Hversu margar kjarnorkusprengjur hafa verið búnar til?Ómögulegt er að gefa upp nákvæma tölu yfir þær kjarnorkusprengjur sem búnar hafa verið til. Töluverð leyndarhyggja hefur ríkt um kjarnorkubirgðir ríkja en þó hafa Bandaríkin, Rússland, Bretland og Frakkland, að hluta til eða að mestu leyti, aflétt leynd yfir kjarnorkuvopnum. Leynd ríkir hins vegar yfir birgðum annarra ríkja: Ísraels, Indlands, Pakistans, Kína og Norður-Kóreu. Raunar er ekki vitað með fullri vissu hvort síðastnefnda ríkið hafi kjarnorkuvopn í fórum sínum því þrátt fyrir kjarnorkutilraunir Norðu-Kóreu eru engar raunverulegar sannanir fyrir því að ríkið ráði yfir slíkum vopnum. Talið er að Kínverjar eigi núna fleiri kjarnorkuvopn en Bretar og hið sama gæti átt við um Indland og Pakistan árið 2020. Vísindamenn í Bandaríkjunum hafa áætlað að um 125 þúsund kjarnaoddar hafi verið framleiddir allt frá því að fyrstu kjarnorkusprengjurnar voru sprengdar árið 1945 og fram til ársins 2013. Um 53% af þessum kjarnorkusprengjum koma frá Bandaríkjunum og 44% frá Sovétríkjunum og Rússlandi.
- Kristensen, Hans M. og Robert S. Norris "Global nuclear weapons inventories, 1945?2013" Bulletin of the Atomic Scientists 2013 69:75.
- Status of World Nuclear Forces. Federation og American Scientists. (Skoðað 16.07.2014).
- Mark 7 Nuclear Bomb. Wikipedia the free encyclopedia. (Sótt 16.07.2014).