Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem tók gildi árið 1994 hefur það að markmiði:
Að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum, og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsþróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um að auðvelda félagslega og efnahagslega aðlögun að loftslagsbreytingum (Umhverfisráðuneytið).Í lok árs 1997 var samþykkt bókun við rammasamninginn sem kennd er við japönsku borgina Kyoto. Í bókuninni felst að ríki í viðauka I (það er iðnríkin, þar á meðal Ísland) skuldbinda sig til þess að halda útstreymi sex gróðurhúsalofttegunda á árunum 2008-2012 innan útstreymisheimilda sem eru 5,2% lægri en útstreymi þessara ríkja var á árinu 1990. Til þess að bókunin öðlaðist gildi þurftu að minnsta kosti 55 aðildarríki bókunarinnar hafa staðfest hana, en þessi ríki urðu jafnframt að bera ábyrgð á að minnsta kosti 55% af losun koltvíoxíðs í heiminum. Þegar bókunin var staðfest fyrir Íslands hönd þann 23. maí 2002 var 55 ríkja markinu náð. Þegar Rússland staðfesti bókunina í október 2004 var ljóst að 55% markinu var einnig náð og gekk bókunin í gildi þann 16. febrúar 2005. Önnur svör á Vísindavefnum:
- Hvað er Kyoto-bókunin? eftir Jón Má Halldórsson
- Hvor er meiri, heildarkostnaðurinn eða heildarávinningurinn af Kyoto-samkomulaginu? eftir Sigurð Steinþórsson
- Hve mikið er af koltvísýringi kringum jörðina? eftir Tómas Jóhannesson