Hvert er meðaltal snjóflóða í Álftafirði, sérstaklega Súðavíkurhlíð? Er til kort af Íslandi með grafi sem sýnir á hvaða vegum snjóflóð og mögulega önnur algeng slys á umferðasamgöngum af náttúrunnar hendi gerast?Á árabilinu frá 1996 til 2013 voru skráð 452 snjóflóð á veginn um Súðavíkurhlíð, en það eru að meðaltali 26-27 snjóflóð á hverjum vetri. Á sama tíma eru skráð 24 snjóflóð sem féllu á veginn um Sjötúnahlíð og 16 önnur í Álftafirði sem ekki féllu á veg. Í gagnagrunn Veðurstofunnar eru skráð 69 snjóflóð í Álftafirði í Ísafjarðardjúpi frá upphafi skráninga þegar snjóflóð á veginn um Súðavíkurhlíð eru undanskilin. Taka ber fram að ekki eru öll snjóflóð sem falla skráð í gagnagrunn og því hafa mun fleiri flóð fallið í Álftafirði. Fyrir tíma sérstakra snjóathugunarmanna voru flóð ekki skráð nema þau vektu sérstaka athygli og helst þurftu þau að valda tjóni til að rata í heimildir. Enn í dag falla fjölmörg flóð án þess að þau séu skráð, einkum í óbyggðum. Í mörgum tilfellum sér enginn flóðin áður en ummerki um þau hverfa. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar hvetur fólk til þess að láta vita af snjóflóðum með því að fylla út sérstakt form á vefsíðu Veðurstofunnar: http://skraflod.vedur.is/skra/snjoflod/ eða með því að senda tölvupóst á snjoflod@vedur.is eða hringja í Veðurstofuna í síma 522 6000 og biðja um vakthafandi snjóflóðasérfræðing. Það er ekki ennþá til kort sem sýnir snjóflóðastaði á vegum, en verið er að vinna í því að útbúa slíkt kort. Mynd:
- Veðurstofa Íslands. Höfundur myndar: Þórður Sigurðsson. (Sótt 25. 02. 2014).