Hvað eru margir metrar í einu gömlu vindstigi? Er það eins upp allan skalann eða er einhver stuðull eftir vindstyrk?Veðurhæðar er nú að jafnaði getið í hraðaeiningunni metrar á sekúndu (m/s) enda er hann nú mældur með hraðamælum. Áður var notast við mat sem byggðist á svokölluðum Beaufort-kvarða. Kvarðinn sá hefur lengst af verið 13 stiga, lægst núll, hæst 12. Við matið var notast við töflu sem ber áhrif vindsins saman við mældan vindhraða. Beaufort-kvarðinn var upphaflega þróaður til notkunar á sjó og á seglskipum þar sem sjá mátti áhrif vinds á segl og sjávarlag við mismunandi vindhraða. Mat vindhraða eftir Beaufort-kvarða
Stig | Heiti | m/s | Áhrif á landi |
0 | Logn | 0-0,2 | Logn, reyk leggur beint upp. |
1 | Andvari | 0,3-1,5 | Vindstefnu má sjá af reyk, flögg hreyfast ekki. |
2 | Kul | 1,6-3,3 | Vindblær finnst á andliti, skrjáfar í laufi, lítil flögg bærast. |
3 | Gola | 3,4-5,4 | Breiðir úr léttum flöggum, lauf og smágreinar titra. |
4 | Stinningsgola | 5,5-7,9 | Laust ryk og pappírssneplar taka að fjúka, litlar trjágreinar bærast. Lausamjöll byrjar að hreyfast. |
5 | Kaldi | 8,0-10,7 | Lítil lauftré taka að sveigjast. Freyðandi bárur á stöðuvötnum. Lausamjöll hreyfist. |
6 | Stinningskaldi | 10,8-13,8 | Stórar greinar svigna. Hvín í línum. Erfitt að nota regnhlífar. Lágarenningur viðvarandi. |
7 | Allhvass vindur | 13,9-17,1 | Stór tré sveigjast til. Þreytandi að ganga á móti vindi. Skyggni slæmt í snjókomu. |
8 | Hvassviðri | 17,2-20,7 | Trjágreinar brotna. Erfitt að ganga á móti vindinum. Menn baksa á móti vindi. Skyggni í snjókomu verður lítið sem ekkert. |
9 | Stormur | 20,8-24,4 | Lítilsháttar skemmdir á mannvirkjum. Varla hægt að ráða sér á bersvæði. Glórulaus bylur ef snjóar. |
10 | Rok | 24,5-28,4 | Fremur sjaldgæft í innsveitum. Tré rifna upp með rótum, talsverðar skemmdir á mannvirkjum. |
11 | Ofsaveður | 28,5-32,6 | Miklar skemmdir á mannvirkjum. Útivera á bersvæði hættuleg. Rýfur hjarn, lyftir möl og grjóti. |
12 | Fárviðri | >= 32,7 | Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri. |
V = 1.624 x B3/2 (gefur vindhraða í hnútum við miðgildi vindstigsins) eða |
V = 0,836 x B3/2 fyrir m/s. |
Mynd:
- Robert Paterson's Weblog. Sótt 11. 10. 2018.
Þetta svar er stytt útgáfa af svari sama höfundar við spurningunni Hvaða nöfn eru notuð á vindstigin og hver er saga íslenskra vindstigaheita?