Hvað merkir að biðja í tungum? Það er vitnað í svipað orðalag á nokkrum stöðum í Biblíunni. T.d. 1. Korintubréf 14:13-15 Líka Korintubréf 14:4.Fyrra Korintubréf, 14. kafli, vers 13–14 eru svona í nýjustu biblíuþýðingu:
Biðji því sá, er talar tungum, um að geta útlagt. Því að ef ég biðst fyrir með tungum, þá biður andi minn, en skilningur minn ber engan ávöxt.Þessi sami staður var í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu, hinni fyrstu á íslensku frá 1540:
Hvar fyrir sá sem tungu talar, hann biðji svo að hann útleggi það. Því fyrst eg bið með munninum, þá biður minn andi, en mitt hugskot færir öngvan ávöxt.Eins og sjá má er hjá Oddi notuð eintala, tala tungu, en merkingin er hin sama og textinn sýnir að sambandið er gamalt. Að tala tungum merkir að 'tala erlend tungumál, fleiri mál en móðurmálið'. Það kemur víða fyrir í Biblíunni en einkum í Postulasögunni og Fyrra Korintubréfi. Merkinguna má vel sjá í upphafi annars kafla Postulasögunnar:
Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.Með þessu er átt við að postularnir hafi getað boðað trúna um allan heim á tungum þeirra sem á þá hlýddu, það er þeir gátu talað ýmis erlend tungumál. Mynd: