allt að 15 togarar hafi verið smíðaðir og sendir til Bretlands. Af þessum sökum voru togararnir bæði nefndir Sunlight-togarar og sáputogarar.
- Lever Brothers - Wikipedia. (Sótt 9.02.2023).
- Leverhulme Trust - Wikipedia. (Sótt 9.02.2023).
- Mac Fisheries - Wikipedia. (Sótt 9.02.2023).
- Margarine Unie - Wikipedia. (Sótt 9.02.2023).
- Northern Gem GY 204 – Deep Sea Trawlers. (Sótt 9.02.2023).
- Our History | Unilever global company website - 1900 - 1950 | Unilever. (Sótt 9.02.2023).
- Sjómannablaðið Víkingur - 1. Tölublað (01.02.2006) - Tímarit.is. (Sótt 9.02.2023).
- Ægir - 6. tölublað (01.06.2005) - Tímarit.is. (Sótt 9.02.2023).
- Sunlight (cleaning product) - Wikipedia. (Sótt 9.02.2023).
- Northern Wave GY 184 – Deep Sea Trawlers. (Sótt 9.02.2023).