Grunnefnin í sótbleki eru sótagnir, vatn og límkvoða. Sót í sótblek (e. carbon ink) fæst til dæmis með því að brenna olíur, einkum jurtaolíur, en einnig er hægt að nota fínmöluð viðarkol. Það bindiefni sem oftast er getið og hefur reynst best hvað snertir notkunareiginleika og límseiglu, er akasíulím (e. gum arabic) sem unnið er úr kvoðu akasíutrjáa. Einnig hafa menn notað límkvoðu af öðrum uppruna og eru til dæmi þess að menn hafi notast við þynnt gelatinlím. Sótblek binst við yfirborðsflöt en nær sjaldan dýpri bindingu. Sé sótið hreint og bindiefnið hæfilegt getur það enst svo öldum skipti og haldið litstyrk sínum. Helstu annmarkar bleks af þessu tagi eru að bindiefnið er uppleysanlegt í vatni og blekið er því viðkvæmt fyrir raka. Það getur runnið treglega ef magn bindiefnis er ekki hæfilegt og eftir þornun bleksins getur það verið viðkvæmt fyrir snertingu. Menn hafa því fljótlega farið að leita af efnum sem gæfu af sér blek sem væri með varanlegri yfirborðsfestu og gott rennsli úr skriffærinu. Sútunarsýra
Mönnum var kunnugt til forna að við samruna járnsalts og tanníns (sútunarsýru) gæti myndast sótsvart litarefni. Nátturufræðingurinn Pliníus hinn eldri (Gaius Plinius Secundus, 23-79 e.Kr.) lýsir þessum eiginleika efnasambandsins og tilraunum sínum með það og hvernig það dökknar frá því að vera nær tært á lit og yfir í að vera svart. Sútunarsýra (tannín) og járnsölt eru grunnefni sútunarsýrubleks ásamt vatni og límkvoðu. Notkun sútunarsýrubleks, sem einnig er oft kallað járngallblek (e. iron gall ink), var þegar hafin á 9. öld. Á 11. öld var að mestu farið að nota það í stað sótbleks. Sútunarsýra (tannín) finnst víða í náttúrunni. Ríkust af þessari sýru hafa reynst vera svokölluð gallepli eikartrjáa, en það er hýðishjúpur sem tréð myndar utan um eggjabú skordýra, svo sem geitunga. Sútunarsýra finnst í einhverju mæli í ýmsum trjátegundum og runnagróðari, berki, laufum, rótum og ávöxtum. Galleplasýran (e. gallic acid) er þó sú sýra sem að öllu jöfnu er besta hráefnið. Efnasamband hennar og járnsúlfats gefur af sér dökkt og endingargott blek með bláum tón. Eiginleikar barksýru og tanníns sem ekki er upprunnið úr galleplum eru taldir síðri til blekmyndunar. Blek úr járnsúlfati og barksýru hefur grænleitan tón og er ekki eins endingargott og dökkt. Járnsúlfat er það málmsalt sem best þykir gefast en úr öðrum málmsöltum, svo sem koparsúlfati og álsúlfati, myndst brúnleitara blek. Járnsúlfat er kristallað efni og uppleyst í vatni getur það dekkt og markað yfirborðstrefjar varanlega. Járnsúlfat hefur gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem ferrous sulfate, vitriol og copperas. Járngallblek er með mun betri bindieiginleika við bókfell en sótblek og það rennur betur.
Efnafræðileg samsetning bleksins sem notað er á skinnhandritunum er ekki þekkt, en sennilega hafa þeir notað sútunarsýrublek.
Engar frásagnir eru til frá upphafi ritaldar á Íslandi um blekgerð. Þekkingu á blekgerð hafa Íslendingar vafalaust haft frá Evrópu eins og ýmsa aðra hagnýta þekkingu. Þaðan hafa væntanlega einnig fengist efni og áhöld til blekgerðar. Heimildir frá 17. öld segja frá aðferð við blekgerð sem talin er byggð á eldri uppskriftum. Helstu efnin í uppskriftinni eru sortulyng sem soðið er með ólaufguðum víðileggjum og mýrarsorta. Þegar tannínrík efni, svo sem viður og börkur, eru látin liggja í járnríku vatni eða jarðvegi verða þau fjótlega brúnleit eða svört á litinn. Í uppskriftinni eru því helstu grunnforsendur sútunarsýrubleks. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á bleki íslenskra skinnhandrita hafa hins vegar ekki enn þá upplýst efnafræðilega samsetningu þess svo afgerandi sé. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Er einhver sérstök fræðigrein sem fæst við rannsóknir á handritum? eftir Má Jónsson