Halló, ég var að hlusta á lagið 'Hættu að gráta hringaná' og ég fór að velta því fyrir mér hvort að Hringaná sé nafn?Orðið hringaná er ekki eiginnafn heldur kvenkenning. Í fornu skáldamáli var mjög notast við kenningar og hafa skáld leikið sér við kenningasmíð allt fram á þennan dag. Snorri Sturluson fjallar um kenningar í kaflanum Skáldskaparmál í Eddu sinni og kennir hvernig kenna skuli sól, vind, eld, vetur, sumar, menn, konur, gull og fleira. Um konur segir meðal annars:
Konu skal kenna til alls kvenbúnaðar, gulls og gimsteina, öls eða víns eða annars drykkjar, þess er hon selr eða gefr ... (1954:146).Með kenningu er átt við umritun á orðum í lausamáli. Einfaldasta gerð kenningar er tvíliðuð. Þá er um að ræða tvö nafnorð, það er stofnorðið og kenniorðið. Kenningin hringaná er þannig mynduð og er myndhverf. Kenniorðið hringa stendur í eignarfalli fleirtölu. Stofnorðið ná er sótt til norrænnar goðafræði og eiginlega ætti að skrifa það með N, það er hringa Ná. Ná, oftar ritað Gná, var samkvæmt Snorra-Eddu ein ásynja og þjónaði Frigg. Frigg sendi hana til að erindast fyrir sig í ýmsum heimum. Til frekari fróðleiks um kenningar má benda á ritið Hugtök og heiti í bókmenntafræði á síðu 144–145. Jónas Hallgrímsson orti ljóðið 1836 og sendi vini sínum Konráði Gíslasyni. Grímur sá sem talað er um í kvæðinu var Magnússon og hafði viðurnefnið ,,græðari“. Hann hjó tá af stúlku með sporjárni í lækningaskyni og varð það tilefni kvæðisins. Heimildir og mynd:
- Edda Snorra Sturlusonar. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Íslendingasagnaútgáfan. Akureyri 1954.
- Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Ritstjóri Jakob Benediktsson. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands–Mál og menning. Reykjavík 1983.
- Edda - Snorri Sturluson - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 12.9.2014).