Mér var einhvern tímann sagt að no. purkur, samanber purka og svefnpurka, gæti þýtt draugur er eitthvað til í því?Nafnorðið purka hefur fleiri en eina merkingu: 'gylta', 'nirfill', 'eitthvað smávaxið' og 'vesaldarleg og syfjuð manneskja'. Það er síðasta merkingin sem felst í orðinu svefnpurka. Elst dæmi um það í seðlasöfnum Orðabókar Háskólans er úr latnesk-íslenskri orðabók frá 1738 og er viðbótarskýring 'sísofandi'. Ásgeir Blöndal Magnússon bendir á samsvaranir í skyldum málum í Íslenskri orðsifjabók (1989:730): færeyska purka 'lambgimbur', danska purk sem fengið er að láni úr lágþýsku purk 'smástrákur' og þýskar mállýskur pfurch 'smávaxinn maður, krypplingur'.

Orðið purka í merkingunni 'draugur' er ekki þekkt en Purka hét álfkona ein sem lagði flogaveiki á mann sem ekki vildi þýðast hana.