Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Davíð: Er til eitthvað sem heitir "bein skynjun"? Hvað varðar sjón sjáum við til dæmis bara endurkast ljóss.
Anna: Hver er munurinn á beinskynjunarkenningum og tvenndarkenningum?
Gunna heldur á epli og horfir á það. Þar sem Gunna hefur prýðilega sjón þá sér hún eplið, meðal annars sér hún að það er rautt og nokkurn veginn hnöttótt. Hún finnur fyrir eplinu í hendinni, finnur fyrir þyngd þess og að áferð þess er fremur slétt. Gunna færir eplið nær vitum sér og finnur sætan ilminn. Svo bítur hún í það og finnur bragðið.
Yfirleitt lítum við svo á að Gunna skynji þarna eplið með ýmsum skynfærum sínum. Rauði hnöttótti hluturinn sem hún sér er sá sami og hluturinn sem hún finnur bragðið af þegar hún fær sér bita. En er það svo í raun? Kannski er það ónákvæmni þegar við segjum að Gunna sjái og bragði sama hlutinn. Getur verið að það sé strangt til tekið ekki eplið sjálft sem Gunna sér og bragðar, heldur einhvers konar millistig eða skynmynd?
Skynjar Gunna rauða eplið beint, án allra milliliða?
Skiptar skoðanir hafa verið meðal heimspekinga um það hvort við skynjum hlutina beint eða gegnum einhvers konar milliliði. Lítum fyrst á þá kenningu sem er einföldust: Þegar Gunna horfir á rautt epli þá sér hún rauða eplið beint. Þetta er einföld útgáfa af svokallaðri beinskynjunarkenningu (e. direct realism). Hér er ekkert verið að flækja málið með einhverjum milliliðum, skynjun okkar fer fram með beinu sambandi við hlutina í heiminum.
Helstu vandkvæðin tengd beinskynjunarkenningunni eru þau sem koma fram í röksemdum sem kenndar eru við sjónhverfingar og ofskynjanir (sjá Hvað er sjónblekking? og Hvað er ofskynjun og hvernig er hún framkölluð með efnum á borð við LSD? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur). Sjónhverfingarrökin (e. argument from illusion) eru eftirfarandi. Hugsum okkur að Gunna horfi á almynd (e. hologram) af rauðu epli. Hún sér eitthvað sem er „eins og“ rautt epli en veit jafnframt að ekkert epli er þarna í raun. Gunna verður fyrir skynhrifum sem geta ekki komið beint frá rauðu epli þar sem þarna er ekkert epli; skynhrifin hljóta að koma frá einhverju öðru en eru samt alveg eins og þau sem Gunna verður fyrir þegar hún sér alvöruepli. Hvernig má þetta vera ef skynhrifin eru beinlínis af hlutnum sjálfum, eins og haldið er fram í beinskynjunarkenningunni?
Aðra dæmisögu má segja til að útskýra ofskynjunarrökin (e. argument from hallucination). Gerum ráð fyrir að Gunna þjáist af ofskynjunum og sé sannfærð um að hún haldi á rauðu epli og horfi á það. Við hin sjáum að hún er ekki með neitt epli. Skynhrifin og öll reynslan sem Gunna finnur fyrir eru nákvæmlega eins og þegar hún heldur á raunverulegu epli. Ef viðfang skynjunar Gunnu í síðarnefnda tilvikinu (þegar um raunverulega reynslu er að ræða) er eplið sjálft, hvert er þá viðfang ofskynjunar hennar?
Sá vandi sem sjónhverfingar- og ofskynjunarrökin leiða í ljós hefur (ásamt fleiru) orðið til þess að settar hafa verið fram kenningar um ýmiss konar milliliði í skynjun. Ein slík kenning er skynreyndakenningin (e. sense data theory). Samkvæmt henni sér Gunna aldrei eplið sjálft heldur rauða og hnöttótta skynreynd (e. sense data). Raunverulegt epli getur auðvitað verið orsök skynreyndarinnar en hún gæti einnig orsakast af skynvillu eða ofskynjun og svo framvegis.
Skynreyndakenningin hefur verið gagnrýnd frá ýmsum hliðum. Meðal annars þykir mörgum það ókostur að hún virðist stilla upp einhvers konar „skynjunarhulu“ milli heimsins og þess sem skynjar hann. Eins hafa sumir viljað draga úr vægi sjónhverfingar- og ofskynjunarrakanna.
Þetta er svokölluð tvenndarmynd (e. stereogram). Gerið ykkur svolítið rangeygð og horfið þar til þriðji hvíti punkturinn virðist birtast á milli hinna tveggja. Þá ættuð þið að sjá landslagið í þrívídd. Þetta virðist ganga gegn beinskynjunarkenningunni þar sem þrívíddarskynhrifin orsakast ekki af raunverulegu þrívíðu landslagi.
Þriðja gerð kenninga um aðgang skynjunar að heiminum eru svokallaðar íbyggnikenningar (e. intentionalism eða representationalism). Samkvæmt þeim einkennist skynjunin af því sem hún „fjallar um“. Þegar Gunna sér rauða eplið þá fjallar skynjun hennar um rautt epli. Hið sama gildir raunar þegar hún verður fyrir ofskynjun sama efnis; ofskynjunin fjallar líka um rautt epli. Munurinn liggur hins vegar í því að þegar um raunverulegt epli er að ræða þá tjáir skynjunin raunverulega rautt epli en þegar Gunna verður fyrir ofskynjun má segja að skynjunin villi á sér heimildir, hún er ekki fulltrúi alvörueplis.
Samkvæmt íbyggnikenningunum er skynjunin bein þegar hún samsvarar einhverju raunverulegu. Skynjun Gunnu sem fjallar um rautt epli er bein skynjun af rauðu epli þegar raunverulegt rautt epli liggur henni að baki. Í ofskynjunum er hins vegar um að ræða nokkurs konar millilið í dulargervi og skynjunin er þá ekki bein.
Á fyrri hluta tuttugustu aldar má segja að helstu átökin hafi verið milli þeirra sem aðhylltust beinskynjunarkenninguna og þeirra sem töldu skynreyndakenninguna vænlegri kost. Á seinni hluta tuttugustu aldar urðu svo íbyggnikenningar ráðandi og eiga þær sér enn fjölda fylgismanna.
Önnur kenning sem kom fram á síðasta fjórðungi tuttugustu aldar nýtur þó töluverðs fylgis en það er tvíþáttakenningin (e. disjunctivism) sem er eins konar endurbætt útgáfa beinskynjunarkenningarinnar. Samkvæmt henni á beinskynjunarkenningin við um alla skynreynslu sem gefur rétta mynd af heiminum. Þegar Gunna horfir á raunverulegt rautt epli og sér rautt epli þá skynjar hún það beint. Í sjónhverfingum og ofskynjunum gilda önnur lögmál. Þá er skynjunin ekki bein heldur kemur til einhvers konar milliliður á borð við skynreynd. Samkvæmt tvíþáttakenningunni gilda því bæði beinskynjunarkenningin og skynreyndakenningin (eða eitthvað sambærilegt við hana) en þær eiga við í mismunandi tilfellum.
Munurinn á tvíþáttakenningunni og íbyggnikenningum felst meðal annars í því að í þeirri fyrrnefndu er áherslan á það sem skynjunin er af en í þeim síðarnefndu á það sem hún er um. Þannig eiga raunveruleg skynjun á rauðu epli og ofskynjun á rauðu epli fátt sameiginlegt samkvæmt tvíþáttakenningunni, þær eru eðlisólíkar þar sem raunverulega skynjunin er af raunverulegu epli en ofskynjunin er af einhverju allt öðru. Samkvæmt íbyggnikenningum eiga raunverulega skynjunin og ofskynjunin hins vegar þann mikilvæga þátt sameiginlegan að fjalla um rautt epli.
Nú skulum við vona að eplið hennar Gunnu bragðist vel og að það sé raunverulegt epli en ekki eitthvað annað sem fer um meltingarveg hennar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Skynjum við hlutina beint og milliliðalaust?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6722.
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2007, 17. júlí). Skynjum við hlutina beint og milliliðalaust? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6722
Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Skynjum við hlutina beint og milliliðalaust?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6722>.