Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Skotveiðar á spendýrum, öðrum en þeim sem við flokkum sem meindýr, hafa að mörgu leyti sérstaka stöðu í hugum fólks. Slíkar veiðar eru vissulega umdeildari heldur en stangveiði og skotveiðar á fuglum. En í hugum margra er það að skjóta villt spendýr síst verra heldur en að rækta dýr í litlum búrum og slátra, eins og er til dæmis gert í loðdýrarækt. Einnig eru aðrar aðferðir við veiðar á villtum dýrum, sem ekki eru flokkuð sem meindýr, enn umdeildari. Veiðar með hundum tíðkast á sífellt færri stöðum og veiðar með gildrum hafa víða lagst af.
Þrátt fyrir að skotveiðar á spendýrum séu sem sagt ekki almennt helsti skotspónn dýraverndunarsinna vakna margar siðferðilegar spurningar við slíkar veiðar, ekki síst í ljósi þess að ástæða þess að dýr er drepið er fyrst og fremst ánægja veiðimannsins. Það er því mikilvægt að greina á milli þess að þurfa að veiða sér til matar og stunda skotveiðar. Lágmarkskrafa siðfræðilegrar greiningar á skotveiðum er að hún geri raunhæfar kröfur til fólks; sú athöfn að deyða villt dýr getur ekki verið óréttmæt ef mikilvægir hagsmunir eru í húfi. Það er því ekki ávallt rangt að skjóta og drepa önnur spendýr.
Helsta vandamálið við viðhorf okkar til skotveiða er hversu erfitt það getur reynst að mynda sér heilsteypta skoðun á þeim þannig að við séum samkvæm sjálfum okkur. Hver kannast til dæmis ekki við að hafa gerst sekur um að vera á móti athöfn en vilja njóta afleiðinga hennar?
Helsta vandamálið við viðhorf okkar til skotveiða er hversu erfitt það getur reynst að mynda sér heilsteypta skoðun á þeim þannig að við séum samkvæm sjálfum okkur.
Verndunarsinnar fá oft að heyra að þeir hafi orðið fyrir of miklum áhrifum frá dægurmenningunni, að atriðið þegar móðir Bamba var skotin af veiðimönnunum hafi skekkt heimsmynd þeirra. Andstætt viðhorf á að vera vísindalegra, hlutlægara og einhvers konar svar við manngervingunni (e. anthropomorphism) sem kemur fram í ótal myndum um villt dýr. En vísindamenn eru ekki einu máli um réttmæti þess að skotveiðar séu stundaðar á spendýrum. Þeir skiptast í fylkingar þegar kemur að umhverfismálum. Vísindamenn geta verið sammála um einstök atriði, eins og mikilvægi þess að horfa til ástands stofna, en lengra ganga vísindaleg rök ekki í þessari deilu. Það er til dæmis mikilvægt að gefa sér ekki einfaldlega að sjálfbærni geti verið afsökun fyrir hverju sem er; að veiðar séu stundaðar á sjálfbæran hátt er nauðsynlegt skilyrði þess að veiðar teljist ekki siðferðilega ámælisverðar en þó fjarri því að vera nægjanlegt skilyrði.
Algengt viðhorf til réttmæti skotveiða er að ákveðin menning réttlæti ástundun þeirra. Engum blöðum er um það að fletta að raunveruleg veiðisamfélög, til dæmis á norðurslóðum, horfa til skotveiða sem eðlilegs hluta af tilverunni. Vandamálið er að lengi hefur tíðkast að yfirfæra þessa hugmynd yfir á samfélög sem geta strangt tiltekið ekki flokkast sem veiðisamfélög. Íslenskt samfélag er til að mynda ekki veiðisamfélag. Ekki er þó útilokað að einhverjir hlutar samfélagsins gætu haft efnahagslegan ábata af skotveiðum, en slíkar forsendur hefðu einungis siðferðilegt vægi ef lífsafkoma væri bókstaflega í húfi.
Stærsta siðferðilega álitamálið varðandi skotveiðar á spendýrum snýst ekki um ofangreind viðhorf heldur hver siðferðileg staða spendýra sé í raun og veru. Hafa þau til að bera réttindi sem aðrir hagsmunir, til dæmis ánægja einstakra veiðimanna, geta ekki gengið fyrir? Fjölmargir fræðimenn, Peter Singer er líklega þeirra þekktastur, hafa fært fyrir því rök að þessi siðferðilega staða sé fyrir hendi. Samkvæmt þeim hafa spendýr, til dæmis í ljósi huglægrar getu sinnar, rétt til lífs og til að forðast óþarfa þjáningar. Hvort sem fólk er sammála þeim forsendum sem slík rök byggja á eða ekki – það má til dæmis spyrja sig hvort þessi huglæga geta sé í raun til staðar og hvort félagsvitund margra spendýra sé ekki orðum aukin – er ekki hægt að horfa framhjá þeirri staðreynd að fjöldi fólks er þeirrar skoðunar að spendýr hafi mikilvæga siðferðilega stöðu í veruleikanum.
Veiðar á miðöldum. Efri hluti myndarinnar sýnir villisvínaveiðar með aðstoð hunda og á neðri hlutanum sjást héraveiðar. Myndin er úr franskri 15. aldar heimild.
Á Vesturlöndum hefur mannhverf (e. anthropocentric) sýn á náttúruna verið á undanhaldi undanfarna áratugi. Líffræðileg fjölbreytni er ekki einungis talin vera til staðar fyrir manninn og er ábyrgð hans, til dæmis við grisjun dýrastofna, þar af leiðandi ekki eins mikil. Hluti þessa viðhorfs er annars konar sýn á sambúð manna og dýra. Stundum er talað um að svokölluð tilfinningarök byggi á þeirri sýn og að þau séu ávallt óviðeigandi fyrir upplýsta umræðu. Það kann að vera örlítið orðum aukið. Fjöldi fólks telur sig standa í nánum tengslum við önnur spendýr, til dæmis vegna þróunarfræðilegra líkinda en einnig einfaldlega vegna þess að sum spendýr eru óumdeilanlega prýði á náttúrunni. Þetta fólk tekur það virkilega nærri sér þegar villt dýr sæta illri meðferð. Tilfinningarök geta því verið réttmæt ef ályktunin sem þau eiga að styðja er til dæmis sú að það sé óþarfi að skjóta spendýr ánægjunnar vegna. Það getur því verið siðferðilega óréttlætanlegt að stunda skotveiðar á spendýrum ef veiðarnar misbjóða fólki sem hefur sæmilega haldbær rök fyrir skoðun sinni.
Er þá rangt að skjóta og drepa önnur spendýr ef ekki eru lífsverðmæti í húfi? Svarið þarf ekki nauðsynlega að vera jákvætt þrátt fyrir það sem sagt var um tilfinningarök hér að framan. Skotveiðar á spendýrum misbjóða ekki ávallt fólki sem telur sig hafa sterk tengsl við þau. Skotveiðar sem stundaðar eru samkvæmt ströngum reglum sem ætlað er að tryggja mannúðlegar veiðar (siðareglur veiðimanna geta verið dæmi um slíkar reglur) valda almennt ekki úlfúð í þeim samfélögum sem þær eru stundaðar í. Kröfurnar verða þó oft það miklar að fyrirhöfnin og kostnaðurinn draga töluvert úr ánægju veiðimanna. Skilyrði um leiðsögumann og sérstakan vopnabúnað eru til dæmis íþyngjandi en líklega eina leiðin til að tryggja að rétt dýr sé drepið og á sem skjótastan hátt. Ef við gefum okkur að spurningar um efnahagslegt jafnræði við veiðar verði ekki að sérstöku siðferðilegu álitamáli má segja að slíkar kröfur séu eina leiðin til að komast hjá þeirri niðurstöðu að rangt sé að skjóta og drepa þau spendýr sem við flokkum ekki sem meindýr.
Myndir:
Henry Alexander Henrysson. „Er rangt að skjóta og drepa önnur spendýr?“ Vísindavefurinn, 4. apríl 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=67227.
Henry Alexander Henrysson. (2014, 4. apríl). Er rangt að skjóta og drepa önnur spendýr? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=67227
Henry Alexander Henrysson. „Er rangt að skjóta og drepa önnur spendýr?“ Vísindavefurinn. 4. apr. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=67227>.