Eigandinn Ljósavatnskirkja og proprietarii þar til, so sem haldið hefur verið í manna minni, en so gánga sögur af að ágreiníngur hafi verið um þetta býli millum Ljósavatns og Fremstafells, sem settist niður á þann hátt að þetta skyldi vera kirkjueign, og er nú haldin jörð út af fyrir sig. ... Landskuld lx (60) álnir, og so að fornu. Betalast með fiskatali í sauðum eður prjónlesi heim til umboðsmannsins á Ljósavatni. (Jarðabók XI, Þingeyjarsýsla, bls. 134-135.)Nafnið hefur verið talið dregið af mannsnafninu Hrifla sem kom fyrir í fornu máli en var ákaflega sjaldgæft. Dæmi eru um nafnið víðar í örnefnum. Á afrétti Flóa og Skeiða kemur fleirtölumynd af nafninu fyrir: „Vestan undir þessum hæðum [Fitjarásum] eru ljótar urðardyngjur, heita þær Hriflur.“ Í Mývatnssveit er til örnefnið Hriflumór, svo kallast gróið hraun milli Norðurhnjúka og Hæða í landi Reykjahlíðar. Merking orðsins hrifla er líklega ʻeitthvað ósléttʼ, samanber orð eins og hrufóttur og hrufla. Bærinn Hrifla stendur við jaðar mikils hrauns sem runnið hefur norður Bárðardal. Mikill hraunkambur endar rétt sunnan við Hriflu. Sennilega dregur bærinn nafn af ósléttu hrauninu rétt eins og hin Hriflu-nöfnin taka nafn af umhverfi sínu.

Jónas Jónsson (1885-1968) rithöfundur, skólastjóri, alþingismaður, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins var fæddur og uppalinn á Hriflu og jafnan kenndur við bæinn.
- Þórhallur Vilmundarson um Hriflu í Grímni 2 (1983), bls. 99.
- Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns
- Örnefnaskrá í Örefnasafni
- Mynd frá Hriflu: Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 30. 5. 2013).
- Mynd af Jónasi frá Hriflu: Althingi.is. (Sótt 30. 5. 2013).
Þetta svar hefur einnig birst sem pistill á vef Stofnunar Árna Magnússonar og er birt hér með góðfúslegu leyfi.