Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Getið þið sagt mér eitthvað um ofvita (e. savant) og komið með dæmi um nokkra slíka í heiminum?
Merking orðsins „ofviti" í íslensku er ekkert alltof vel afmörkuð. Oftast er það þó notað um fólk sem býr yfir óvenju mikilli og áberandi þekkingu, yfirleitt á einhverjum tilteknum sviðum. Eins og spyrjandi segir er þessi merking líka til í enska orðinu „savant" en það getur einnig þýtt til dæmis „spekingur" eða „vitringur". Það er komið úr frönsku og latínu og merkir eiginlega „sá sem veit". Fleiri orð eru til í ensku sem tengjast þessu, svo sem „prodigy" sem merkir eiginlega „snillingur" eða „afburðamaður", samanber líka „child prodigy" sem er „undrabarn".
Hvaða tölur eru þetta?
Yfirburða þekking þeirra ofvita sem vekja mesta athygli beinist oft að afmörkuðum sviðum þar sem þekkingin sem slík hefur ekki endilega mikið notagildi. Þekktir ofvitar eiga líka oft við einhverja andlega fötlun að stríða. Stundum eru þeir til dæmis einhverfir (e. autistic) og eiga þá í verulegum erfiðleikum með mannleg samskipti. Þess vegna getur orðið þrautin þyngri fyrir vísindamenn að skýra heilkenni þeirra, því að þeir geta ekki endilega sagt frá reynslu sinni eða hvernig þeir fara að því að framkvæma ótrúlega hluti. Einn frægasti ofviti samtímans, Kim Peek, sem verður fjallað um hér á eftir, segist „sjá það fyrir sér“ þegar hann er spurður hvernig hann fari að því að finna út vikudaginn fyrir hvaða dagsetningu sem vera skal, en sú útskýring kemur vísindamönnum - og öðru fólki yfirleitt - að litlu gagni.
Hér sjást heilahvelin tvö.
Ofvitaheilkenni eru oftast meðfædd og koma fram í barnæsku. Þessi heilkenni geta þó komið fram við slys eða veikindi þegar vinstra heilahvel verður fyrir skaða en þá eykst virkni þess hægra. Margir ofvitar virðast hafa ljósmyndaminni því þeir eru oft og tíðum færir um að muna hina ýmsu hluti eftir að hafa séð þá aðeins einu sinni.
Fleiri hæfileikar sem koma fram hjá ofvitum eru til dæmis að geta lagt á minnið langar talnarunur eins og aukastafina í tölunni pí eða ræður manna, margfaldað stórar tölur í huganum á örskotsstundu, sagt til um stærð horns eða lengdir hluta með mikilli nákvæmni aðeins með því að líta á þá, greina prímtölur í huganum og reikna út vikudaga út frá gefnum dagsetningum.
Í heiminum eru aðeins um 50-100 „afburðaofvitar" (e. prodigious savnts). Þeirra frægastur er sjálfsagt Bandaríkjamaðurinn Kim Peek sem var hafður í huga þegar Óskarsverðlaunamyndin Rain Man var gerð árið 1988. Þegar hann fæddist árið 1951 var foreldrum hans sagt að hann yrði aldrei fær um að læra neitt vegna fötlunar og best væri því að þau afneituðu honum og settu hann á stofnun. Það gerðu þau hins vegar ekki. Kim hefur einstaklega gott minni en hann er hins vegar ófær um margs konar hreyfingar, svo sem að reima skó og hneppa skyrtu, og lærði ekki að ganga fyrr en um fjögurra ára aldur. Ástæðuna má rekja til sköddunar á litla heila (e. cerebellum) en hann stjórnar hreyfingum líkamans.
Kim Peek.
Kim hefur svokallað ljósmyndaminni og hefur mjög vítt áhugasvið sem er óvenjulegt meðal ofvita. Meðal áhugamála hans eru klassísk tónlist, tölur, mannkynssaga, landafræði, íþróttir og dagsetningar. Hann hefur gríðarlegan leshraða og les bók af venjulegri stærð á um klukkutíma og man 98% af efninu en hann hefur lesið yfir 12000 bækur. Hann kann vegakerfi Bandaríkjanna utan að, öll póstnúmer, alla valdhafa allra ríkja í heimi frá upphafi og fleira. Hann gæti einnig sagt til um á hvaða vikudegi 13. mars árið 1534 var eða á hvaða degi 2. desember 2230 verður. Fyrir þá sem hafa áhuga á slíkum fróðleik var 13. mars 1534 á þriðjudegi og 2. desember árið 2230 verður á fimmtudegi. Nú vinnur Kim sem bókavörður en faðir hans hefur það að atvinnu að sjá um hann þar eð hann getur það ekki sjálfur.
Daniel Tammet á fyrirlestri í Háskólanum í Reykjavík í júní 2007 þar sem hann sagði sögu lífs síns.
Annar frægur ofviti sem Íslendingar kannast eflaust við úr Kastljósi er hinn breski Daniel Tammet en hann er talna- og tungumálasnillingur. Hann er með Aspgerger-heilkenni, sem er skylt einhverfu, og meðfædda flogaveiki. Þegar hann var fjögurra ára fékk hann flogakast sem olli breytingum á heila hans og býr hann nú yfir hæfileika sem kallast samskynjun (e. synaethesia). Daniel á Evrópumetið í að muna aukastafi pí en hann getur þulið upp 22.514 stafi. Hann er jafnframt tungumálasnillingur og getur talað 10 tungumál, þar á meðal íslensku sem hann lærði á aðeins fjórum dögum.
Bretinn Stephen Wiltshire (f. 1974) var greindur með einhverfu við þriggja ára aldur en hann lærði ekki að tala fyrr en hann var orðinn níu ára. Þess í stað tjáði hann sig með teikningum og er í dag mjög þekktur listamaður. Hann hefur verið nefndur „kvikmyndatökuvél í mannsmynd“ því hann getur teiknað heilu stórborgirnar í smáatriðum eftir að hafa flogið einu sinni yfir þær í þyrlu. Meðal borga sem hann hefur teiknað eru Tokyo, Róm, Hong Kong og Frankfurt. Hann teiknar allar borgirnar í víðmyndasniði (e. panorama) á tíu metra breiðan risastriga. Á þessari slóð má skoða myndband sem sýnir Stephen teikna Róm.
Tony DeBlois (f. 1975) fæddist blindur en lærði að spila á píanó aðeins tveggja ára. Hann getur spilað á 20 hljóðfæri og leikið um átta þúsund lög eftir minni. Hans aðaláhugasvið er djass en hann hefur gefið út nokkrar hljómplötur.
Ofvitaheilkenni ber ekki endilega að líta hornauga því einstaklingar með þau geta komið að miklum notum í samfélaginu. Samkvæmt Daniel Tammet er afar gott fyrir fyrirtæki að hafa mann með Asperger-heilkenni í vinnu sem krefst mikillar nákvæmni, svo sem bókhald og flokkun og skráning gagna því það er í eðli þeirra að gera ekki villur við þess konar iðju.
Frekara lesefni:
Vignir Már Lýðsson. „Hvað getið þið sagt mér um ofvita?“ Vísindavefurinn, 21. september 2007, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6812.
Vignir Már Lýðsson. (2007, 21. september). Hvað getið þið sagt mér um ofvita? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6812
Vignir Már Lýðsson. „Hvað getið þið sagt mér um ofvita?“ Vísindavefurinn. 21. sep. 2007. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6812>.