Flest frumudrepandi krabbameinslyf hafa áhrif á hárvöxt, þó í mismiklum mæli, og nokkur hafa óveruleg áhrif á hárvöxt. Enn fremur skiptir máli hvernig lyfin eru gefin en hárskalli kemur helst fram þegar gefa þarf lyf í æð og þegar fjöllyfjameðferð eða háskammtalyfjameðferð er beitt. Frumudrepandi krabbameinslyf eru frekar ósértæk og hafa bæði áhrif á krabbameinsfrumur og heilbrigðar frumur. Sérstaklega á þetta við um þær frumur sem fjölga sér hratt eins og frumur í beinmerg, slímhúð, líkamshúð, nöglum og hársekkjum. Hárlos af völdum slíkra lyfja er ekki bara bundið við hár á höfði, heldur hefur meðferðin áhrif á allt líkamshár, eins og skeggrót og augabrýr. Hárlos af völdum krabbameinslyfja byrjar fljótlega eftir að meðferð hefst eða 2-4 vikum eftir fyrstu lyfjagjöf. Oft fellur hárið í flygsum á tiltölulega stuttum tíma. Venjulega taka utanaðkomandi ekki eftir hárlosi á höfði fólks fyrr en fólk hefur misst yfir helming hársins. Hárvöxtur byrjar aftur fljótlega eftir að meðferð lýkur. Hárið vex síðan um hálfan cm á mánuði og er það yfirleitt orðið ágætlega þétt eftir um 3-6 mánuði. Aukinn skilningur er á því af hverju hárlos verður af völdum lyfjameðferðar. Lyfin hindra frumuskiptingar og hárið sem vex í hársekkjum verður bæði þynnra og stökkt. Við minnsta áreiti, eins og hárþvott eða hárburstun, brotnar hárið einfaldlega þar sem það vex út úr hársekknum. Fram til þessa hefur ekki verið hægt að hindra þessa aukaverkun á fullnægjandi hátt. Einna helst hefur verið reynt að beita kælimeðferð á hársvörð samhliða lyfjameðferð, en árangur aðferðarinnar er umdeildur og meðferðin tímafrek og óþægileg. Í rannsóknum á dýrum hefur verið hægt að minnka hárlos í kjölfar krabbameinslyfjameðferðar með því að beita staðbundinni meðferð með hárstyrkjandi lyfjum eins og N-acetylcysteine (Minoxil), D-vítamíni og frumuvaxtarþáttum (interleukin 1B, EGF, FGF1). Ekki hefur enn verið sýnt fram á að slík meðferð hindri hármissi hjá mönnum. Á Vísindavefnum eru fjölmörg svör um krabbamein, til dæmis:
- Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum krabbamein? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Er allt krabbamein lífshættulegt? eftir Helgu Ögmundsdóttur
- Hvenær er talið að krabbamein hafi komið fram? eftir Jóhannes Björnsson
- Hver er tíðni og nýgengi hinna ýmsu krabbameinstegunda? eftir Laufeyju Tryggvadóttur
- Botchkarev, V.A. Molecular Mechanisms of Chemotherapy-Induced Hair Loss. Journal of Investigative Dermatology Symposium Proceedings 2003; 8:72-5.
- Mynd: Mark Kantrowitz