Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Er líklegt að ebóla dreifist út fyrir Afríku, meira en einstök tilfelli, og þurfum við að hafa áhyggjur af því að sjúkdómurinn berist til Íslands?
Ebólufaraldurinn sem nú geisar í Vestur-Afríku hefur, þegar þetta er skrifað um miðjan október 2014, sýkt um 8600 manns og lagt um helming þeirra að velli. Líklega eru tilfellin miklu fleiri, kannski tugþúsundir. Ebóluveiran greindist fyrst árið 1976 í Kongó og Súdan. Hún er af flokki þráðveira (filoviridae), einstrengja RNA-veira. Veiran hefur valdið á þriðja tug faraldra, nær eingöngu í ríkjum Mið-Afríku. Dánartala er mjög há, 30-90%. Núverandi faraldur er sá mesti hingað til og sá fyrsti sem fram kemur í Vestur-Afríku. Hann hefur að mestu verið bundinn við Gíneu, Síerra Leóne og Líberíu. Hann hófst í desember 2013 með andláti tveggja ára barns, en hans varð þó ekki að fullu vart fyrr en í mars 2014 í landamærahéruðum Gíneu. Landamærin eru mjög opin, og för fólks mikil þar um, enda hefur faraldurinn farið sem eldur í sinu. Hann barst síðan til Nígeríu og síðar Senegal með flugfarþegum, en veiran hefur þó ekki náð útbreiðslu þar.
Lönd í Afríku þar sem ebólusmit hefur greinst. Tölurnar í sviga fyrir aftan ártalið segja til um fjölda tilfella. Ekki eru tölur aftan við árið 2014. Ástæðan er sú að kortið er gert það ár og þá sér ekki fyrir endann á faraldrinum sem geisar í Vestur-Afríku.
Ebóla veldur blæðandi hitasótt, einkenni eru svæsin og hröð, sjúklingarnir deyja úr blæðingum og fjölkerfabilun. Forðahýsill veirunnar er líklega ávaxtaleðurblökur. Menn sýkjast einkum með snertingu við líkamsvessa veiks fólks, við það að sinna líkum eða við að eiga við eða neyta kjöts af dýrum merkurinnar (e. bushmeat). Veiran berst ekki með úðasmiti sem er ákaflega mikilvæg staðreynd, enda er talið að „einungis“ 1-2 smitist út frá hverju tilfelli (e. basic reproduction number (R0)), samanborið við til dæmis 14-17 fyrir mislinga. Meðgöngutími er 2-21 dagar, að meðaltali 6-10 dagar, og á þeim tíma er fólk ekki smitandi.
Meðferð er engin þekkt. Um tugur sjúklingar, flestir Vesturlandabúar, hafa fengið tilraunalyfið ZMapp, blöndu þriggja einstofna manngerðra mótefna unnum úr tóbaksplöntu. Önnur lyf eru reynd, en allsendis óvitað um árangur. Þessi lyf standa þó fólki í löndunum þremur í Vestur-Afríku ekki til boða. Bóluefni er heldur ekki til reiðu, en gert ráð fyrir að tilraunir á mönnum verði hafnar í október 2014.
Hvers vegna er þessi faraldur öðruvísi en fyrri faraldrar ebólu? Þeir komu upp á afskekktum svæðum. Núverandi faraldur kom hins vegar upp á þéttbýlli svæðum þar sem landamæri eru fjölfarin og breiddist fljótt til borganna. Ef til vill er þó fátæktin og mikill skortur á innviðum sá samnefnari sem helst skýrir vandann. Siðir og venjur við frágang líka og við útfarir hafa einnig haft áhrif á gang faraldursins. Tortryggni og vantraust er mikið, ástvinir veikra eru hræddir við heilbrigðisstarfsmenn sem mæta í geimbúningum og taka sjúklinga í burtu. Veikt fólk og lík eru falin svo unnt sé að veita viðeigandi jarðarför, þar sem öll fjölskyldan kemur saman, rétt eins og hér á landi, en það auðveldar enn frekar útbreiðslu.
Hver hafa viðbrögð alþjóðasamfélagsins verið? Þau hafa verið sein og urðu loks sýnileg í júlí. Athygli vekur og áhyggjur að jafnalvarlegur sjúkdómur og ebóla skuli hafa gengið í endurteknum faröldrum allt frá 1976 án þess að gerðar hafi verið marktækar rannsóknir á lyfjameðferð eða bóluefnum. Skýringin er að öllum líkindum sú að sjúkdómurinn hefur eingöngu lagst á íbúa fátækra landsvæða í Afríku. Ekki þarf mikla spádómsgáfu til að segja til um hvað hefði gerst ef þessi sjúkdómur hefði komið fram á Vesturlöndum. Vonandi er verið að ráða bót á þessu nú.
Gæta þarf ítrustu varúðar við umönnun sjúklinga þegar grunur leikur á að um ebólusmit sé að ræða. Læknar í samtökunum Læknar án landamæra við störf í Kongó árið 2007.
En hvað með Vesturlönd svo vikið sé að spurningunni hér að framan? Vesturlandabúar sem hafa sýkst, hafa verið fluttir til ýmissa landa, svo sem Noregs, Bandaríkjanna, Spánar, Bretlands og Þýskalands, og er það umdeilt, ekki síst af siðferðilegum ástæðum. Í undantekningartilfellum (enn sem komið er) hefur fólk nýkomið frá löndum Vestur-Afríku veikst eftir komu til Vesturlanda. Þrír heilbrigðistarfsmenn (að svo komnu máli) hafa veikst í kjölfar umönnunar ebólusjúklinga á sjúkrahúsum í Bandaríkjunum og á Spáni. Líkur eru á að tilfellum af þessu tagi fjölgi á næstunni, bæði veikum flugfarþegum eða hjálparstarfsmönnum sem koma til baka til heimahaga. Slík tilfelli geta borist hingað til Íslands. Á Landspítalanum og á vegum Landlæknisembættisins er nú unnið að viðbragðsáætlun vegna þessa. Einnig er mögulegt að fleiri heilbrigðisstarfsmenn veikist á Vesturlöndum. Hins vegar er útilokað að ebóla nái að breiðast út sem heimsfaraldur. Til þess er heilbrigðisþjónusta og innviðir á Vesturlöndum of öflug. Óttinn er hins vegar mikill og skiljanlegur.
Meginvandinn við ebólu er ekki hér á Vesturlöndum, hann er í Vestur-Afríku, þar sem eins og áður sagði mikill skortur innviða, víðtæk fátækt og ýmsir siðir valda því að ekki hefur tekist að stemma stigu við faraldrinum enn. Verstu spár kveða á um að 1,4 milljónir manna muni hafa sýkst í upphafi árs 2015. Talið er að einangra þurfi að minnsta kosti 70% sjúklinga á hverjum tíma til að von sé til að stöðva megi faraldurinn. Slíkt er erfitt við núverandi kringumstæður. Hér liggur skylda Vesturlanda, að leggja sitt af mörkum núna til að ráða megi við faraldurinn þar sem hann er, það er í Vestur-Afríku. Það er eina leiðin til að hindra frekari útbreiðslu. Vonir eru til að alþjóðasamfélagið sé nú að bregðast myndarlega við, þótt seint sé.
Þetta svar er að mestu byggt á ritstjórnargrein í Læknablaðinu (S. Guðmundsson. Ebóla og við. Læknablaðið 2014; 100: 503).
Myndir:
Sigurður Guðmundsson. „Gæti ebóla orðið að heimsfaraldri á Vesturlöndum?“ Vísindavefurinn, 17. október 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68337.
Sigurður Guðmundsson. (2014, 17. október). Gæti ebóla orðið að heimsfaraldri á Vesturlöndum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68337
Sigurður Guðmundsson. „Gæti ebóla orðið að heimsfaraldri á Vesturlöndum?“ Vísindavefurinn. 17. okt. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68337>.