Sumum íþróttamönnum, til dæmis í ameríska fótboltanum, er hættara við höfuðhöggi og mögulega heilahristingi en öðrum.
Helsta orsök heilahristings er höfuðhögg við bílaárekstur, fall eða líkamsárás. Helstu einkenni eru slæmur höfuðverkur, svimi, uppköst, stækkun annars sjáaldurs, óskýr sjón eða skyndilegt máttleysi í hand- eða fótlegg. Einstaklingurinn getur reynst eirðarlaus, æstur eða pirraður. Oft er skammtímaminnið skert og er einstaklingurinn þá gleyminn og endurtekur oft sömu spurningar, einkum varðandi atburðinn sem leiddi til heilahristingsins. Þessi einkenni geta varað í nokkra klukkutíma og stundum allt upp í nokkrar vikur. Það er góð regla að fylgjast með einstaklingi sem hefur fengið höfuðhögg í sólarhring eftir að atburðurinn á sér stað. Ef hann virðist mjög ruglaður, á erfitt með gang, kastar mikið upp eða missir meðvitund á að fara með hann á slysavarðstofuna og láta lækni líta á hann. Oft er sagt að ekki megi leyfa þeim sem hefur fengið heilahristing að sofna. Þetta á einkum við ef um barn er að ræða. Ekki er hætta á ferðum þótt einstaklingur sofni ef auðvelt er að vekja hann, en ef það reynist erfitt eða ógerlegt hefur hann misst meðvitund og nauðsynlegt að koma viðkomandi strax undir læknishendur. Sumt fólk er í meiri hættu en aðrir ef það fær heilahristing. Þar er einkum átt við fólk sem er á blóðþynningarlyfjum eða er með blæðingarsjúkdóma. Á Vísindavefnum eru fleiri svör sem fjalla um heilann, til dæmis:
- Hvað fer fram í vinstra heilahveli og hvað fer fram í því hægra? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur og Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hversu mikill hluti heilans er enn órannsakaður? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hvernig starfar mannsheilinn? eftir Valtý Stefánsson Thors