Samar eru flestir í Noregi, eitthvað um 40.000, um 20.000 í Svíþjóð, 6.000 í Finnlandi og 2.000 í Rússlandi. Þessar tölur eru þó nokkuð á reiki og þar með tölur um heildarfjölda Sama. Ástæðan er meðal annars sú að það er misjafnt hversu langt eða stutt aftur í ættir fólk þarf að geta rakið samískan bakgrunn til þess að teljast Samar. Algengt er að Samar séu taldir vera einhvers staðar á bilinu 60-100.000.
Samar eiga nokkur tungumál eða mállýskur. Sum málin eru það ólík að Samar sem tala þau skilja ekki aðra Sama. Margir Samar tala annað tungumál en móðurmál sitt.
Samar eru hvað þekktastir fyrir hreindýrarækt. Það var þó ekki fyrr en á 20. öld sem þeir fóru að vera með mjög stórar hjarðir, áður voru þeir með litlar hjarðir en veiddu sér líka til matar. Þeir bjuggu í tjöldum og torfhúsum og færðu sig á milli beitilanda með hjarðir sínar. Vanalega voru fimm til sex fjölskyldur með hverja hjörð. Nú hafa margir hætt hirðingjalífinu og tekið upp nútímalega lífshætti og stunda aðra atvinnu svo sem sjávarútveg, hefðbundinn landbúnað eða þjónustustörf.
Heimildir og myndir:
Þetta svar er eftir nemanda á námskeiði sem haldið var í júnímánuði 2007 á vegum Háskólaseturs Vestfjarða fyrir ungmenni á aldrinum 12-16 ára.