Ég er með fyrirspurn frá erlendu ferðafyrirtæki. Það spyr hvort að Íslendingar veiði hákarla í útrýmingarhættu. Vitið þið hver staðan á veiðum hér við land er?Í svonefndum Washingtonsáttmála (CITES, Convention on International Trade in Endangered Species of Wild Fauna and Flora) eru sjö hákarlategundir tilgreindar sem kunna að verða í útrýmingarhættu ef alþjóðlegri verslun með þær er ekki stjórnað. Verslun með aðrar tegundir kann að vera í lagi, að því tilskyldu að næg vísindaleg þekking sé til staðar. Satt best að segja er stofnstærð þeirrar hákarlategundar sem Íslendingar hafa mest veitt af á undanförnum öldum, grænlandshákarlinn (Somniosus microcephalus), ekki þekkt. En þar sem veiðiálagið er ekki mikið má ætla að veiðarnar séu sjálfbærar. Af hákarlategundunum sjö sem nefndar eru á lista CITES finnst ein við strendur Íslands, það er hámeri (Lamna nasus). Samkvæmt mati vísindamanna er heildarstofnþyngd (e. biomass) hámerar í Atlantshafi um 4.409 tonn og er hann aðeins um 11% af upphaflegri stofnstærð (e. virgin population) en það er mat vísindamanna á stofnstærð tegundarinnar áður en veiðar hófust. Tegundinni hefur hnignað mjög á undanförnum áratugum en hún finnst á öllum helstu hafsvæðum heimsins. Veiðiálagið er sérstaklega mikið í Indlandshafi. Hámerin finnst djúpt suður af Íslandi og var afli íslenska flotans á henni á síðasta ári aðeins 793 kg en hámerin kemur sem meðafli á öðrum veiðum. Aflinn er því svo óverulegur að hámerinni stafar engin hætta af slíkum veiðum. Slíkt má einnig segja um aðrar tegundir nema grænlandshákarlinn en bein sókn er í hann þótt hún sé óveruleg og minniháttar ef við skoðum afla í sögulegu samhengi. Á síðasta ári voru 6,3 tonn veidd af grænlandshákarli en fyrr á öldum var heildarafli Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga að jafnaði rúmlega 30 þúsund dýr á ári. Miðað við um 900 kg meðalþyngd hefur heildaraflinn verið um 27 þúsund tonn. Í þá daga var olían úr lifur skepnunnar notuð til götulýsingar í evrópskum borgum. Eftir að menn fóru að nota aðra orkugjafa hrundu þessar veiðar. Myndir:
- Haringhaai - Hámeri - Wikipedia. (Sótt 7.02.2014).
- File:Somniosus.jpg - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 7.02.2014).