Hvaða hugmyndafræði býr að baki dómum dómstóla um málskostnað? Nú er það svo að dæmdur málskostnaður er oft einungis brot af málskostnaði, sem þýðir að aðili sem vinnur, tapar. Hefur verið á það reynt að aðili sem vinnur mál en fær bara hluta málskostnaðar dæmdan, stefni mótaðila til fullra bóta?Þegar máli lýkur fyrir dómi á annan hátt en með dómssátt þarf dómari að taka afstöðu til málskostnaðar milli aðilanna. Þetta er þó háð því að annar eða báðir aðilar hafi gert kröfu um málskostnað. Hugsunin að baki reglum um málskostnað er að gera aðilann sem vinnur málið skaðlausan af því að hafa þurft að standa að málarekstri, til að ná fram þeirri niðurstöðu dómsins að hann hafi hvort sem er átt þau réttindi sem hann barðist fyrir. Það má því líta á málskostnað sem eins konar skaðabætur úr hendi annars aðilans til hins. Hvor aðila leggur því út fyrir sínum málskostnaði meðan á málarekstrinum stendur en þegar málinu lýkur er lagt á annan aðilann að gera hinn skaðlausan með því að bæta honum útgjöld af málinu. Fyrrnefndi aðilinn þarf einnig að bera sinn eigin málskostnað.

Í framkvæmd er það oftast svo að dómari dæmir hæfilega fjárhæð í málskostnað án þess að hafa nákvæmar upplýsingar um einstaka útgjaldaliði. Dæmdur málskostnaður dugir því oft ekki fyrir raunverulegum kostnaði vegna málarekstursins. Á myndinn sjást dómarar við Hæstarétt.
- Markús Sigurbjörnsson, 2003, Einkamálaréttarfar - gefið út sem handrit til kennslu við lagadeild Háskólans í Reykjavík, 2. útg.
- Hæstaréttardómur í máli nr. 10/1954.
- Hæstiréttur Íslands. (Sótt 29.01.2014).