Orðatiltækið að bera í bætifláka. Er það komið úr jarðrækt og er bætiflákinn til sem sjálfstæð eining eða er það fláki sem verður bætifláki þegar einhver tekur að sér að bæta helgidaga í reit sem einhver hefur borið illa á?
Í seðlasöfnum Orðabókar Háskólans er elsta heimild um orðið bætifláki úr Vídalínspostillu (1720–1724). Það virðist eingöngu notað í sambandinu að bera í bætifláka fyrir einhverjum/einhvern í merkingunni 'afsaka einhvern, færa eitthvað fram sem málsbætur fyrir einhvern’. Dæmið úr Vídalínspostillu er svona:
ber (þú) eckert i Bæteflaaka fyrer þier hia honum sem veit hvad med Mannenum bijr.Í elstu heimildum er notað þágufall, fyrir einhverjum, en nú er þolfall einrátt (fyrir einhvern). Ásgeir Blöndal Magnússon hefur bætifláka sem flettu í Íslenskri orðsifjabók (1989:100). Hann segir óvíst hvað bætifláki merki en segir hugsanlegt að átt sé við landskika sem borið er á til að græða hann upp. Til samanburðar bendir hann á orðasamböndin að bera í vanginn fyrir einhvern og bera skarn í vænginn fyrir einhvern 'afsaka einhvern, mæla einhverjum bót’. Undir þetta taka Halldór Halldórsson í Íslensku orðtakasafni (1991:99) og Jón Friðjónsson í Merg málsins (2006:128). Heimildir:
- Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans.
- Ásgeir Blöndal Magnússon 1989. Íslensk orðsifjabók. Orðabók Háskólans, Reykjavík.
- Halldór Halldórsson. 1991. Íslenzkt orðtakasafn. 3. útgáfa aukin. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
- Jón Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Önnur útgáfa, aukin og endurbætt. Mál og menning, Reykjavík.
- Cultivated land, Brockton (C) Richard Webb :: Geograph Britain and Ireland. (Sótt 28.04.2014).