Ég er mjög forvitinn að vita hvers konar stjörnukíki þið eruð með undir kúplinum sem sést frá Suðurgötunni? Takk, Gabriel... Áhugamaður um stjörnuskoðunUndir hvolfþaki á Árnagarði er hýstur lítill stjörnusjónauki í eigu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Sjónaukinn og hvolfþakið voru sett upp í október árið 1995 og var aðstaðan hugsuð fyrir nemendur í stjörnufræði við Háskóla Íslands. Hvolfþakið hafði verið keypt tuttugu árum fyrr eða á sama tíma og hvolfþakið á Valhúsaskóla þar sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hefur aðsetur. Sjónaukinn var einnig keyptur nokkrum árum áður en hann var settur upp. Sjónaukinn er frá bandaríska fyrirtækinu Meade. Hann er af gerðinni Maksutov-Cassegrain sem þýðir að hann er blanda spegilsjónauka og linsusjónauka. Ljósop hans er 7 tommur (178mm), brennivíddin 2670mm og brennihlutfallið f/15. Hann situr á svokölluðu gaffalsstæði sem er rafdrifið og tölvustýrt. Sjónaukar af þessu tagi eru þekktir fyrir að gefa skýra og skarpa mynd, sér í lagi af þeim fyrirbærum sem ráða við mikla stækkun eins og tunglið, reikistjörnurnar og tvístirni. Sjónaukinn hefur lítið verið notaður undanfarin ár, enda er staðsetning hans ekki sú besta því mikil ljósmengun er í Reykjavík. Myndir:
- © Kristinn Ingvarsson.
- File:Maksutov cassegrain comercial.png - Wikimedia Commons. (Sótt 27.10.2017).