Guðmundur Búi heiti ég og er áhugaljósmyndari. Ég ákvað einsog svo oft áður að skella mér í mynda-rúnt inn í Hvalfjörð þann 6. október 2013. Ég hafði verið að taka myndir hér og þar í firðinum og var staddur við gamla Botnskálann þegar að mér er litið niður í fjöru og sá þar allskonar glitrandi punkta, í fyrstu hélt ég að þetta væri bara frostið en ákvað svo að athuga málið betur og þá kom í ljós, mér til mikillar undrunar, að þetta voru dauðar marglyttur og það í hundraðatali! Fannst þetta frekar merkilegt og tók nokkrar myndir. En ég hef leitað svara við því hvað veldur, en þó bara lauslega á Netinu. Hefði svo sannarlega gaman af því að vita betur hvað veldur þessum dauða? Hér er svo hægt að skoða þessar myndir: Dead jelly | Flickr - Photo Sharing!Hér við land hafa fundist að minnsta kosti sex tegundir marglytta en aðeins tvær í miklu magni. Það eru tegundirnar bláglytta (Aurelia aurita) og brennihvelja (Cyanea capillata). Höfundur þessa svars hefur undanfarin ár stundað rannsóknir á lífríki sjávar í Hvalfirði og Faxaflóa og var sumarið og haustið 2013 allsérstakt sökum mikils fjölda marglytta í sjónum. Aðallega var um að ræða bláglyttu sem var mjög áberandi við yfirborðið. Samkvæmt ljósmyndum sem spyrjandi tók í Hvalfirði í október 2013 er það líklega tegundin sem þar sást dauð í miklu magni í fjörunni. Það er ekki hægt að fullyrða um ástæðu þessa fjöldadauða marglytta í Hvalfirði og reyndar víðar við landið árið 2013 en skýringin liggur þó að líkindum í lífsferli dýranna. Líkt og aðrar marglyttur fjölgar bláglyttan sér á fullorðinsstigi (hveljustigi) með kynæxlun. Kvendýrin losa egg á haustin að lokinni frjóvgun karldýranna og úr eggjunum koma lirfur sem leita að hentugu undirlagi á botni. Þegar lirfan hefur fest sig þroskast hún í svokallaðan holsepa sem getur fjölgað sér með skiptingu. Við kjöraðstæður getur hver holsepi þannig myndað margar fullorðnar marglyttur. Holseparnir sleppa frá sér sviflægum efýrum (ephyra) sem síðan þroskast upp í fullvaxta hveljur. Bláglytta og brennihvelja eru sviflægar hér við land frá maí til september/október og því líklega um náttúrulegan dauða fullorðinna marglytta að ræða. Þessi mikli fjöldi bendir jafnframt til að kjöraðstæður hafi verið fyrir marglyttur í sjónum við Ísland árið 2013 en undanfarin ár hefur magn og útbreiðsla marglytta aukist hér við land í kjölfar hlýnunar sjávar. Heimildir og myndir:
- Gröndahl F. 1988. Interactions between polyps of Aurelia aurita and planktonic larvae of scyphozoans: an experimental study. Marine Ecology Progress Series 45:87–93.
- Guðjón Már Sigurðsson.2009. Gelatinous zooplankton in Icelandic coastal waters with special reference to the scyphozoans Aurelia aurita and Cyanea capillata. Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Meistararitgerð.
- Ljósmynd: Dead jelly | Flickr - Photo Sharing! Höfundur myndar: Guðmundur Búi Þorfinnsson. Á síðunni má sjá fleiri myndir af viðfangsefninu. (Sótt 27. 1. 2014).
- Teikning: Gröndahl, 1988 (sjá nánar hér fyrir ofan).