Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað getið þið sagt mér um Chibcha, frumbyggja Kólumbíu?

Helga Björnsdóttir

Chibcha-fólkið er einn af frumbyggjahópum Kólumbíu í Suður-Ameríku. Í sumum heimildum gengur fólkið undir nöfnunum Muisca eða Mosca en hér verður heitið Chibcha notað og þá umritað sem Síbsjar. Á máli Síbsjar-búa þýðir síbsjar 'höfðingi samfélagsins'.

Fyrir tíma landvinninga Spánverja í Suður- og Mið Ameríku bjó Síbsjar-fólkið þar sem borgirnar Bogotá og Tunja í Kólumbíu standa nú. Þó að búsetan hafi að mestu verið bundin við þetta landsvæði þá var útbreiðsla tungumáls Síbsjar-manna og skyldra mállýskra þó mun meiri. Enn þann dag í dag tala nokkrir ættarhópar tungumál Síbsjar, til að mynda Cuna- og Lenca-hóparnir.

Sagt er að Síbsjar-fólkið hafi upprunalega komið til Kólumbíu frá Níkaragva, á árunum 400-300 fyrir Krist. Þar blandaðist það öðrum hópum frumbyggja og þá einkum karíbum sem komu frá eyjum í Karíbahafinu. Um 1500 skiptust Síbsjar-menn í tvo ættarhópa, Muisca og Tairona og var Muisca-fólkið mun atkvæðameira.


Fornar rústir hofs Muisca-manna í Kólumbíu.

Upprunasögur Síbsjar greina frá tveimur, og í sumum tilvikum þremur, valdamiklum seiðmönnum eða töfralæknum (e. shamans) og er Bochica þeirra frægastur. Hann er sagður hafa komið frá Venesúela og sest að í Sogamoso en skammt þar frá er nú Bogotá. Í sögum fólksins er sagt að tilgangurinn með flutninginum suður á bóginn hafi verið að kenna þeim indíánum sem þar bjuggu aðra og betri lifnaðarhætti.

Síbsjar-menn bjuggu í litlum þorpum, í húsum sem flest voru hringlaga, byggð úr leir og viði og höfðu stráþak. Þorpin voru sameinuð í bandalagi sem byggði á sameiginlegum hagsmunum og yfir hverju bandalagi réð höfðingi. Embætti höfðingjans gekk í erfðir. Heimildir geta nokkurra slíkra bandalaga, misstórra og valdamikilla, tvö voru þó sýnu stærst og öflugust; Hunza þar sem höfðinginn Zaque stjórnaði og Bacatá en þar réð Zipa ríkjum.

Síbsjar-fólkið er sagt hafa staðið öðrum frumbyggjahópum í Kólumbíu framar hvað varðar atvinnu- og búskaparhætti. Það stundaði akuryrkju og ræktaði meðal annars kartöflur, maís, kóka og tóbak. Síbsjar-menn brugguðu áfengan mjöð sem var drukkinn við opinberar athafnir, þeir ræktuðu bómull og bjuggu til leirker. Auk þess stunduðu þeir vefnað, unnu gull og kopar og áttu í umfangsmiklum viðskiptum við nágranna sína.

Þann 21. júní ár hvert var dagur sólguðsins Sue haldinn hátíðlegur. Musteri sólguðsins stóð í borginni Sogamoso sem var helg borg á meðal Síbsjar-mann. Dagur sólguðsins var mikill hátíðisdagur og þá voru sólinni færðar fórnir, aðallega gull og klæði en þó geta heimildir um einstaka mannfórnir. Höfðinginn Zaque, sem var talinn vera afkomandi sólarguðsins, kom til Sogamoso á þessum degi og aðeins þá gat almenningur séð andlit hans. Trúarlífi fólksins var annars stjórnað af prestum sem fengu embætti sín í arf.

Á árunum 1536-1541 herjuðu Spánverjar með Jiménes de Quesada í broddi fylkingar á Síbsjar-fólkið og brutu það að lokum undir sig.

Í dag er Síbsjar-fólkið ekki lengur til sem sérstakur ættflokkur heldur hefur það blandast öðrum íbúum Kólumbíu.

Heimildir og mynd:

Höfundur

doktorsnemi í mannfræði

Útgáfudagur

6.9.2007

Spyrjandi

Kristofer Rodriguez

Tilvísun

Helga Björnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Chibcha, frumbyggja Kólumbíu?“ Vísindavefurinn, 6. september 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6791.

Helga Björnsdóttir. (2007, 6. september). Hvað getið þið sagt mér um Chibcha, frumbyggja Kólumbíu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6791

Helga Björnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um Chibcha, frumbyggja Kólumbíu?“ Vísindavefurinn. 6. sep. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6791>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um Chibcha, frumbyggja Kólumbíu?
Chibcha-fólkið er einn af frumbyggjahópum Kólumbíu í Suður-Ameríku. Í sumum heimildum gengur fólkið undir nöfnunum Muisca eða Mosca en hér verður heitið Chibcha notað og þá umritað sem Síbsjar. Á máli Síbsjar-búa þýðir síbsjar 'höfðingi samfélagsins'.

Fyrir tíma landvinninga Spánverja í Suður- og Mið Ameríku bjó Síbsjar-fólkið þar sem borgirnar Bogotá og Tunja í Kólumbíu standa nú. Þó að búsetan hafi að mestu verið bundin við þetta landsvæði þá var útbreiðsla tungumáls Síbsjar-manna og skyldra mállýskra þó mun meiri. Enn þann dag í dag tala nokkrir ættarhópar tungumál Síbsjar, til að mynda Cuna- og Lenca-hóparnir.

Sagt er að Síbsjar-fólkið hafi upprunalega komið til Kólumbíu frá Níkaragva, á árunum 400-300 fyrir Krist. Þar blandaðist það öðrum hópum frumbyggja og þá einkum karíbum sem komu frá eyjum í Karíbahafinu. Um 1500 skiptust Síbsjar-menn í tvo ættarhópa, Muisca og Tairona og var Muisca-fólkið mun atkvæðameira.


Fornar rústir hofs Muisca-manna í Kólumbíu.

Upprunasögur Síbsjar greina frá tveimur, og í sumum tilvikum þremur, valdamiklum seiðmönnum eða töfralæknum (e. shamans) og er Bochica þeirra frægastur. Hann er sagður hafa komið frá Venesúela og sest að í Sogamoso en skammt þar frá er nú Bogotá. Í sögum fólksins er sagt að tilgangurinn með flutninginum suður á bóginn hafi verið að kenna þeim indíánum sem þar bjuggu aðra og betri lifnaðarhætti.

Síbsjar-menn bjuggu í litlum þorpum, í húsum sem flest voru hringlaga, byggð úr leir og viði og höfðu stráþak. Þorpin voru sameinuð í bandalagi sem byggði á sameiginlegum hagsmunum og yfir hverju bandalagi réð höfðingi. Embætti höfðingjans gekk í erfðir. Heimildir geta nokkurra slíkra bandalaga, misstórra og valdamikilla, tvö voru þó sýnu stærst og öflugust; Hunza þar sem höfðinginn Zaque stjórnaði og Bacatá en þar réð Zipa ríkjum.

Síbsjar-fólkið er sagt hafa staðið öðrum frumbyggjahópum í Kólumbíu framar hvað varðar atvinnu- og búskaparhætti. Það stundaði akuryrkju og ræktaði meðal annars kartöflur, maís, kóka og tóbak. Síbsjar-menn brugguðu áfengan mjöð sem var drukkinn við opinberar athafnir, þeir ræktuðu bómull og bjuggu til leirker. Auk þess stunduðu þeir vefnað, unnu gull og kopar og áttu í umfangsmiklum viðskiptum við nágranna sína.

Þann 21. júní ár hvert var dagur sólguðsins Sue haldinn hátíðlegur. Musteri sólguðsins stóð í borginni Sogamoso sem var helg borg á meðal Síbsjar-mann. Dagur sólguðsins var mikill hátíðisdagur og þá voru sólinni færðar fórnir, aðallega gull og klæði en þó geta heimildir um einstaka mannfórnir. Höfðinginn Zaque, sem var talinn vera afkomandi sólarguðsins, kom til Sogamoso á þessum degi og aðeins þá gat almenningur séð andlit hans. Trúarlífi fólksins var annars stjórnað af prestum sem fengu embætti sín í arf.

Á árunum 1536-1541 herjuðu Spánverjar með Jiménes de Quesada í broddi fylkingar á Síbsjar-fólkið og brutu það að lokum undir sig.

Í dag er Síbsjar-fólkið ekki lengur til sem sérstakur ættflokkur heldur hefur það blandast öðrum íbúum Kólumbíu.

Heimildir og mynd:...