Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Frá Atla graut, eða Graut-Atla eins og hann er oftast kallaður, er sagt í Landnámabók. Þar kemur fram að bræðurnir Ketill og Graut-Atli, synir Þóris þiðranda, hafi farið úr Veradal í Noregi til Íslands og numið land í Fljótsdal. „Graut-Atli nam ina eystri strönd Lagarfljóts allt á milli Giljár og Vallaness fyrir vestan Öxnalæk.“
Í Landnámu eru þeir bræður taldir meðal stærstu eða göfugustu landnámsmanna í Austfirðingafjórðungi. Giskað hefur verið á að með upptalningu göfugustu landnámsmanna sé átt við að þeir hafi verið forfeður goðorðsmannaætta Íslendinga. Þó er ekki hægt að rekja ættir goðorðsmanna í karllegg til Atla heldur til Ketils bróður hans. Karlleggur skiptir hér meira máli en kvenleggur vegna þess að karlar einir gátu orðið goðar.
Þá er Atli grautur nefndur í upphafi Droplaugarsona sögu, og segir þar að bræðurnir hafi fyrst átt bú saman á Húsastöðum í Skriðdal. Síðan hafi þeir selt það og keypt land í Fljótsdal, Atli „fyrir austan fljótið upp frá Hallormsstöðum, er nú heitir í Atlavík, og bjó þar til elli. En nú eru þar sauðhúsatóftir.“ Í Þorsteins sögu hvíta kemur líka fram að Atli hafi búið í Atlavík og þar sögð vera sauðhús.
Til er afar rækileg könnun hjónanna Haraldar Matthíassonar og Kristínar Ólafsdóttur á því hvernig frásagnir af landnámsmönnum koma heim við staðhætti. Haraldur segir að frásögnin af landnámi Atla sé nákvæm og örnefnin Gilsá, Vallanes og Uxalækur* enn alþekkt. Í Atlavík segir Haraldur vera allmiklar rústir.
Miðnætursól í Atlavík. Fræðimenn greinir á um hvort víkin heiti eftir Graut-Atla eða hvort nafn hans sé dregið af örnefninu.
Meðal fræðimanna er mikill ágreiningur um hvort þessar frásagnir sanni að menn eins og Atli hafi verið til í raun og veru. Þórhallur Vilmundarson prófessor emeritus hefur sett fram svokallaða náttúrunafnakenningu, að nöfn landnámsmanna séu iðulega búin til eftir örnefnum, gagnstætt því sem haldið er fram í Landnámu. Samkvæmt því ætti nafn Atla að vera dregið af örnefninu Atlavík, hvernig sem það kann að vera til komið. Á hinn bóginn er engan veginn útilokað að sagnir af landnámsmanninum Atla hafi varðveist uns þær voru skrifaðar niður í upphaflegri gerð Landnámu, um tveimur öldum eftir daga hans.
Í fornsögum eru raktar ættir frá Atla til mikils háttar manna. Sonur Atla hét Þórir, dóttir Þóris Ásvör, móðir Brodd-Helga á Hofi í Vopnafirði. Sonur Helga var Bjarni, faðir Yngvildar sem var móðir Guðríðar, móður Jóreiðar, móður Ara fróða. Miklar líkur eru á að Ari hafi komið að því verki að safna um landnámsmenn sögnum sem urðu síðar að þeirri Landnámabók sem við eigum varðveitta. Að minnsta kosti var örugglega byrjað á því verki á ævidögum Ara. Við getum því sagt að höfundar Frum-Landnámu hafi verið í áttunda ættlið frá Graut-Atla.
Engar sögur fara af því hvers vegna Atli var kenndur við graut. En víða kemur fram í sögum að ekki þurfti alltaf mikið tilefni til að menn fengju viðurnefni. Lesendur geta sjálfir spreytt sig á að geta sér til um ástæðu þess að Atli fékk viðurnefni sitt.
* Í einu handriti Landnámabókar stendur Öxnalækur en í öðru Uxalækur.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvar er hægt að finna sögu landnámsmannsins Atla grauts?“ Vísindavefurinn, 15. janúar 2007, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6464.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2007, 15. janúar). Hvar er hægt að finna sögu landnámsmannsins Atla grauts? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6464
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvar er hægt að finna sögu landnámsmannsins Atla grauts?“ Vísindavefurinn. 15. jan. 2007. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6464>.