Miklir þurrkar þrúguðu Norður-Afríku, þannig að sjötti hluti íbúa Egyptalands dó eða fluttist búferlum.2 Svipaðir þurrkar urðu á Indlandi, og fylgdi mikið hallæri í kjölfarið, kennt við Chalisa.3 Jafnframt var mjög þurrt á undirlendinu meðfram Yangtze-ánni í Kína, og í heild var sumarið þar kalt. Þetta þurrviðri má rekja til þeirra breytinga sem Skaftáreldamóðan olli á loftstraumum norðurhvelsins með beinum áhrifum á sumarúrkomuna.4 Hrísgrjónauppskera í Japan brást vegna óvenjulegra sumarkulda og vætu.5 Þessi uppskerubrestur leiddi til mesta hallæris í sögu landsins þegar meira en ein milljón manns svalt til bana. Ástæðan fyrir þessari ótíð var afbrigðileg hegðun loftmassa sumarið 1783, en djúp og kyrrstæð lægð sat norðaustur af Japan allt sumarið. Í Norður-Ameríku virðist sumarið hafa verið í meðallagi, nema í Vestur- og Norður-Alaska. Þar var mjög kalt og mannfall mikið.6

Skaftáreldar höfðu víðtæk áhrif á veðurfar, og fyrirliggjandi gögn benda til þess að móðan hafi lækkað meðalárshitann á norðurhveli jarðar um eina gráðu í eitt til þrjú ár.
Tilvísanir: 1 Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.
2 Oman og fleiri, 2006. High-latitude eruptions cast shadow over the African monsoon and the flow of the Nile. Geophysical Research Letters, 33, L18711; doi: 10.1029/2006GL027665.
3 Orðið Chalisa táknar fertugur á hindúamáli. Samkvæmt tímatali Indverja var fjórði áratugur nítjándu aldar, það er 1840, rétt hafinn 1783.
4 Oman og fleiri, 2006. High-latitude eruptions cast shadow over the African monsoon and the flow of the Nile. Geophysical Research Letters, 33, L18711; doi: 10.1029/2006GL027665.
5 Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.
6 Jacoby og fleiri, 1999. Laki eruption of 1783, tree rings, and disaster for northwest Alaska Inuit. Quaternary Science Reviews, 18, 1365-1371.
7 Thordarson, T. og S. Self, 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783-1784 Laki eruption: a review and reassessment. Journal of Geophysical Research, 108(D1), 4011; doi: 10.1029/2001JD002042.
8 Oman og fleiri, 2006. Modeling the Distribution of the Volcanic Aerosol Cloud from the 1783-1784 Laki Eruption. Journal of Geophysical Research, 111(D12), 1-15; doi: 10.1029/2005JD006899.
Mynd:
- Mats: Íslandsmyndasafn © Mats Wibe Lund. (Sótt 3.6.2013).
Þetta svar er hluti af lengri umfjöllun um Skaftárelda í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar og birt með góðfúslegu leyfi.