Upprunasögur Síbsjar greina frá tveimur, og í sumum tilvikum þremur, valdamiklum seiðmönnum eða töfralæknum (e. shamans) og er Bochica þeirra frægastur. Hann er sagður hafa komið frá Venesúela og sest að í Sogamoso en skammt þar frá er nú Bogotá. Í sögum fólksins er sagt að tilgangurinn með flutninginum suður á bóginn hafi verið að kenna þeim indíánum sem þar bjuggu aðra og betri lifnaðarhætti. Síbsjar-menn bjuggu í litlum þorpum, í húsum sem flest voru hringlaga, byggð úr leir og viði og höfðu stráþak. Þorpin voru sameinuð í bandalagi sem byggði á sameiginlegum hagsmunum og yfir hverju bandalagi réð höfðingi. Embætti höfðingjans gekk í erfðir. Heimildir geta nokkurra slíkra bandalaga, misstórra og valdamikilla, tvö voru þó sýnu stærst og öflugust; Hunza þar sem höfðinginn Zaque stjórnaði og Bacatá en þar réð Zipa ríkjum. Síbsjar-fólkið er sagt hafa staðið öðrum frumbyggjahópum í Kólumbíu framar hvað varðar atvinnu- og búskaparhætti. Það stundaði akuryrkju og ræktaði meðal annars kartöflur, maís, kóka og tóbak. Síbsjar-menn brugguðu áfengan mjöð sem var drukkinn við opinberar athafnir, þeir ræktuðu bómull og bjuggu til leirker. Auk þess stunduðu þeir vefnað, unnu gull og kopar og áttu í umfangsmiklum viðskiptum við nágranna sína. Þann 21. júní ár hvert var dagur sólguðsins Sue haldinn hátíðlegur. Musteri sólguðsins stóð í borginni Sogamoso sem var helg borg á meðal Síbsjar-mann. Dagur sólguðsins var mikill hátíðisdagur og þá voru sólinni færðar fórnir, aðallega gull og klæði en þó geta heimildir um einstaka mannfórnir. Höfðinginn Zaque, sem var talinn vera afkomandi sólarguðsins, kom til Sogamoso á þessum degi og aðeins þá gat almenningur séð andlit hans. Trúarlífi fólksins var annars stjórnað af prestum sem fengu embætti sín í arf. Á árunum 1536-1541 herjuðu Spánverjar með Jiménes de Quesada í broddi fylkingar á Síbsjar-fólkið og brutu það að lokum undir sig. Í dag er Síbsjar-fólkið ekki lengur til sem sérstakur ættflokkur heldur hefur það blandast öðrum íbúum Kólumbíu. Heimildir og mynd:
- Krober, A. L. 1946. "The Chibcha". Í Julian H. Stewart (ritstj.), Handbook of South American Indians. Washington.
- Wikipedia.org: Grein um Muisca
- Wikipedia.org: Grein um Chibcha
- Infoplease: Grein um Chibcha
- Britannica: Grein um Chibcha