Hvaða reglur gilda um orðið „að“? Er til dæmis „þegar að hann“ og „ef að hann“ ekki meira talmál en rétt málfar?Þegar og ef sem spurt er um teljast til samtenginga. Þegar er tíðartenging og ef skilyrðistenging. Margar fleiri samtengingar eru notaðar í íslensku, til dæmis nema (skilyrðistenging), sem (tilvísunartenging) og hvort (spurnartenging). Tilhneiging er til að bæta að við allar þessar samtengingar og telst það ekki rétt mál. Ekki er til dæmis rétt að segja: „maðurinn *sem að kom í gær er frændi minn.“ Rétt er: „maðurinn sem kom í gær er frændi minn.“ Sömuleiðis er ekki rétt að bæta við að í: „allir fóru heim *þegar að leikurinn var búinn.“ Hugsanlegt er að fleiryrtar samtengingar hafi ýtt undir þessa notkun að í undanfarandi dæmum. Þá er átt við samtengingar eins og þó að, af því að, með því að og fleiri. Þarna er að hluti samtengingarinnar. Rétt er að segja: „ég ætla út þó að rigni.“ Þarna er einnig hægt að nota einyrtu samtenginguna þótt, „ég ætla út þótt rigni“ en ekki „ég ætla út *þótt að rigni.“ Mynd:
- Game over (C) Richard Croft :: Geograph Britain and Ireland. Höfundur myndar: Richard Croft. (Sótt 25.09.2014).
Hér er einnig svarað spurningunni:
- Er einhvern tímann rétt að segja 'sem að'?