Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvenær varð íslenskt rapp til og hver er saga þess?

Arnar Eggert Thoroddsen

Rapptónlist barst afar seint til Íslands, ólíkt til að mynda íslensku dauðarokki, sem skaut rótum nánast samhliða viðlíka hræringum erlendis. Það er velþekkt staðreynd að pönkið kom seint til Íslands; hér sprakk það út 1981 en hafði þá verið í fullum gangi í Bretlandi og Bandaríkjunum fjórum árum fyrr. Íslenska rappið slær þann seinagang auðveldlega út. Allan níunda áratuginn hafði rappið verið að þróast og ná fótfestu erlendis en hér á landi sinnti því enginn. Það var ekki fyrr en langt var komið fram á tíunda áratuginn að Íslendingar fóru að taka við sér og fyrstu sveitirnar sem eitthvað kvað að voru giska ólíkar. Árið 1996 gaf hljómsveitin Quarashi út plötuna Switchstance en á henni var kröftugt rapprokk sem minnti á köflum á Beastie Boys. Ári síðar gaf hljómsveitin Subterranean, sem bar með sér fjölþjóðlegan blæ, út plötuna Central Magnetizm. Platan dró dám af amerísku hipphoppi þess tíma, og það sem upp á vantaði í frumleika var bætt með ungæðislegri ástríðu og sjarma. Þessar tvær sveitir voru eylönd á þessum tíma, og ekki hyllti sérstaklega undir það sem átti eftir að koma fram bara nokkrum árum síðar.

Árið 2000 sigraði rapphljómsveitin 110 Rottweilerhundar Músíktilraunir. Talan 110 vísaði í póstnúmer Árbæjarhverfisins sem gat sveitina af sér, en síðar meir skipti hún 110 út fyrir XXX. Sigur sveitarinnar, og fyrsta plata hennar sem út kom ári síðar, olli ekkert minna en byltingu í íslenskum rappheimi og senan sem úr varð er nefnd fyrsta bylgja hins íslenska rapps. Það sem var hvað mikilvægast við tilkomu Rottweilerhundanna er að þeir röppuðu á íslensku, eitthvað sem hafði ekki tíðkast áður. Þvert á móti voru margir á því að ekki væri hægt að rappa á íslensku, það væri hallærislegt og gengi ekki upp takt- og tónlistarlega. Þetta viðhorf breyttist svo gott sem á einni nóttu og í fyrstu bylgjunni áttu þær sveitir sem röppuðu ekki á íslensku örðugt með að láta taka sig alvarlega.

Frumburður XXX Rottweilerhunda frá 2001 braut blað í íslenskri rappsögu og hratt af stað fyrstu bylgju hins íslenska rapps.

XXX Rottweilerhundar voru ögrandi og kraftmiklir, íslensk ungmenni sem tjáðu það sem þeim bjó í brjósti á íslensku. Sprenging varð í virkni íslenskra rappara í kjölfarið og fyrsta bylgjan entist fram til um 2003 og með henni kom fram listafólk eins og Afkvæmi guðanna, Forgotten Lores, Sesar A, Skytturnar (frá Akureyri), Bæjarins bestu, Bent & 7Berg og Móri, svo fátt eitt sé talið. Mikið var um gengi og hópa á þessum árum, ekkert um kvenfólk (svona nánast) og tónlistarlegar afurðir jafn mismunandi og þær voru margar. Meðfram þessu öllu unnu Quarashi svo mikla sigra á erlendri grundu, og fyrsta plata þeirra, gefin út af erlendu útgáfufyrirtæki (Jinx, árið 2002, undir hatti Columbia), átti eftir að seljast í 500.000 eintökum á heimsvísu.

Rapprokksveitin Quarashi hóf störf töluvert á undan hinni eiginlegu íslensku rappbylgju og átti vel heppnað strandhögg á erlendri grundu, túraði um víða veröld og seldi plötur í bílförmum.

Upp úr 2003 tók að fjara allsnögglega undan fyrstu bylgjunni. Seinni bylgjan hófst svo 2015 með fyrstu plötu Gísla Pálma. Reyndar hefur komið fram kenning um bylgju sem hægt væri að staðsetja á milli þessara tveggja („Bylgja 1.5“) og hafa poppaðar rappsveitir eins og Igore verið tilkallaðar, plata Dabba T, Óheflað málfar (2008) og fyrsta plata Poetrix, Fyrir lengra komna, sem kom út sama ár. Öll þessi dæmi eru þó sértæk, það var engin bylgja í gangi sem slík og rappið var kirfilega neðanjarðar. Það var táknrænt í raun að vírað og raftónlistarskotið hipphopp flæddi frá Pan Thorarensen og félögum hans (Regnskóg, Audio Improvement, Beatmakin Troopa og fleiri) á þessum tíma.

Eins og áður segir, hófst seinni bylgjan, sem rís einmitt hátt þegar þetta svar er skrifað, með fyrstu plötu Gísla Pálma. Sjarmi þessa óknyttastráks, fjölmiðlanánd og almenn tilþrif hrundu af stað stórri bylgju, rétt eins og gerst hafði um það bil fimmtán árum fyrr, en forsendur hennar eru þó allt aðrar en fyrri bylgjunnar. Fjölbreytnin er meiri og senan mun sýnilegri á almennum markaði, sem helst í hendur við þróun erlendis, þar sem hipphopp er vinsælasta dægurtónlistarformið í dag og búið að leysa rokkbykkjuna af. Gísli Pálmi fór mikinn fyrsta kastið en einnig komu fram Emmsjé Gauti (Gauti „okkar allra“, nokkurs konar Páll Óskar senunnar, tónlistarmaður sem allir elska), dúettinn Úlfur Úlfur (eiginlegt gáfumannarapp, byggt á eldri sveit, Bróðir Svartúlfs, sem sigraði Músíktilraunir árið 2009), Reykjavíkurdætur (pólitískt feministarapp flutt af fjölmennum kvennahópi) og Sturla Atlas (melódískt, poppað og „r og b“ skotið rapp, flutt á ensku).

Emmsjé Gauti, Gauti Þeyr Másson, er einn af burðarstólpum seinni bylgju hins íslenska rapps og rétt krækti meira að segja í fyrri bylgjuna, þá á táningsaldri.

Hinn kornungi Aron Can kynnti þá alíslenskt tilfinningarapp til sögunnar, undir áhrifum frá hinum kanadíska Drake en einnig trapp-listamönnum eins og Future og Young Thug, strípað og skuggum bundið hipphopp. Fleiri nöfn sem vert er að kasta í púkkið eru Hr. Hnetusmjör, Logi Pedro, Joey Christ, Lord Pusswhip og GKR, og svo mætti lengi telja. Eins og sjá má einkennist seinni bylgjan af fjölbreytni. Kvenfólk hefur til að mynda tekið sér pláss, en það var nánast ósýnilegt í fyrstu umferðinni. Strákarnir eru enn plássfrekastir en Reykjavíkurdætur, CYBER is CRAP, Countess Malaise, Fever Dream og Alvia Islandia hafa gefið út framsækið og stundum vel sýrt efni; í senn kynjapólitískt og furðulegt. Nýstárlegheitin sem þar þrífast skiluðu Alviu Islandiu meira að segja verðskuldaðri tilnefningu til Norrænu tónlistarverðlaunanna (Nordic Music Prize).

Seinni bylgjan hefur borið með sér sterkt kvennarapp og er Alvia Islandia gott dæmi þar um. Framsækið og sýrt rapp hennar var tilnefnt til Norrænu tónlistarverðlaunanna á þessu ári.

Meira er um sólólistamenn í seinni bylgjunni og þessi kynslóð listamanna hagnýtir sér tæknina. Myndböndum og heilu plötunum er dælt út milliliðalaust og hún markast meðal annars af því að samtímamiðlar eru nýttir upp í topp. Þjónvarpskynslóðin („youtube“) dælir inn myndböndum, nýtir sér tíst, Fésbók og tónveitur eins og Bandcamp og Soundcloud. Föst form eru ekki endilega málið lengur og lög og plötur eru oft eingöngu til í streymisformi. Þetta er ný hugsun sem eldri tónlistarunnendur eru enn að ná hausnum utan um en þróunin er um leið óhjákvæmileg.

Ekki sér fyrir endann á seinni bylgjunni, þó hún hafi nú verið í gangi í þrjú ár. Líftími sena er venjulega ekki mikið lengri – heilt yfir – en hugsanlega hefur þessi stöðugleiki með það að gera, að rappið er nýja almenna popptónlistin. Nýjustu ofurstjörnur íslenska rappsins, Jói P & Króli, færðu að einhverju leyti heim sanninn fyrir þessu, en lag þeirra „B.O.B.A.“ sló rækilega í gegn haustið 2017, og færði þeim íslenska „heimsfrægð“ í kjölfarið. Hafa þeir félagar verið eftirsóttir til tónleika- og skemmtanahalds síðan og virðist engu skipta hvaða kynslóðir eru samankomnar. Nýir listamenn hafa einnig verið að gera sig gildandi að undanförnu; til að mynda Flóni, Birnir og Huginn, sem hófu sinn feril sem gestir á plötum vinsælla rappara. Kliðmjúkt „r og b“, sem er frænka hipphoppsins, hefur þá verið að ryðja sér til rúms undanfarin misseri, taktinn slógu Auður og Sturla Atlas en fremstir á meðal jafningja í dag eru þær GDRN og Bríet. Eðlilega er ómögulegt að slá neinu föstu með hugsanlega þróun íslenska rappsins, en svona var staðan, haustið 2018.

Heimildir og ítarefni
  • Hjálmarsson, Gunnar Lárus. Stuð vors lands: Saga dægurtónlistar á Íslandi. Reykjavík: Sögur, 2012.
  • Mitchell, Tony. "Icelandic hip hop: From ‘Selling American Fish to Icelanders’ to Reykjavíkurdætur (Reykjavík Daughters)". Journal of World Popular Music. 2 (2): 240-261., 2015.
  • Á vef höfundar, www.arnareggert.is, má finna fjölmarga ítardóma um íslenskar rappplötur sem tilheyra seinni bylgjunni og einnig á vef RÚV: Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts - RÚV.
  • Á www.skemman.is má finna bæði B.A.- og M.A.-ritgerðir sem hafa verið skrifaðar um íslenskt rapp og fer þeim fjölgandi.

Myndir:

Upprunalega spurningin var: Hvað getið þið sagt mér um sögu rapptónlistar á Íslandi?

Höfundur

Arnar Eggert Thoroddsen

aðjúnkt á Félagsvísindasviði HÍ

Útgáfudagur

28.9.2018

Síðast uppfært

2.10.2018

Spyrjandi

Björn Leví Óskarsson

Tilvísun

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hvenær varð íslenskt rapp til og hver er saga þess?“ Vísindavefurinn, 28. september 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=64626.

Arnar Eggert Thoroddsen. (2018, 28. september). Hvenær varð íslenskt rapp til og hver er saga þess? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=64626

Arnar Eggert Thoroddsen. „Hvenær varð íslenskt rapp til og hver er saga þess?“ Vísindavefurinn. 28. sep. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=64626>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvenær varð íslenskt rapp til og hver er saga þess?

Rapptónlist barst afar seint til Íslands, ólíkt til að mynda íslensku dauðarokki, sem skaut rótum nánast samhliða viðlíka hræringum erlendis. Það er velþekkt staðreynd að pönkið kom seint til Íslands; hér sprakk það út 1981 en hafði þá verið í fullum gangi í Bretlandi og Bandaríkjunum fjórum árum fyrr. Íslenska rappið slær þann seinagang auðveldlega út. Allan níunda áratuginn hafði rappið verið að þróast og ná fótfestu erlendis en hér á landi sinnti því enginn. Það var ekki fyrr en langt var komið fram á tíunda áratuginn að Íslendingar fóru að taka við sér og fyrstu sveitirnar sem eitthvað kvað að voru giska ólíkar. Árið 1996 gaf hljómsveitin Quarashi út plötuna Switchstance en á henni var kröftugt rapprokk sem minnti á köflum á Beastie Boys. Ári síðar gaf hljómsveitin Subterranean, sem bar með sér fjölþjóðlegan blæ, út plötuna Central Magnetizm. Platan dró dám af amerísku hipphoppi þess tíma, og það sem upp á vantaði í frumleika var bætt með ungæðislegri ástríðu og sjarma. Þessar tvær sveitir voru eylönd á þessum tíma, og ekki hyllti sérstaklega undir það sem átti eftir að koma fram bara nokkrum árum síðar.

Árið 2000 sigraði rapphljómsveitin 110 Rottweilerhundar Músíktilraunir. Talan 110 vísaði í póstnúmer Árbæjarhverfisins sem gat sveitina af sér, en síðar meir skipti hún 110 út fyrir XXX. Sigur sveitarinnar, og fyrsta plata hennar sem út kom ári síðar, olli ekkert minna en byltingu í íslenskum rappheimi og senan sem úr varð er nefnd fyrsta bylgja hins íslenska rapps. Það sem var hvað mikilvægast við tilkomu Rottweilerhundanna er að þeir röppuðu á íslensku, eitthvað sem hafði ekki tíðkast áður. Þvert á móti voru margir á því að ekki væri hægt að rappa á íslensku, það væri hallærislegt og gengi ekki upp takt- og tónlistarlega. Þetta viðhorf breyttist svo gott sem á einni nóttu og í fyrstu bylgjunni áttu þær sveitir sem röppuðu ekki á íslensku örðugt með að láta taka sig alvarlega.

Frumburður XXX Rottweilerhunda frá 2001 braut blað í íslenskri rappsögu og hratt af stað fyrstu bylgju hins íslenska rapps.

XXX Rottweilerhundar voru ögrandi og kraftmiklir, íslensk ungmenni sem tjáðu það sem þeim bjó í brjósti á íslensku. Sprenging varð í virkni íslenskra rappara í kjölfarið og fyrsta bylgjan entist fram til um 2003 og með henni kom fram listafólk eins og Afkvæmi guðanna, Forgotten Lores, Sesar A, Skytturnar (frá Akureyri), Bæjarins bestu, Bent & 7Berg og Móri, svo fátt eitt sé talið. Mikið var um gengi og hópa á þessum árum, ekkert um kvenfólk (svona nánast) og tónlistarlegar afurðir jafn mismunandi og þær voru margar. Meðfram þessu öllu unnu Quarashi svo mikla sigra á erlendri grundu, og fyrsta plata þeirra, gefin út af erlendu útgáfufyrirtæki (Jinx, árið 2002, undir hatti Columbia), átti eftir að seljast í 500.000 eintökum á heimsvísu.

Rapprokksveitin Quarashi hóf störf töluvert á undan hinni eiginlegu íslensku rappbylgju og átti vel heppnað strandhögg á erlendri grundu, túraði um víða veröld og seldi plötur í bílförmum.

Upp úr 2003 tók að fjara allsnögglega undan fyrstu bylgjunni. Seinni bylgjan hófst svo 2015 með fyrstu plötu Gísla Pálma. Reyndar hefur komið fram kenning um bylgju sem hægt væri að staðsetja á milli þessara tveggja („Bylgja 1.5“) og hafa poppaðar rappsveitir eins og Igore verið tilkallaðar, plata Dabba T, Óheflað málfar (2008) og fyrsta plata Poetrix, Fyrir lengra komna, sem kom út sama ár. Öll þessi dæmi eru þó sértæk, það var engin bylgja í gangi sem slík og rappið var kirfilega neðanjarðar. Það var táknrænt í raun að vírað og raftónlistarskotið hipphopp flæddi frá Pan Thorarensen og félögum hans (Regnskóg, Audio Improvement, Beatmakin Troopa og fleiri) á þessum tíma.

Eins og áður segir, hófst seinni bylgjan, sem rís einmitt hátt þegar þetta svar er skrifað, með fyrstu plötu Gísla Pálma. Sjarmi þessa óknyttastráks, fjölmiðlanánd og almenn tilþrif hrundu af stað stórri bylgju, rétt eins og gerst hafði um það bil fimmtán árum fyrr, en forsendur hennar eru þó allt aðrar en fyrri bylgjunnar. Fjölbreytnin er meiri og senan mun sýnilegri á almennum markaði, sem helst í hendur við þróun erlendis, þar sem hipphopp er vinsælasta dægurtónlistarformið í dag og búið að leysa rokkbykkjuna af. Gísli Pálmi fór mikinn fyrsta kastið en einnig komu fram Emmsjé Gauti (Gauti „okkar allra“, nokkurs konar Páll Óskar senunnar, tónlistarmaður sem allir elska), dúettinn Úlfur Úlfur (eiginlegt gáfumannarapp, byggt á eldri sveit, Bróðir Svartúlfs, sem sigraði Músíktilraunir árið 2009), Reykjavíkurdætur (pólitískt feministarapp flutt af fjölmennum kvennahópi) og Sturla Atlas (melódískt, poppað og „r og b“ skotið rapp, flutt á ensku).

Emmsjé Gauti, Gauti Þeyr Másson, er einn af burðarstólpum seinni bylgju hins íslenska rapps og rétt krækti meira að segja í fyrri bylgjuna, þá á táningsaldri.

Hinn kornungi Aron Can kynnti þá alíslenskt tilfinningarapp til sögunnar, undir áhrifum frá hinum kanadíska Drake en einnig trapp-listamönnum eins og Future og Young Thug, strípað og skuggum bundið hipphopp. Fleiri nöfn sem vert er að kasta í púkkið eru Hr. Hnetusmjör, Logi Pedro, Joey Christ, Lord Pusswhip og GKR, og svo mætti lengi telja. Eins og sjá má einkennist seinni bylgjan af fjölbreytni. Kvenfólk hefur til að mynda tekið sér pláss, en það var nánast ósýnilegt í fyrstu umferðinni. Strákarnir eru enn plássfrekastir en Reykjavíkurdætur, CYBER is CRAP, Countess Malaise, Fever Dream og Alvia Islandia hafa gefið út framsækið og stundum vel sýrt efni; í senn kynjapólitískt og furðulegt. Nýstárlegheitin sem þar þrífast skiluðu Alviu Islandiu meira að segja verðskuldaðri tilnefningu til Norrænu tónlistarverðlaunanna (Nordic Music Prize).

Seinni bylgjan hefur borið með sér sterkt kvennarapp og er Alvia Islandia gott dæmi þar um. Framsækið og sýrt rapp hennar var tilnefnt til Norrænu tónlistarverðlaunanna á þessu ári.

Meira er um sólólistamenn í seinni bylgjunni og þessi kynslóð listamanna hagnýtir sér tæknina. Myndböndum og heilu plötunum er dælt út milliliðalaust og hún markast meðal annars af því að samtímamiðlar eru nýttir upp í topp. Þjónvarpskynslóðin („youtube“) dælir inn myndböndum, nýtir sér tíst, Fésbók og tónveitur eins og Bandcamp og Soundcloud. Föst form eru ekki endilega málið lengur og lög og plötur eru oft eingöngu til í streymisformi. Þetta er ný hugsun sem eldri tónlistarunnendur eru enn að ná hausnum utan um en þróunin er um leið óhjákvæmileg.

Ekki sér fyrir endann á seinni bylgjunni, þó hún hafi nú verið í gangi í þrjú ár. Líftími sena er venjulega ekki mikið lengri – heilt yfir – en hugsanlega hefur þessi stöðugleiki með það að gera, að rappið er nýja almenna popptónlistin. Nýjustu ofurstjörnur íslenska rappsins, Jói P & Króli, færðu að einhverju leyti heim sanninn fyrir þessu, en lag þeirra „B.O.B.A.“ sló rækilega í gegn haustið 2017, og færði þeim íslenska „heimsfrægð“ í kjölfarið. Hafa þeir félagar verið eftirsóttir til tónleika- og skemmtanahalds síðan og virðist engu skipta hvaða kynslóðir eru samankomnar. Nýir listamenn hafa einnig verið að gera sig gildandi að undanförnu; til að mynda Flóni, Birnir og Huginn, sem hófu sinn feril sem gestir á plötum vinsælla rappara. Kliðmjúkt „r og b“, sem er frænka hipphoppsins, hefur þá verið að ryðja sér til rúms undanfarin misseri, taktinn slógu Auður og Sturla Atlas en fremstir á meðal jafningja í dag eru þær GDRN og Bríet. Eðlilega er ómögulegt að slá neinu föstu með hugsanlega þróun íslenska rappsins, en svona var staðan, haustið 2018.

Heimildir og ítarefni
  • Hjálmarsson, Gunnar Lárus. Stuð vors lands: Saga dægurtónlistar á Íslandi. Reykjavík: Sögur, 2012.
  • Mitchell, Tony. "Icelandic hip hop: From ‘Selling American Fish to Icelanders’ to Reykjavíkurdætur (Reykjavík Daughters)". Journal of World Popular Music. 2 (2): 240-261., 2015.
  • Á vef höfundar, www.arnareggert.is, má finna fjölmarga ítardóma um íslenskar rappplötur sem tilheyra seinni bylgjunni og einnig á vef RÚV: Tónlistargagnrýni Arnars Eggerts - RÚV.
  • Á www.skemman.is má finna bæði B.A.- og M.A.-ritgerðir sem hafa verið skrifaðar um íslenskt rapp og fer þeim fjölgandi.

Myndir:

Upprunalega spurningin var: Hvað getið þið sagt mér um sögu rapptónlistar á Íslandi?

...