Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hefur tilskipun 2009/158 tekið gildi á Íslandi og þá hvenær? Er til íslensk þýðing á þeirri tilskipun eða er hún væntanleg?
Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ber íslenskum stjórnvöldum að taka upp í íslensk lög þann hluta reglna Evrópusambandsins sem lúta að innri markaði sambandsins. Það getur hins vegar verið snúið að finna út úr því hvort og ekki síst hvernig tiltekin ESB-gerð hafi tekið gildi á Íslandi. Gott er ganga til verks með eftirfarandi spurningar að leiðarljósi:
Hefur viðkomandi gerð verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar?
Hvað segir í ákvörðuninni um gildistöku? Er um aðlaganir eða undanþágur að ræða?
Hefur gerðin verið innleidd í íslenskan rétt?
Hér á eftir verður fjallað almennt um aðferðir og hjálpartæki til að svara ofantöldum spurningum og tekið dæmi af tilskipun nr. 2009/158 (um skilyrði á sviði heilbrigðis dýra sem hafa áhrif á viðskipti innan Bandalagsins með alifugla og útungunaregg og á innflutning þeirra frá þriðju löndum) sem spurt var um.
Hefur viðkomandi gerð verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar?
Í EES-lagasafninu (EEA-Lex) á heimasíðu EFTA er að finna upplýsingar um allar gerðir ESB sem hafa verið teknar upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Aðeins er hægt að leita eftir svokölluðu CELEX-númeri gerðar en það er flokkunarnúmer ESB. Númer gerða byrja alltaf á tölunni 3. Síðan koma fjórar tölur fyrir árið, 2009 í dæminu okkar. Þá kemur bókstafur sem segir til um hvort um er að ræða tilskipun, ákvörðun eða reglugerð. Eftirfarandi stafir eru notaðir:
R fyrir reglugerð,
D fyrir ákvörðun og
L fyrir tilskipun.
Loks er númer gerðarinnar skráð í fjórum tölustöfum, 0158 í dæminu okkar. Leitarrunan í dæminu okkar er þá 32009L0158 og vísar til ársins 2009, tilskipunar númer 158.
Skjáskot af niðurstöðum leitar að tilskipun nr. 2009/158 í EES-lagasafninu.
Leit að CELEX-númerinu 32009L0158 í EES-lagasafninu leiðir í ljós að tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar (JCD, joint committee decision) nr. 074/2012 þann 30. apríl 2012.
Hvað segir í ákvörðuninni um gildistöku? Er um aðlaganir eða undanþágur að ræða?EFTA/EES-ríkin semja stöku sinnum um sérstakar aðlaganir eða undanþágur frá ákveðnum ákvæðum eða jafnvel gerðum í heild sinni. Því er nauðsynlegt að skoða ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar til þess að öðlast fulla mynd af réttarstöðunni hverju sinni.
Neðarlega á síðunni með niðurstöðunum úr leitinni í EES-lagasafninu er að finna tengla sem vísa til ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar á ensku, þýsku, íslensku og norsku. Í ákvörðuninni kemur fram að hún skuli taka gildi 1. maí 2012 (3. grein) og að hún gildi ekki fyrir Ísland (sjá 8. lið inngangsorða):
Ákvörðun þessi varðar löggjöf um lifandi dýr önnur en fisk og eldisdýr. Ísland er undanþegið löggjöf á þessu sviði, eins og fram kemur í 2. mgr. inngangsorða I. kafla I. viðauka við samninginn. Ákvörðun þessi á því ekki að taka til Íslands.
Tilskipun nr. 2009/158 hefur því verið tekin upp í EES-samninginn og tók gildi í EFTA/EES-ríkjunum að Íslandi undanskildu þann 1. maí 2012.
Hefur gerðin verið innleidd í íslenskan rétt?
EES-gerðir eru innleiddar í íslenskan rétt á tvo vegu, með lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum, eins og nánar er fjallað um í svari Evrópuvefsins við spurningunni Hvernig innleiðir Ísland tilskipanir og annað frá ESB?Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur eftirlit með því að EFTA/EES-ríkin standi við skuldbindingar sínar á grundvelli EES-samningsins og ber stjórnvöldum ríkjanna að upplýsa ESA um með hvaða hætti EES-gerðir hafi verið innleiddar. Eftirlitsstofnunin heldur utan um upplýsingarnar í gagnagrunni ESA um innleiðingu gerða (EFTA Surveillance Authority Implementation status database). Þar má sjá stöðu innleiðingar eftir ríkjum og upplýsingar um hvernig viðkomandi gerð var innleidd í hverju landi.
Leit í gagnagrunninum að tilskipun nr. 2009/158 leiðir í ljós að gerðin hefur verið innleidd að fullu í Noregi (full implementation) en hvorki á Ísland né í Liechtenstein, sem hafa varanlega undanþágu frá gerðinni í heild (PWH, Permanent derogation for the whole act).
Skjáskot af niðurstöðum leitar að tilskipun nr. 2009/158 í gagnagrunni ESA um innleiðingu gerða.
Hafi gerð sem leitað er eftir verið innleidd á Íslandi birtast upplýsingar um með hvaða lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum það hafi verið gert. Ef til dæmis er leitað í gagnagrunninum að tilskipun nr. 94/33, um vinnuvernd barna og ungmenna, kemur í ljós að hún hefur verið innleidd í íslensk lög með 'lögum nr. 52/1997 um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum' og 'lögum nr. 68/2003, um breytingu á lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum'.
Í lagasafni Alþingis má síðan nálgast viðkomandi lög og á reglugerðarvef stjórnarráðsins viðkomandi stjórnvaldsfyrirmæli, til þess að sjá efnislega innleiðingu gerðarinnar í íslenskan rétt.
Á EES-vefsetri utanríkisráðuneytisins er hægt að leita að öllum þýddum gerðum sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn. Þótt tiltekin gerð komi ekki fram í leitinni er mögulegt að hún hafi verið tekin upp í EES-samninginn en að þýðingu vanti þar sem þýðing gerða tekur yfirleitt nokkra mánuði. Leit að tilskipun nr. 2009/158 skilar engum niðurstöðum og er þýðing að öllum líkindum ekki væntanleg þar tilskipunin gildir ekki á Íslandi eins og áður sagði.
Heimildir og mynd:
Þórhildur Hagalín. „Hvar get ég séð hvort og hvernig tiltekin ESB-gerð hafi tekið gildi á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 8. desember 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68324.
Þórhildur Hagalín. (2014, 8. desember). Hvar get ég séð hvort og hvernig tiltekin ESB-gerð hafi tekið gildi á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68324
Þórhildur Hagalín. „Hvar get ég séð hvort og hvernig tiltekin ESB-gerð hafi tekið gildi á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 8. des. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68324>.