Forseti heitir sonr Baldrs ok Nönnu Nepsdóttur. Hann á þann sal á himni, er Glitnir heitir. En allir, er til hans koma með sakarvandræði, þá fara allir sáttir á braut. Sá er dómstaðr beztr með goðum ok mönnum.Uppruni nafnsins Forseti er að vísu óljós en samnafnið er venjulega skýrt ‘sá sem stýrir þingi eða ráðstefnu, situr í forsæti.’ Litlum sögum fer af þessu orði í íslensku máli fyrr en komið er fram á 18. öld að það er notað sem samnafn og er þá í fyrstu haft um þann sem stjórnar samkomu, mannfundi. Síðar er orðið svo notað um formann félags, til dæmis segir í samþykktum Lærdómslistafélagsins frá 1787 að sérhver félagi kunni að verða kosinn forseti. Um 1800 er orðið haft um formann dóms eða réttar, þings og stjórnarráðs sem þýðing á orðunum præses og præsident. Þá má geta þess að æðsti embættismaður, formaður eða forstöðumaður Hins íslenska bókmenntafélags (stofnað 1816) hefur verið nefndur forseti frá upphafi þess félags og þegar á fyrstu áratugum 19. aldar er farið að nota orðið forseti um æðsta embættismann ríkis eða þjóðhöfðingja. Æðsti maður Alþingis hefur verið nefndur forseti frá endurreisn þess 1843 (fyrst háð 1845). Þegar sambandið við Dani rofnaði í síðari heimsstyrjöldinni var skipaður hér ríkisstjóri sem æðsti maður ríkisins. Þegar lýðveldi var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944 kaus Alþingi þjóðhöfðingja og nefndist hann forseti og hefur svo verið síðan. Heimildir:
- Ásgeir Blöndal Magnússon. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989: Orðabók Háskólans.
- Baldur Jónsson. Forseti. Starfsheitið og upphaf þess. Yrkja. Afmælisrit til Vigdísar Finnbogadóttur 15. apríl 1990. Bls. 17–25.
- Edda Snorra Sturlusonar. Nafnaþulur og skáldatal. Guðni Jónsson bjó til prentunar. Akureyri 1954: Íslendingasagnaútgáfan.
- Gunnlaugur Ingólfsson. ‘Lítil samantekt um orðið forseti.’ Flutt við lýsingu Ríkisútvarpsins á embættistöku Vigdísar Finnbogadóttur 1. ágúst 1980.
- Mynd: Alþingi. Málverk eftir August Schiøtt (1823 - 1895). (Sótt 29. 11. 2013.)
Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.