Hvaðan er máltækið að sitja eftir með sárt ennið komið? Hvernig er hægt að sitja eftir með sárt enni?Orðasambandið þekkist að minnsta kosti frá miðri 18. öld og er merkingin 'missa af feng, verða fyrir vonbrigðum'. Í seðlasafni Orðabókar Háskólans er elst dæmi úr þýðingu á verki sem gefið var út á Hólum 1756.
let hann Kaupmanns-Konu sitia epter med sart Enne.Verkið var Þess Svenska Gustav Landkrons Og Þess Engelska Bertholds Faabreitileger Robinsons, Edur Lijfs og Æfe Søgur. Þýtt var úr dönsku og þýðandinn, Þorsteinn Ketilsson, var hugsanlega að koma dönsku orðtaki til skila. Ekki gat ég samt fundið sambærilegt orðtak í dönskum orðabókum. Ef orðtakið er íslenskt gæti einhver saga legið að baki en hún hefur ekki fundist. Í Mergi málsins, riti Jóns G. Friðjónssonar um íslensk orðatiltæki, stendur: „Líkingin er óljós, e.t.v. dregin af e-s konar refsingu“ (2006:172) og í riti Halldórs Halldórssonar um íslensk orðtök stendur (1968:128): „Uppruni óvís“. Mynd: