Sumir vilja meina að þegar kona gengur með barn að fóstrið sé eins og sníkjudýr í líkama hennar. Er rétt að segja það? Er fóstur það sama og sníkjudýr?Áður en þessari spurningu er svarað er vert að rifja upp skilgreiningu á sníkjudýri. Sníkjudýr er lífvera sem lifir á annarri lífveru á hennar kostnað, langoftast með því að ræna hana næringu eða valda henni öðrum óþægindum. Er fóstur þá sníkjudýr sem rænir móðurina (hýsilinn) næringu og getur stórskaðað heilsu hennar og jafnvel drepið hana? Það er í meira lagi vafasamt að halda því fram. Stutt skilgreining á ensku á sníkjulífi er eftirfarandi:
An organism that grows, feeds, and is sheltered on or in a different organism while contributing nothing to the survival of its host.Lauslega þýtt:
Lífvera sem vex, nærist og er veitt skjól á eða inni í annarri lífveru án þess að leggja nokkuð af mörkum til afkomu hýsilsins.Þessi skilgreining ætti hugsanlega að geta afsannað þá fullyrðingu að fóstur sé sníkjudýr. Hugsa mætti að afkvæmið auki hæfni móðurinnar einfaldlega með því að komast af, það er ef við víkkum út skilgreininguna og hugsum út fyrir lífveruna sjálfa sem er ekkert annað en hjúpur utan um erfðaefnið. Með öðrum orðum, með því að koma afkvæmi á legg, þá lifa erfðavísar móður (og föður) lengur en hýsillinn sjálfur. Að því leyti er fóstur alls ekki sníkjudýr. Önnur skilgreining á sníkjulífi sem víða er að finna í líffræðiritum er einhvern veginn á þessa leið:
Sníkjudýr er lífvera sem lifir á eða inni í annarri lífveru af annarri tegund, á hennar kostnað, langoftast með því að ræna hana næringu eða valda henni öðrum óþægindum.Hér hefur orðunum af annarri tegund verið bætt við sígilda skilgreiningu á sníkjulífi sem við höfum flest lært í skólum. Þetta útilokar því að við getum kallað fóstur sníkjudýr enda geta allir verið sammála um að það er hagur lífveru að eignast afkvæmi þrátt fyrir meintan kostnað, jafnvel þó það kosti foreldrið lífið eins og gerist með ótal tegundir. Sníkjudýr eru nokkurs konar innrásarlífverur, það er þær ráðast inn í líkama okkar og ræna okkur orku. Þar af leiðandi er erfitt að sjá hver hagur okkar af tilvist þeirra sé en því er algjörlega öfugt farið með afkvæmi okkar. Mynd:
- File:Mridula & Tony.jpg - Wikimedia Commons. Myndrétthafi er Jason Corey. Myndin er birt undir Creative Commons-leyfi. (Sótt 08.03.2017).