Er starinn byrjaður að verpa? Í dag er 15. apríl og það er mikið að gerast í hreiðurgerð í húsinu mínu. Við viljum gjarnan losa okkur við hreiðrin áður en það koma egg/ungar í þau - er það of seint?Varptími starans (Sturnus vulgaris) er frá seinni hluta apríl og fram eftir júní. Það er því alls ekki víst að starinn hafi verið byrjaður að verpa þann 15. apríl en hann var þá kominn eitthvað á veg með hreiðurgerð í borginni. Nú þegar þetta er skrifað, þann 30. apríl, kann að vera að starar séu búnir að verpa í einhverjum tilfellum. Samkvæmt lögum er starinn friðaður en menn hafa horft í gegnum fingur sér með að hindra hann í hreiðurgerð þó það sé með öllu ólöglegt að drepa fuglinn eða ungana. Það getur verið æskilegt að eitra hreiðurstæði fuglsins áður en lokað er fyrir stæðið þar sem mögulegt er að fló sé komin í hreiðrið. Mynd:
- Aves.is. (Sótt 30. 4. 2014).