Á Grænland raunhæfan möguleika á að verða fjölmennara en Ísland í framtíðinni?Í stuttu máli sagt er afar ólíklegt að Grænland verði fjölmennara en Ísland í fyrirsjáanlegri framtíð nema eitthvað stórkostlegt gerist sem veldur mjög mikilli fólksfækkun á Íslandi eða mjög mikilli fjölgun í Grænlandi. Til þess að meta hversu margir munu mögulega búa á tilteknum svæðum, löndum, heimsálfum eða heiminum öllum í framtíðinni eru gerðar svokallaðar mannfjöldaspár (e. population projections). Um þær er meðal annars fjallað í svari við spurningunni Hvað munu margir búa á jörðinni árið 2050? En 2010? Mannfjöldaspár byggjast á ákveðnum forsendum um frjósemi, það er að segja hversu mörg börn má ætla að hver kona eignist að meðaltali, og dánartíðni þar sem gengið er út frá lengd meðalævi. Einnig þarf að taka tillit til búferlaflutninga. Út frá þróun undanfarinna ára er síðan reynt að áætla hvernig frjósemi, dánartíðni og búferlaflutningar muni þróast á næstu árum og áratugum. Rétt er að taka fram að mannfjöldaspár geta aldrei verið mjög nákvæmar, sértaklega ekki ef þær ná langt fram í tímann, þar sem óvíst er hvernig einstaka breytur munu þróast. Minnsta óvissan er í dánartíðninni en mesta óvissan er yfirleitt bundin við búferlaflutninga. Á vef Hagstofu Grænlands (Grønland statistiks) er að finna fólksfjöldaspá til ársins 2040. Samskonar spá er einnig að finna á vef Hagstofu Íslands. Samkvæmt þessum spám er gert ráð fyrir að á tímabilinu 2015 til 2040 muni Íslendingum fjölga úr 326.900 í 395.900. Hins vegar er gert ráð fyrir lítilsháttar fækkun á Grænlandi, úr 56.200 í 53.400. Gangi þessar spár eftir mun Íslendingum halda áfram að fjölga næstu áratugi en Grænlendingum fækka. Allt stefnir því í að munur á íbúafjölda í löndunum tveimur muni aukast frekar en að það dragi saman. Vissulega eru þetta aðeins spár og eins og fram hefur komið er óvissa í þeim. Það breytir því hins vegar ekki að munur á mannfjölda í löndunum tveimur er það mikill í dag að eitthvað stórkostlegt og algjörlega ófyrirsjáanlegt þarf að gerast til þess að Grænlendingar verði fleiri en Íslendingar. Heimildir: Mynd:
- Greenland - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 2.11.2014).