Nokkrar kenningar eru til um uppruna nafnsins Rauðahaf. Nafnið er bein þýðing úr grísku, Eryþra Þalassa (með grísku letri: Ερυθρά Θάλασσα). Söguritarinn Heródótos notaði orðið rauður um hafið í ritum sínum vegna þess að það er í suður frá Grikklandi séð en í sumum málum eru litir notaðir til að tákna áttir. Við sjáum þess enn merki á nútímaáttavitum þar sem nálin sem vísar í suður er oft rauð en svört í hinn endann.
Við Rauðahafið býr þjóðflokkur sem ber nafnið Himyarítar en það merkir einmitt rauður. Við hafið eru einnig fjöll sem eru rík af járnoxíðum og fá þar með rauðan lit, til dæmis Harie Edom fjöll en Edom merkir rauðleitt yfirbragð. Enn ein kenningin er sú að nafnið sé til komið vegna nálægðar sinnar við egypsku eyðimörkina en Fornegyptar kölluðu hana Dashret eða Landið rauða.
Ekki er hægt að rekja nafnið Svartahaf lengra en til 13. aldar með nokkurri vissu en hugsanlega er það þó eldra. Það má vera að á sama hátt og Heródótos notaði rauða litinn til þess að vísa til þess að Rauðahafið var í suðri hafi svarti liturinn, sem táknar norður, vísað til þess að Svartahafið liggur í norður frá Grikklandi séð.
Eins og umfjöllunin ber með sér er ekki hægt að fullyrða með neinni vissu um uppruna nafna þessara tveggja hafa og því verða kenningarnar sem raktar hafa verið hér að duga.
Heimildir og myndir:
- Black Sea á Wikipedia, the free encyclopedia
- Red Sea á Wikipedia, the free encyclopedia
- WebExhibits
- Red Sea á Encyclopædia Britannica Online
- Mynd af þörungi:
© John Patchett, University of Warwick, Mark Schneegurt, Wichita State University og Cyanosite:
www-cyanosite.bio.purdue.edu