Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er einhver munur á notkun orðanna fótbolti og knattspyrna?

Jón Hilmar Jónsson

Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun
Um íþróttaiðkun og þær margvíslegu keppnisgreinar sem þar koma við sögu hefur orðið til margbreytilegt orðafar í íslensku. Um margt hafa sprottið fram nýyrði sem mörg hver hafa fest rætur en önnur orð eru sýnilega aðfengin og vitna um áhrifavald samfélaga sem þau eru sprottin úr og sterkan alþjóðlegan svip á íþróttamáli almennt.

Áhrif íþrótta og íþróttamenningar á málið takmarkast raunar ekki við það orðafar sem snýr að íþróttunum sjálfum. Í almennu máli er fjöldi orða og ekki síður margs kyns orðasambanda og líkinga sóttur til íþróttanna, sem á þann hátt stuðla að fjölbreytni í málnotkun og orðalagi.

Íþróttamálið á jafnvel til að endurspegla keppnisanda íþróttanna sjálfra, þar sem orð takast á sem fulltrúar ólíkra viðhorfa til máls og málnotkunar. Þar er nærtækt að nefna þá íþrótt sem einna mestrar hylli nýtur í heiminum og á íslensku hefur eignast tvö heiti, fótbolti og knattspyrna.

Í fyrstu haslaði íþróttin sér völl undir heitinu fótbolti, beinni eftirmynd enska heitisins football, sem heiti íþróttarinnar er sniðið eftir í fjölda mála. Upphafið er rakið til stofnunar Fótboltafélags Reykjavíkur um aldamótin 1900 en árið 1913 var nafni félagsins breytt í Knattspyrnufélag Reykjavíkur sem fengið hefur stuttnefnið KR.

Fótbolti er bein eftirmynd enska heitisins football. Íþróttin haslaði sér í fyrstu völl undir því heiti en seinna festi orðið knattspyrna sig í sessi. Fótbolti er ráðandi heiti í mæltu máli.

Augljóst er að hreintungusjónarmið hafa búið að baki nafnbreytingunni og mun Bjarna Jónssyni frá Vogi hafa verið falið að mynda viðeigandi orð af íslenskum stofni. Orðið knattspyrna virðist fljótlega hafa fest sig í sessi í skrifum um íþróttina og síðar í útvarpi þar sem beinar lýsingar á kappleikjum urðu vinsælt efni. Erfiðara er að meta útbreiðslu orðsins í almennu mæltu máli. Þar hefur orðið fótbolti verið ráðandi heiti og hefur síður en svo látið undan síga.

Þótt orðið knattspyrna hafi áunnið sér sterka stöðu í ritmáli hefur orðmyndunin verið gagnrýnd og orðið jafnvel talið með öllu óþarft. Skörpust og þekktust er gagnrýni Kristjáns Albertssonar í greininni „Þróun íslenzkunnar“ sem birtist í Skírni árið 1939:
Þegar fótboltaleikur fluttist hingað til Íslands, báðu menn lærðan málhreinsunarmann að búa til íslenzkt orð yfir þennan leik, og þannig var orðinu knattspyrna nauðgað inn í málið. Í þessum leik er ekki leikið með knött, heldur hlut, sem fer ágætlega á að haldi heitinu bolti. Knöttur er gagnþéttur og þungur, það heyrir hver maður með óspillta heyrn á hljómi orðsins; bolti er léttur, það er loft innan í honum, það er líka auðheyrt á hljómi orðsins. Og í þennan bolta er ekki spyrnt, heldur sparkað – það er ekki spyrnt í hlut nema hann veiti viðnám. Fótbolti er því ágætt orð. Vonandi á máltilfinning þjóðarinnar eftir að útrýma orðinu knattspyrna...

Hvernig sem orðið knattspyrna er metið í ljósi þessara athugasemda hefur það haldið velli á sínu áhrifasvæði og rutt brautina fyrir fjölmörg orð af íslenskum stofni sem höfð eru um íþróttina og einstaka þætti hennar, orð eins og vítaspyrna, hornspyrna, kollspyrna, markteigur, vítateigur og rangstaða. Á öðrum svæðum hefur orðið fótbolti haft yfirhöndina.

Samanburður á samsetningum og orðasamböndum varpar nokkru ljósi á stöðu og virkni orðanna tveggja. Oft eru bæði orðin virk með sömu orðum og merkingin hliðstæð en viss blæmunur þar sem fótbolti vísar fremur til hins frjálsa og óformlega við leikinn: fótboltavöllur, knattspyrnuvöllur; fótboltamót, knattspyrnumót. Í því ljósi er eðlilegt að orðin knattspyrnumaður og knattspyrnuþjálfari hafi sterkari stöðu en hliðstæðar samsetningar með orðinu fótbolti.

Ólík virkni orðanna í orðastæðum með einstökum orðum endurspeglar einnig þennan mun. Athugun á samböndum með sögninni iðka á Tímarit.is leiðir í ljós að sambandið iðka knattspyrnu er mun algengara en iðka fótbolta. Sambærilegur munur kemur fram með sögninni leika, leika knattspyrnu er miklu algengara en leika fótbolta. Hlutföllin snúast hins vegar við með sögninni spila, þar er sambandið spila fótbolta greinilega ráðandi.

Þannig hafa bæði orðin búið um sig og treyst stöðu sína í málinu, og ekki verður annað séð en að þau eigi ágæta samleið. Því eru ekki horfur á að ósk Kristjáns Albertssonar sem getið var hér á undan verði að veruleika. En „valdahlutföllin“ geta breyst. Leit á netinu leiðir í ljós að strengurinn Íslandsmótið í fótbolta er ívið algengari en Íslandsmótið í knattspyrnu. Á Tímarit.is með textum blaða og tímarita frá öllum þeim tíma sem íþróttin hefur verið stunduð virðist Íslandsmótið í knattspyrnu einrátt allt fram yfir 1980, þegar Íslandsmótið í fótbolta fer að skjóta upp kollinum og hefur mjög sótt í sig veðrið síðustu árin.

Heimildir og mynd:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

Höfundur

Jón Hilmar Jónsson

rannsóknarprófessor á orðfræðisviði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

27.1.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jón Hilmar Jónsson. „Er einhver munur á notkun orðanna fótbolti og knattspyrna?“ Vísindavefurinn, 27. janúar 2014, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=66545.

Jón Hilmar Jónsson. (2014, 27. janúar). Er einhver munur á notkun orðanna fótbolti og knattspyrna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=66545

Jón Hilmar Jónsson. „Er einhver munur á notkun orðanna fótbolti og knattspyrna?“ Vísindavefurinn. 27. jan. 2014. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=66545>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er einhver munur á notkun orðanna fótbolti og knattspyrna?
Um íþróttaiðkun og þær margvíslegu keppnisgreinar sem þar koma við sögu hefur orðið til margbreytilegt orðafar í íslensku. Um margt hafa sprottið fram nýyrði sem mörg hver hafa fest rætur en önnur orð eru sýnilega aðfengin og vitna um áhrifavald samfélaga sem þau eru sprottin úr og sterkan alþjóðlegan svip á íþróttamáli almennt.

Áhrif íþrótta og íþróttamenningar á málið takmarkast raunar ekki við það orðafar sem snýr að íþróttunum sjálfum. Í almennu máli er fjöldi orða og ekki síður margs kyns orðasambanda og líkinga sóttur til íþróttanna, sem á þann hátt stuðla að fjölbreytni í málnotkun og orðalagi.

Íþróttamálið á jafnvel til að endurspegla keppnisanda íþróttanna sjálfra, þar sem orð takast á sem fulltrúar ólíkra viðhorfa til máls og málnotkunar. Þar er nærtækt að nefna þá íþrótt sem einna mestrar hylli nýtur í heiminum og á íslensku hefur eignast tvö heiti, fótbolti og knattspyrna.

Í fyrstu haslaði íþróttin sér völl undir heitinu fótbolti, beinni eftirmynd enska heitisins football, sem heiti íþróttarinnar er sniðið eftir í fjölda mála. Upphafið er rakið til stofnunar Fótboltafélags Reykjavíkur um aldamótin 1900 en árið 1913 var nafni félagsins breytt í Knattspyrnufélag Reykjavíkur sem fengið hefur stuttnefnið KR.

Fótbolti er bein eftirmynd enska heitisins football. Íþróttin haslaði sér í fyrstu völl undir því heiti en seinna festi orðið knattspyrna sig í sessi. Fótbolti er ráðandi heiti í mæltu máli.

Augljóst er að hreintungusjónarmið hafa búið að baki nafnbreytingunni og mun Bjarna Jónssyni frá Vogi hafa verið falið að mynda viðeigandi orð af íslenskum stofni. Orðið knattspyrna virðist fljótlega hafa fest sig í sessi í skrifum um íþróttina og síðar í útvarpi þar sem beinar lýsingar á kappleikjum urðu vinsælt efni. Erfiðara er að meta útbreiðslu orðsins í almennu mæltu máli. Þar hefur orðið fótbolti verið ráðandi heiti og hefur síður en svo látið undan síga.

Þótt orðið knattspyrna hafi áunnið sér sterka stöðu í ritmáli hefur orðmyndunin verið gagnrýnd og orðið jafnvel talið með öllu óþarft. Skörpust og þekktust er gagnrýni Kristjáns Albertssonar í greininni „Þróun íslenzkunnar“ sem birtist í Skírni árið 1939:
Þegar fótboltaleikur fluttist hingað til Íslands, báðu menn lærðan málhreinsunarmann að búa til íslenzkt orð yfir þennan leik, og þannig var orðinu knattspyrna nauðgað inn í málið. Í þessum leik er ekki leikið með knött, heldur hlut, sem fer ágætlega á að haldi heitinu bolti. Knöttur er gagnþéttur og þungur, það heyrir hver maður með óspillta heyrn á hljómi orðsins; bolti er léttur, það er loft innan í honum, það er líka auðheyrt á hljómi orðsins. Og í þennan bolta er ekki spyrnt, heldur sparkað – það er ekki spyrnt í hlut nema hann veiti viðnám. Fótbolti er því ágætt orð. Vonandi á máltilfinning þjóðarinnar eftir að útrýma orðinu knattspyrna...

Hvernig sem orðið knattspyrna er metið í ljósi þessara athugasemda hefur það haldið velli á sínu áhrifasvæði og rutt brautina fyrir fjölmörg orð af íslenskum stofni sem höfð eru um íþróttina og einstaka þætti hennar, orð eins og vítaspyrna, hornspyrna, kollspyrna, markteigur, vítateigur og rangstaða. Á öðrum svæðum hefur orðið fótbolti haft yfirhöndina.

Samanburður á samsetningum og orðasamböndum varpar nokkru ljósi á stöðu og virkni orðanna tveggja. Oft eru bæði orðin virk með sömu orðum og merkingin hliðstæð en viss blæmunur þar sem fótbolti vísar fremur til hins frjálsa og óformlega við leikinn: fótboltavöllur, knattspyrnuvöllur; fótboltamót, knattspyrnumót. Í því ljósi er eðlilegt að orðin knattspyrnumaður og knattspyrnuþjálfari hafi sterkari stöðu en hliðstæðar samsetningar með orðinu fótbolti.

Ólík virkni orðanna í orðastæðum með einstökum orðum endurspeglar einnig þennan mun. Athugun á samböndum með sögninni iðka á Tímarit.is leiðir í ljós að sambandið iðka knattspyrnu er mun algengara en iðka fótbolta. Sambærilegur munur kemur fram með sögninni leika, leika knattspyrnu er miklu algengara en leika fótbolta. Hlutföllin snúast hins vegar við með sögninni spila, þar er sambandið spila fótbolta greinilega ráðandi.

Þannig hafa bæði orðin búið um sig og treyst stöðu sína í málinu, og ekki verður annað séð en að þau eigi ágæta samleið. Því eru ekki horfur á að ósk Kristjáns Albertssonar sem getið var hér á undan verði að veruleika. En „valdahlutföllin“ geta breyst. Leit á netinu leiðir í ljós að strengurinn Íslandsmótið í fótbolta er ívið algengari en Íslandsmótið í knattspyrnu. Á Tímarit.is með textum blaða og tímarita frá öllum þeim tíma sem íþróttin hefur verið stunduð virðist Íslandsmótið í knattspyrnu einrátt allt fram yfir 1980, þegar Íslandsmótið í fótbolta fer að skjóta upp kollinum og hefur mjög sótt í sig veðrið síðustu árin.

Heimildir og mynd:


Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.

...