Meðalgeisli (radíus) jarðar er um 6.370.000 m (6.370 km) þannig að rúmmál hnattarins er 4/3 * π * r3 = 1,08x1021 m3. Hugmyndir um innri gerð jarðar hafa menn úr ýmsum áttum, en jarðskjálftamælingar sýna að í sem stærstum dráttum skiptist hún í þrennt. Í miðju jarðar er kúlulaga jarðkjarni með um 3470 km geisla (radíus); utan um kjarnann er hjúpur, jarðmöttullinn, sem nær frá um 2900 km dýpi langleiðina til yfirborðsins. Yst er jarðskorpan sem skiptist í 40 km þykka meginlandsskorpu og 6-7 km þykka hafsbotnsskorpu. Um eðli og samsetningu kjarna og möttuls er sitthvað vitað, fyrst út frá jarðskjálftamælingum, en einnig eru loftsteinar taldir vera brot úr hnöttum sem líktust að ýmsu leyti jörðinni þótt smærri væru. Þannig eru járnsteinar taldir vera einhvers konar sýnishorn af kjarna jarðar og bergsteinar af möttlinum. Járnsteinar eru að mestu úr kristölluðu járni (með nikkel og fleiri efni í litlum mæli), en bergsteinar úr járn-magnesíum silíkötum, einkum ólivíni (Fe0,09 Mg0,91)2SiO4. Taflan hér að neðan sýnir rúmmál hvers hluta jarðarinnar, eðlisþyngd, reiknaðan massa (rúmmál x eðlisþyngd), styrk járns (reiknaðan sem Fe) og loks massa járns í hverjum hluta. Í möttlinum er járnið um 13% FeO, í basaltskorpu 10% FeO og 1,3% Fe2O3 (oxað járn) en í meginlandsskorpu um 3,5% FeO og 0,7% Fe2O3.
Rúmmál (m3) | ρ (kg/m3) | Massi (kg) | %Fe | Massi Fe (kg) | Fe sem % af massa jarðar | |
Jörðin | 1,08x1021 | 5.531 | 5,9736x1024 | 2,32x1024 | 39 | |
Kjarni | 1,75x1020 | 10.920 | 1,91x1024 | 100 | 1,91x1024 | 32 |
Möttull | 9,08x1020 | 4.500 | 4,08x1024 | 10 | 4,08x1023 | |
Hafsbotn | 2,5x1018 | 3.000 | 7,5x1021 | 8,5 | 6,37x1020 | |
Meginlönd | 6,08x1018 | 2.800 | 1,7x1022 | 3,1 | 5,28x1020 |