Þegar fótboltaleikur fluttist hingað til Íslands, báðu menn lærðan málhreinsunarmann að búa til íslenzkt orð yfir þennan leik, og þannig var orðinu knattspyrna nauðgað inn í málið. Í þessum leik er ekki leikið með knött, heldur hlut, sem fer ágætlega á að haldi heitinu bolti. Knöttur er gagnþéttur og þungur, það heyrir hver maður með óspillta heyrn á hljómi orðsins; bolti er léttur, það er loft innan í honum, það er líka auðheyrt á hljómi orðsins. Og í þennan bolta er ekki spyrnt, heldur sparkað – það er ekki spyrnt í hlut nema hann veiti viðnám. Fótbolti er því ágætt orð. Vonandi á máltilfinning þjóðarinnar eftir að útrýma orðinu knattspyrna...Hvernig sem orðið knattspyrna er metið í ljósi þessara athugasemda hefur það haldið velli á sínu áhrifasvæði og rutt brautina fyrir fjölmörg orð af íslenskum stofni sem höfð eru um íþróttina og einstaka þætti hennar, orð eins og vítaspyrna, hornspyrna, kollspyrna, markteigur, vítateigur og rangstaða. Á öðrum svæðum hefur orðið fótbolti haft yfirhöndina. Samanburður á samsetningum og orðasamböndum varpar nokkru ljósi á stöðu og virkni orðanna tveggja. Oft eru bæði orðin virk með sömu orðum og merkingin hliðstæð en viss blæmunur þar sem fótbolti vísar fremur til hins frjálsa og óformlega við leikinn: fótboltavöllur, knattspyrnuvöllur; fótboltamót, knattspyrnumót. Í því ljósi er eðlilegt að orðin knattspyrnumaður og knattspyrnuþjálfari hafi sterkari stöðu en hliðstæðar samsetningar með orðinu fótbolti. Ólík virkni orðanna í orðastæðum með einstökum orðum endurspeglar einnig þennan mun. Athugun á samböndum með sögninni iðka á Tímarit.is leiðir í ljós að sambandið iðka knattspyrnu er mun algengara en iðka fótbolta. Sambærilegur munur kemur fram með sögninni leika, leika knattspyrnu er miklu algengara en leika fótbolta. Hlutföllin snúast hins vegar við með sögninni spila, þar er sambandið spila fótbolta greinilega ráðandi. Þannig hafa bæði orðin búið um sig og treyst stöðu sína í málinu, og ekki verður annað séð en að þau eigi ágæta samleið. Því eru ekki horfur á að ósk Kristjáns Albertssonar sem getið var hér á undan verði að veruleika. En „valdahlutföllin“ geta breyst. Leit á netinu leiðir í ljós að strengurinn Íslandsmótið í fótbolta er ívið algengari en Íslandsmótið í knattspyrnu. Á Tímarit.is með textum blaða og tímarita frá öllum þeim tíma sem íþróttin hefur verið stunduð virðist Íslandsmótið í knattspyrnu einrátt allt fram yfir 1980, þegar Íslandsmótið í fótbolta fer að skjóta upp kollinum og hefur mjög sótt í sig veðrið síðustu árin. Heimildir og mynd:
- Ingimar Jónsson. 1976. Íþróttir. Alfræði Menningarsjóðs. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.
- Kristján Albertsson. „Þróun íslenzkunnar“ . Skírnir 1939: 35-45.
- Tímarit.is: www.timarit.is
- Mynd: Wakefield Sunday League Football - King George v Tingley Bulls | Flickr - Photo Sharing! (Sótt 2. 1. 2014).
Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.