Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þórbergur Þórðarson skráði ævisögu Árna Þórarinssonar prófasts og kom hún út í sex bindum. Í þriðja bindi, sem kom út 1947, segir Árni frá karli einum sem Þórður hét:
Þórður hét maður og bjó á bæ nokkrum í prestakalla mínu. Einn dag á slætti kom hann út á engjar til fólks síns og fékk þá engu orði upp komið fyrir hlátri: „He-he-he-he; he-he-he-he! Nú er það skemmtilegt hjá þeim Norðlingunum. Ég var að lesa Ísafold. Ekki þornað af strái í allt sumar þar fyrir norðan. Öll hey grotnuð niður. Enginn baggi kominn í hlöðu og nú kominn höfuðdagur.“ Svo hnippir hann í mann, sem hann stóð hjá, og segir ískrandi:
„Skratti væri nú gaman að sjá, hvernig þeir taka sig út núna, greyin. He-he-he-he!“
Þetta hugarfar, sem gleðst yfir óförum manna, kalla Danir Skadefrohed og Skadefryd. Við eigum ekkert orð í íslenzku, sem nær gleðinni í þessari illgirni. En síðan ég heyrði söguna af Þórði bónda í prestakalli mínu, hef ég nefnt þennan hugsunarhátt þórðargleði og þann mann þórðarglaðan, sem kætist yfir því, er öðrum gengur illa.
Það er sem sagt séra Árni Þórarinsson sem bjó til orðið þórðargleði. Sambærileg saga virðist ekki kunn um þórðarverk. Elsta dæmi í söfnum Orðabókar Háskólans er úr þýðingu Halldórs Laxness á Fjallkirkju Gunnars Gunnarssonar sem kom út á árunum 1941-1943. Þar segir (í útgáfu frá 1951:123):
Nei, svei því, það mundi Guð aldrei láta viðgangast ... En það eru Þórðarverk á þessari veröld hans, ég sný ekki aftur með það.
Orðið þórðarverk er notað um óvönduð vinnubrögð eins og Guð er ásakaður um í dæminu hér fyrir ofan.
Heimildir:
Gunnar Gunnarsson. 1951. Fjallkirkjan. Halldór Kiljan Laxness íslenzkaði. Bls. 123. Helgafell, Reykjavík.
Þórbergur Þórðarson. 1947. Hjá vondu fólki. Æfisaga Árna prófasts Þórarinssonar III. Bls. 64. Helgafell, Reykjavík.
Fleiri spyjendur:
Andri Már Jörundsson: Hvað þýðir Þórðargleði og hver er uppruni þess og saga?
Guðlaugur Kr. Jörundsson: Við hvaða Þórð er Þórðargleði kennd við? Er rétt að það sé Þórður Jónsson (1791), bóndi á Rauðkollsstöðum?
Björg Elín Finnsdóttir: Hver er Þórður sem Þórðargleði er kennd við?
Guðrún Kvaran. „Hvaðan koma nafnorðin þórðargleði og þórðarverk?“ Vísindavefurinn, 17. maí 2013, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64705.
Guðrún Kvaran. (2013, 17. maí). Hvaðan koma nafnorðin þórðargleði og þórðarverk? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64705
Guðrún Kvaran. „Hvaðan koma nafnorðin þórðargleði og þórðarverk?“ Vísindavefurinn. 17. maí. 2013. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64705>.