Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:26 • sest 16:02 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 01:04 • Sest 15:19 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 01:05 • Síðdegis: 13:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 07:12 • Síðdegis: 20:04 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er kívífuglinn í útrýmingarhættu?

Jón Már Halldórsson

Í þéttum skógum Nýja-Sjálands, sem sluppu við við ágang og eyðileggingu landnema, hefur einum alsérstæðasta núlifandi fugli í fánu jarðar tekist að halda velli. Þessi heimkynni hans eru nú sem betur fer vernduð með viðamiklu og öflugu neti þjóðgarða.

Hér er um að ræða kíví eða kívífuglinn, sem frekar ætti að tala um í fleirtölu, því í raun er um fimm tegundir að ræða og innan sumra tegundanna eru fleiri en eitt afbrigði.

Kívífuglar (Apteryx spp.) eru ófleygir líkt og aðrir fuglar í yfirættbálki strútfugla (Ratiti). Það má þó færa rök fyrir því að úrþróun vængja kívífugla hafi gengið lengra en hjá öðrum ófleygum fuglum þar sem vængirnir eru aðeins þróunarfræðilegar leifar og líkjast útblásnum húðpokum. Á hvorum vænghnúð, ef við getum kallað vængi kívífugla því nafni, er kló og leifar flugfjaðra sem eru ekki frábrugðnar venjulegum þekjufjöðrum. Í svari sama höfundar við spurningunni Getur þú sagt mér allt um kívífuglinn og sýnt mér mynd af honum? er fjallað meira um kívíinn.

Brúni kíví (Apteryx mantelli) lifir á Norðurey og nokkrum smáum eyjum þar í kring. Stofninn er að minnka, talið er að árið 1996 hafi einstaklingar tegundarinnar verið um 35.000 en árið 2013 er stofnstærðin talin um 25.000 fuglar.

Skýringin á tilvist kívífugla er einangrun Nýja-Sjálands sem hefur gert fuglunum kleift að þróast á þennan sérstaka hátt. Þeir eru í raun á margan hátt ekki „fuglslegir“ heldur minnir háttalag og vistfræðilegur sess þeirra frekar á lífshætti margra smárra spendýra svo sem broddgalta.

Veiðar, eyðilegging kjörlendis og spendýr sem bárust með evrópskum landnemum ollu því að kívífuglum fækkaði mjög mikið. Sem betur fer áttuðu Nýsjálendingar sig á hvert stefndi og hafa fuglarnir verið friðaðir frá árinu 1921. Algjört bann er við veiðum á fuglunum og bann á útflutningi á lifandi eintökum er nær algert. Verndunarstarf Nýsjálendinga er afar öflugt þar sem þjóðin hefur sýnt mikla samheldni í að standa vörð um þessar tegundir. Enda eru kíví þjóðarfugl Nýsjálendinga og eitt þekktasta tákn Nýja-Sjálands. Hann er í merki margra borga og bæja, félagasamtaka og klúbba, á peningaseðlum, frímerkjum og svo mætti lengi telja.

Kívífuglar eru ekki í bráðri útrýmingarhættu en staða þeirra er viðkvæm. Samkvæmt alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN hefur þremur tegundum hrakað nokkuð á undanförnum 20 árum. Algengasti kívíinn er brúni kíví. Áður var þetta ein tegund en nú er hún venjulega greind í tvær, Apteryx australis (e. southern brown kiwi eða tokoeka kiwi) og Apteryx mantelli (e. northern brown kiwi). Áætlað er að af fyrrnefndu tegundinni séu um eða undir 30.000 einstaklingar en sú síðarnefnda telji um 25.000 fugla og fer einstaklingum í báðum tegundum nokkuð fækkandi.

Kívífuglar eru helst á ferðinni á nóttunni. Við suma vegi má sjá skilti þar sem vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar vegna fugla sem gætu verið á vappi á veginum.

Þriðja tegundin þar sem einstaklingum fer fækkandi er stóri blettakíví (Apteryx haastii, e. great spotted kiwi). Stofnstærðin er ekki alveg þekkt samkvæmt IUCN en talið að fuglarnir séu um 8.000. Staðan á litla blettakíví (Apteryx owenii, e. little spotted kiwi) er nokkuð betri þar sem talið er að stofninn sé stöðugur eða jafnvel fjölgi í honum, þökk sé öflugu verndarstarfi. Stofninn er því ekki talinn í mikilli hættu eins og stendur. Hins vegar er það vandamál hversu fáir einstaklingarnir eru, eða aðeins um 1500. Sú tegund kívífugla sem telur fæsta einstaklinga er þó rowi-kíví eða okarito-kíví (Apteryx rowi, e. Okarito kiwi, Okarito brown kiwi) en líklega eru fuglar þessarar tegundar innan við 300. Góðu fréttirnar eru þó þær að einstaklingum er að fjölga, árið 1996 voru aðeins eftir 160 fuglar.

Heimild og myndir:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað geturðu sagt mér almennt um kívífuglinn, t.d hefur hann alltaf verið á Nýja-Sjálandi, hvað étur hann, af hverju er hann í útrýmingarhættu?

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

25.11.2014

Spyrjandi

Mathias Ölvisson, f. 2000

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Af hverju er kívífuglinn í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2014, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68201.

Jón Már Halldórsson. (2014, 25. nóvember). Af hverju er kívífuglinn í útrýmingarhættu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68201

Jón Már Halldórsson. „Af hverju er kívífuglinn í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn. 25. nóv. 2014. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68201>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er kívífuglinn í útrýmingarhættu?
Í þéttum skógum Nýja-Sjálands, sem sluppu við við ágang og eyðileggingu landnema, hefur einum alsérstæðasta núlifandi fugli í fánu jarðar tekist að halda velli. Þessi heimkynni hans eru nú sem betur fer vernduð með viðamiklu og öflugu neti þjóðgarða.

Hér er um að ræða kíví eða kívífuglinn, sem frekar ætti að tala um í fleirtölu, því í raun er um fimm tegundir að ræða og innan sumra tegundanna eru fleiri en eitt afbrigði.

Kívífuglar (Apteryx spp.) eru ófleygir líkt og aðrir fuglar í yfirættbálki strútfugla (Ratiti). Það má þó færa rök fyrir því að úrþróun vængja kívífugla hafi gengið lengra en hjá öðrum ófleygum fuglum þar sem vængirnir eru aðeins þróunarfræðilegar leifar og líkjast útblásnum húðpokum. Á hvorum vænghnúð, ef við getum kallað vængi kívífugla því nafni, er kló og leifar flugfjaðra sem eru ekki frábrugðnar venjulegum þekjufjöðrum. Í svari sama höfundar við spurningunni Getur þú sagt mér allt um kívífuglinn og sýnt mér mynd af honum? er fjallað meira um kívíinn.

Brúni kíví (Apteryx mantelli) lifir á Norðurey og nokkrum smáum eyjum þar í kring. Stofninn er að minnka, talið er að árið 1996 hafi einstaklingar tegundarinnar verið um 35.000 en árið 2013 er stofnstærðin talin um 25.000 fuglar.

Skýringin á tilvist kívífugla er einangrun Nýja-Sjálands sem hefur gert fuglunum kleift að þróast á þennan sérstaka hátt. Þeir eru í raun á margan hátt ekki „fuglslegir“ heldur minnir háttalag og vistfræðilegur sess þeirra frekar á lífshætti margra smárra spendýra svo sem broddgalta.

Veiðar, eyðilegging kjörlendis og spendýr sem bárust með evrópskum landnemum ollu því að kívífuglum fækkaði mjög mikið. Sem betur fer áttuðu Nýsjálendingar sig á hvert stefndi og hafa fuglarnir verið friðaðir frá árinu 1921. Algjört bann er við veiðum á fuglunum og bann á útflutningi á lifandi eintökum er nær algert. Verndunarstarf Nýsjálendinga er afar öflugt þar sem þjóðin hefur sýnt mikla samheldni í að standa vörð um þessar tegundir. Enda eru kíví þjóðarfugl Nýsjálendinga og eitt þekktasta tákn Nýja-Sjálands. Hann er í merki margra borga og bæja, félagasamtaka og klúbba, á peningaseðlum, frímerkjum og svo mætti lengi telja.

Kívífuglar eru ekki í bráðri útrýmingarhættu en staða þeirra er viðkvæm. Samkvæmt alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN hefur þremur tegundum hrakað nokkuð á undanförnum 20 árum. Algengasti kívíinn er brúni kíví. Áður var þetta ein tegund en nú er hún venjulega greind í tvær, Apteryx australis (e. southern brown kiwi eða tokoeka kiwi) og Apteryx mantelli (e. northern brown kiwi). Áætlað er að af fyrrnefndu tegundinni séu um eða undir 30.000 einstaklingar en sú síðarnefnda telji um 25.000 fugla og fer einstaklingum í báðum tegundum nokkuð fækkandi.

Kívífuglar eru helst á ferðinni á nóttunni. Við suma vegi má sjá skilti þar sem vegfarendur eru beðnir að gæta varúðar vegna fugla sem gætu verið á vappi á veginum.

Þriðja tegundin þar sem einstaklingum fer fækkandi er stóri blettakíví (Apteryx haastii, e. great spotted kiwi). Stofnstærðin er ekki alveg þekkt samkvæmt IUCN en talið að fuglarnir séu um 8.000. Staðan á litla blettakíví (Apteryx owenii, e. little spotted kiwi) er nokkuð betri þar sem talið er að stofninn sé stöðugur eða jafnvel fjölgi í honum, þökk sé öflugu verndarstarfi. Stofninn er því ekki talinn í mikilli hættu eins og stendur. Hins vegar er það vandamál hversu fáir einstaklingarnir eru, eða aðeins um 1500. Sú tegund kívífugla sem telur fæsta einstaklinga er þó rowi-kíví eða okarito-kíví (Apteryx rowi, e. Okarito kiwi, Okarito brown kiwi) en líklega eru fuglar þessarar tegundar innan við 300. Góðu fréttirnar eru þó þær að einstaklingum er að fjölga, árið 1996 voru aðeins eftir 160 fuglar.

Heimild og myndir:


Upprunalega hljóðaði spurningin svona:
Hvað geturðu sagt mér almennt um kívífuglinn, t.d hefur hann alltaf verið á Nýja-Sjálandi, hvað étur hann, af hverju er hann í útrýmingarhættu?

...