Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Parduskötturinn (Leopardus pardalis), eða ocelot eins og hann kallast á alþjóðavísu, er ein tegund svokallaðra nýjaheimskatta. Heimkynni parduskattarins er í þéttu skóglendi Suður-Ameríku og allt norður til suðurríkja Bandaríkjanna (Texas og Louisiana). Búsvæði þeirra eru allt frá rökum og þéttum regnskógum til kjarrlendis. Þéttleiki parduskatta virðist vera mestur í fenjaskógum við árósa og við strendur.
Hér sést útbreiðsla parduskattarins
Lifnaðarhættir
Parduskötturinn er ekki sérlega sérhæft rándýr heldur hefur hann komið sér upp margvíslegum veiðiaðferðum, bæði á jörðu niðri og í trjám. Hann er auk þess afar vel syndur og því algerlega laus við vatnshræðslu, ólíkt flestum frændum sínum.
Fæðan er fjölbreytt, allt frá litlum og meðalstórum spendýrum til fugla, skriðdýra og fiska. Nóttin er veiðitími parduskattarins, en á daginn heldur hann sig í skugga trjáa og hvílir sig fyrir átök næturinnar.
Staða parduskattarins Mikil eftirspurn var eftir feldi parduskattarins á 19. öld og eitthvað fram á 20. öld. Þar að auki voru parduskettir taldir vera blóðþyrstir dráparar og bændur kappkostuðu við að eyða honum í suðurríkjum Bandaríkjanna, með þeim afleiðingum að parduskötturinn hvarf þar af stórum svæðum.
Skinnamarkaðurinn blómstraði einnig og hefur tilvist parduskattarins verið verulega ógnað af gegndarlausri rányrkju undanfarna áratugi. Sennilega hefur meira en hálf milljón katta verið drepin í Rómönsku Ameríku vegna eftirspurnar skinnakaupmanna. Parduskötturinn er nú friðaður og er verslun með afurðir hans bönnuð í Bandaríkjunum og víðar.
Stofnstærð parduskattarins er ekki þekkt enda hafa engar heildstæðar stofnstærðarathuganir verið gerðar. Þetta stafar einkum af því að parduskötturinn lifir á mjög dreifðu svæði og víða á lítt þekktum og ógreiðfærum stöðum. Pardusinn er þó ekki talinn í mikilli útrýmingarhættu. Svo virðist sem honum farnist ágætlega í nálægð við mannabyggðir meðan ekki er of mikill veiðiþrýstingur.
Kettlingur parduskattarins
Aðrar smákattategundir Nýja heims
Nánasti ættingi parduskattarins er viðarkötturinn (Leopardus wiedi). Hann er talsvert minni og mjóslegnari en parduskötturinn, en hefur svipaða útbreiðslu. Hann lifir þó á eilítið frábrugðnum búsvæðum, en hann virðist forðast kjarrlendi og heldur að mestu til í þéttum og dimmum regnskógum. Nafn sitt dregur hann af því að hann er afar fimur klifurköttur, og klifrar meðal annars niður trjástofna með hausinn á undan sér, sem er sérstakt meðal kattadýra.
Aðrar kattategundir skyldar parduskettinum eru meðal annars tígurkötturinn (Leopardus tigrinus), dalaköttur (Leopardus geoffroyi) og koði (Leopardus guigna)
Á Vísindavefnum má finna mikið efni um ketti og kattardýr. Þetta efni má nálgast með því að nota leitarvél Vísindavefsins á forsíðu eða með því að smella á efnisorðin hér fyrir neðan.
Heimildir og myndir:
Hall, E.R. 1981. The Mammals of North America. John Wiley and Sons, Inc.
MacDonald, D. The new encyclopedia of mammals. Oxford
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um pardusköttinn (Leopardus pardalis)?“ Vísindavefurinn, 10. janúar 2007, sótt 2. apríl 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=6460.
Jón Már Halldórsson. (2007, 10. janúar). Hvað getið þið sagt mér um pardusköttinn (Leopardus pardalis)? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6460
Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um pardusköttinn (Leopardus pardalis)?“ Vísindavefurinn. 10. jan. 2007. Vefsíða. 2. apr. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6460>.