Eru bananar ræktaðir og fluttir frá Íslandi í einhverju magni? Hversu margar bananaplöntur vaxa á Íslandi, geta bananar þroskast hér og hafa íslenskir bananar verið seldir í búðum? Eru bananar ræktaðir á Íslandi erfðabreyttir? Hversu mikið er ræktað af þeim hér? Eru þeir allir seldir erlendis?Bananar hafa verið ræktað í Garðyrkjuskólanum á Reykjum (Landbúnaðarháskóla Íslands) í um 60 ár. Þeir bananar sem þar eru ræktaðir eru ekki erfðabreyttir heldur kynbættir með hefðbundnum kynbótaaðferðum, það er engu utanaðkomandi erfðaefni hefur verið komið fyrir í þessum plöntum. Rót bananaplantna er fjölær jarðstöngull og upp af honum koma sprotar sem vaxa upp, blómstra og mynda bananaklasa einu sinni, svo deyr viðkomandi sproti og annar vex upp í staðinn. Oft eru nokkrir sprotar í einu á hverjum jarðstöngli en einungis einn þeirra blómstrar og myndar aldin í einu. Plönturnar fjölga sér eingöngu á kynlausan hátt, þannig að engin frjóvgun á sér stað og þessir bananar mynda ekki fræ. Þetta er svokölluð geldæxlun (e. parthenocarpy) þar sem aldin myndast án undangenginnar frjóvgunar. Bananarnir í Garðyrkjuskólanum eru ræktaðir í 1100 m2 gróðurhúsi ásamt öðrum hitakærum plöntum, þar af eru bananarnir á um 6-700 m2. Uppskeran er um 100 bananaklasar á ári og getur hver klasi verið á bilinu 5-20 kg að þyngd. Þessir íslensku bananar eru ekki seldir heldur fá starfsfólk, nemendur, gestir og gangandi að smakka þá þegar þeir hafa þroskast. Sú mýta hefur lengi loðað við bananaræktun á Íslandi að frá Garðyrkjuskólanum sé stundaður stórfelldur útflutningur banana en það er ekki rétt, skólinn hefur aldrei selt banana til útlanda. Þessi saga rataði reyndar í bækur í Evrópu kringum árið 1950 og hefur verið ansi lífseig en því miður ekki sönn. Myndir:
- Guðríður Helgadóttir.