byggjast á að nema dreifingu ljóss. Þetta er útskýrt á myndinni hér að neðan. Myndin til vinstri sýnir meginatriðin í ljósskynjandi reykskynjara. Í honum er ljósgjafi og ljósskynjari (ljósnemi). Ljósgjafinn er oftast ljóstvistur (light emitting diode, LED) sem gefur frá sér ljós á innrauða sviðinu. Ljósinu frá ljósgjafanum er beint framhjá ljósnemanum. Þegar reykur kemur inn í hylki nemans dreifa reykagnirnar ljósinu í allar áttir og einhver hluti ljóssins lendir þá á ljósnemanum, eins og sjá má á myndinni til hægri. Ljósneminn er úr hálfleiðandi efni og þegar á hann fellur ljós lækkar viðnám hans. Þegar viðnámsbreytingin nær tilteknum þröskuldi kemur hún fram sem spennumerki. Spennumerkið drífur svo hljóðgafa, ljósmerki, eða annað sem lætur vita að hætta sé á ferðum. Í sumum ljósskynjandi reykskynjurum er hins vegar farið öfugt að og ljósgjafanum beint að nemanum. Þegar reykur berst á milli ljósgjafa og nema dregur þá úr ljósi sem nær að nemanum og viðnám hans hækkar.
Ljósháður reykskynjari.
Jónaskynjarar
Í jónaskynjandi reykskynjara eru jónandi geislun og jónunarhylki notuð til að nema reyk. Þessi aðferð byggist á því að jónað andrúmsloft leiðir rafstraum. Stöðugur rafstaumur er framkallaður með því að láta geislalind jóna andrúmsloft innan afmarkaðs hylkis, jónahylkis. Reykur sem berst inn í þetta hylki truflar strauminn og straumbreytingin sem við það verður er numin og breytt í aðvörunarmerki. Tvö skaut með um 1 cm millibili afmarka jónahylkið. Það er að öðru leyti opið út í andrúmsloftið. Jónaskynjarinn notar lítið (~0,2 mg) magn af geislavirku samsætunni ameríkín-241 (Am – 241). Hún sendir frá sér alfa-agnir og hefur helmingunartímann 432 ár. Alfa-agnirnar, sem geislað er út frá ameríkín-samsætunni, jóna nitur- og súrefnissameindir andrúmsloftsins í jónahylkinu. Jónun merkir að rafeind losnar frá frumeind eða sameind og myndað er par rafeindar og jónar.
Jónaklefi.
- Hvað eru jónir og hvað gera þær? eftir Sigríði Jónsdóttur
- Hvað er geislun og hvað eru til margar gerðir af henni? eftir Kristján Leósson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvernig skýra menn tvíeðli ljóss (bylgjur og agnir)? eftir Kristján Leósson
- Hvernig getur maður ákvarðað hvort ljós frá einhverjum hlut sé skautað? eftir Ara Ólafsson
- Eru enn til ófundin frumefni og gæti eitthvert þeirra verið stöðugt? eftir Pál Theodórsson
- G. J. Granieri. 1977. Bipolar-MOS and Bipolar IC's Building Blocks for Smoke-Detector Circuits, IEEE Transactions on Consumer Electronics, CE-23(4); 522-527.