Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er spurt um einn þekktasta snák Afríku. Á ensku kallast hann puff adder en á íslensku hefur hann verið nefndur hvæsir eða blísturnaðra (Bitis arietans eins og spyrjandi nefnir).
Blísturnaðran finnst víða í Afríku, en það er aðeins á regnskógarsvæðum eða þurrustu eyðimörkum álfunnar sem hana er ekki að finna. Þegar blísturnöðrunni er ógnað gefur hún frá sér hávært blístur eða hvæs en af því dregur hún nafn sitt.
Blísturnaðran veldur flestum dauðsföllum allra dýra í Afríku.
Blísturnaðran er silaleg og gildvaxin, venjulega um 80-90 cm á lengd en getur orðið rúmlega 150 cm. Hún forðast að vera á ferli í dagsbirtu og kemur sér venjulega fyrir á skjólgóðum stað fyrir sólsetur þar sem hún getur setið fyrir bráð sinni. Ólíkt mörgum öðrum snákum er blísturnaðran þekkt fyrir að ráðast strax til atlögu sé henni ógnað og reynir hún að lama árásaraðilann með eitri. Þetta háttalag ásamt víðri útbreiðslu hennar er sennilega ástæða þess hversu margir verða fyrir biti árlega.
Blísturnaðran er það dýr sem á sök á flestum dauðsföllum í álfunni og allt að 60% af skráðum snákabitum í Afríku eru af hennar völdum. Bit blísturnöðrunnar getur verið afar slæmt en vígtennur hennar eru um 12-18 mm langar og hún getur því dælt eitrinu afar djúpt inn í hold fórnarlambsins. Bitunum fylgja oft afar slæmar bólgur auk eitrunareinkenna sem eru ákaflega sársaukafull. Eitur blísturnöðrunnar er afar kröftugt en um 100 mg af eitri geta drepið fullorðinn mann á innan við 25 klst. Dauðsföll af völdum bits verða oftast í kjölfar nýrnabilunar. Í eiturkirtlum nöðrunnar er venjulega nægilegt magn eiturs til að drepa 5-6 manns.
Helsta fæða blísturnöðrunnar eru smærri hryggdýr svo sem fjölmargar tegundir skriðdýra, spendýra og fugla og fer það allt eftir þeim svæðum sem hún finnst á.
Blísturnaðran getur eignast allt að 80 afkvæmi í einu en 20 til 40 er þó algengast. Afkvæmin eru venjulega 15-20 cm á lengd og eru þegar jafn árásargjörn og fullorðnu slöngurnar. Strax eftir got hika þau ekki við að ráðast á hvern þann sem kemur of nálægt þeim.
Blísturnaðran hreyfir sig ekki með s-laga hreyfingum eins og svo margir ættingjar hennar gera, heldur hlykkjast hún áfram eins og lirfa. Slíkar lirfuhreyfingar eru algengar hjá stærstu og þyngstu slöngum í heimi svo sem hinna stórvöxnu pýþona og bóa-kyrkislanga. Förin sem blísturnaðran skilur eftir sig eru því bein og djúp og því auðgreinanleg frá förum annarra snáka.
Á Vísindavefnum er til mikið efni um slöngur sem má finna með því að nota leitarvélina eða með því að smella á efnisorð í þessu svari.
Mynd:Wikimedia Commons
Jón Már Halldórsson. „Hvað heitir Bitis arietans á íslensku og hvað getið þið sagt mér um hana?“ Vísindavefurinn, 4. október 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6831.
Jón Már Halldórsson. (2007, 4. október). Hvað heitir Bitis arietans á íslensku og hvað getið þið sagt mér um hana? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6831
Jón Már Halldórsson. „Hvað heitir Bitis arietans á íslensku og hvað getið þið sagt mér um hana?“ Vísindavefurinn. 4. okt. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6831>.